-Auglýsing-

Saga af bráðveikum og sjúkraflugi

Árni H HelgasonÍ hinu daglega lífi veitum við hlutum sem við teljum sjálfsagðir kannski ekki endilega mikla athygli.

VIð sem búum hér á Reykjavíkusvæðinu og lendum í því að fá hjartaáfall hringjum á sjúkrabíl og yfirleitt gengur það snarlega fyrir sig og innan stundar erum við komin á Landspítalann þar sem við erum í öruggum höndum færustu hjartasérfræðinga landsins sem geta þá beitt sinni kunnáttu tólum og tækjum til að lagfæra það sem er í ólagi.

-Auglýsing-

Aðra sögu er að segja af þeim sem búa úti á landsbyggðinni og lenda í skyndilegum og alvarlegum veikindum. Þetta fólk þarf að reiða sig á sjúkraflug og líf þeirra getur hreinlega oltið á því að þeir komist fljótt hingað suður. Í slíkum tilfellum sýna flugmenn og sjúkraflutningamenn mikið hugrekki og eru oft að eiga við mjög erfiðar veðurfarslegar aðstæður.

Í lok verslunarmannhelgarinnar varð sá hörmulegi atburður að ein sjúkraflugvélin fórst og með henni tveir af þeim sem sinnt hafa þessu fólki en fyrir kraftaverk lifði einn af. Við hér á hjartalif.is vottum aðstandendum þessara manna samúð okkar um leið og við minnumst þess að sjúkraflug á Íslandi hefur sjálfsagt bjargað fleiri mannslífum en tölu verður á komið.

Í janúar síðastliðnum fékk Árni H Helgason frá Akureyri hjartaáfall. Hann var bráðveikur og þurfti nauðsynlega á því að halda að komast suður yfir heiðar til aðhlynningar á Landspítalanum. Þetta er frásögn hans af þeirri upplifun, sem hann birti á fésbókarsíðu sinni og við fengum leyfi til að birta.

Kæru vinir!

- Auglýsing-

Aldrei hefur janúarvindurinn í höfuðborginni leikið ljúfar um vangann en s.l. þriðjudag þegar ég gekk örlítið reikull í spori út af Landsspítalanum eftir stutta en viðburðaríka dvöl á hjartadeildinni þar. Á bóndadaginn sjálfan fékk ég nefnilega vægt hjartaáfall, var í snatri lagður inn á FSA þar sem ég lá tengdur við ótal tól og tæki þangað til ég var sendur suður með sjúkraflugi á mánudagsmorgun. Flug lá annars að mestu niðri þennan dag vegna veðurs en snillingarnir hjá Mýflugi létu það ekki á sig fá og ákváðu að fara í þetta flug þrátt fyrir afleitar aðstæður. Eitt er víst en það er að þessi flugferð verður frú Kristínu afar minnisstæð! Þegar á Landsspítalann kom fór ég beint í hjartaþræðingu en þar kom í ljós að ekki mátti tæpara standa, lífið hékk bókstaflega á bláþræði og í raun er ég heppnari en orð fá lýst að ekki fór verr.

Ég reyndist vera með um 90% þrengingu í vinstri kransæð auk fleiri þrenginga á byrjunarstigi í sömu æð – nokkuð sem hjartalæknar kalla “Widowmaker” og lýsir kannski ástandinu vel. Ég ætla ekki að fara nánar út í smáatriðin hér en þeir sem vilja geta googlað “Widowmaker” og fræðst meira þótt ekki sé það neinn skemmtilestur.

Nú er þetta að baki, ég er á læknamáli það sem þeir kalla fullviðgerðan og við tekur nokkurra vikna uppbygging með gönguferðum og sjúkraþjálfun áður en ég sný aftur til vinnu, vonandi jafngóður eða betri en áður.

Þegar litið er um öxl sé ég glögglega hvernig smám saman er búið að draga af mér í vetur án þess að mér hafi dottið í hug að um hjartavandamál væri að ræða, jafnvel ekki þótt þetta sé í fjölskyldunni. Ég skrifaði þreytu, slen, leti (svolítið erfitt samt að greina það – ég hef aldrei verið nein sérstök hamhleypa til vinnu) og verki á allt annað en hjartað. Kvef, vinnuálag, aldur, ég var of saddur eða of svangur, veðrið, skammdegið. Ég leiddi ekki hugann að hjartanu fyrr en of seint enda taldi ég vitaskuld eðlilegt og sjálfsagt að bræður mínir þrír yrðu á undan mér eftir aldursröð að finna fyrir hjartaverk en auðvitað komu þeir svo vandanum yfir á þann yngsta!

Það er hægt að skrifa langan pistil um þessar hremmingar en ég ætla ekki að hafa þetta lengra, heldur er tilgangurinn með þessum skrifum að hvetja ykkur til þess að hlusta á líkamann og fara fyrr en síðar í hjartaeftirlit, ekki síst ef það er hjartveiki í ættinni ykkar. Hjá mér var það trúlega einmitt þessi erfðaþáttur, sem kom mér í koll. Það er því betra að fara einu sinni of oft í eftirlit en að gera það sjaldan eða alls ekki. Það er nefnilega með ólíkindum stutt á milli lífs og dauða en sem betur fer eigum við frábæra lækna og hjúkrunarfólk, sem ásamt áhöfn sjúkraflugvélarinnar komu í þetta sinn í veg fyrir að illa færi.

Drífið ykkur svo í eftirlit!

Hjartans kveðjur,
Árni Hrólfur

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-