-Auglýsing-

Ritstífla á bráðamóttöku

BráðamóttakaÞað er ekki ný saga að aðbúnaður sjúklinga og starfsfólks á Landspítalanum sé til umræðu. Þessi pistill er á léttum nótum en gæti allt eins átt við þær aðstæður sem eru í gangi í dag eins og þegar ég þurfti að leita á náðir spítalans í lok júní 2008 en í honum er komið inn á aðbúnað sjúklinga í gluggalausu rými og óheyrilegt álag á starfsfólk.  

15. júlí 2008

Öðru hvoru heyri ég eða les frásagnir af fólki sem hefur þurft á þjónustu bráðamóttöku að halda. Margar þessar frásagnir hafa yfir sér þann blæ að biðtími er gríðarlegur þannig að taugar sjúklings sem ekki líður vel eru þandar til hins ýtrasta.

Sjálfur hef ég nokkra reynslu af heimsóknum á bráðamóttöku og þó aðallega bráðamóttöku brjóstverkja við Hringbraut. Ég hef reyndar aldrei lent í því að bíða þar sem að brjóstverkjasjúklingar eru settir nánast beint inn á móttökuna og strax hafist handa við að finna út hvort um sé um að ræða.

Ég hef mikla samúð með því fólki sem þarf að bíða svo klukkustundum skiptir til að komast að á bráðamóttökunni en fyrir um þremur vikum síðan lenti ég í merkilegri upplifun á bráðamóttökunni sem er mér ofarlega í huga.

Ég kom inn á deildina um kl 8 að kvöldi til og settur beint í ból og blóðprufur teknar, blóðþrýstingur og farið yfir stöðuna. Fljótlega var ákveðið að þarna yrði ég geymdur yfir nóttina og í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja. Starfsfólk allt var til fyrirmyndar, elskulegt og fljótt að bregðast við öllum óskum sem fram voru bornar.

- Auglýsing-

Um klukkan 9 um morguninn kom til mín sérfræðingur sem ákvað að það væri rétt að leggja mig inn til að finna út af hverju óútskýrðir brjóstverkir mínir stöfuðu og var ég sáttur við þá lausn. Sá ég fram á að losna fljótlega úr gluggalausa rýminu sem er á bráðamóttökunni. Á bráðamóttökunni eru semsagt fimm rúm í gluggalausu rými sem út af fyrir sig er náttúrulega alveg galið og minnir helst á svarthol.

Ég beið eftir flutningi mínum upp á hjartadeild og klukkan varð tíu og hún varð ellefu og allt í einu varð allt brjálað að gera á vaktinni. Öll rúm voru orðin full og gangar orðnir yfirfullir og vantaði pláss. Ég benti á að það væri búið að ákveða að leggja mig inn og þá losnaði rúm. Hjúkrunarkonan sagi mér kurteislega að verið væri að ganga frá pappírunum og ég yrði sóttur fljótlega. Klukkan tvö eftir hádegi þá beið ég enn og atgangurinn á bráðamóttökunni var mikill og ég sá að þeim fjölgaði sem biðu og mörgum leið greinilega ekki vel.

Ég náði aftur tali af hjúkrunarkonunni og sagðist vera búinn að bíða í fimm tíma eftir að komast af bráðamóttökunni og pappíravinnan við innlögnina á spítalann gæti bara alls ekki verið fimm tíma verk. Þá fræddi hún mig á því ofurblíðlega að læknirinn sem væri á vaktinni væri búinn að vera á vakt síðan kl 8 um morguninn daginn áður semsagt í 30 tíma þegar þarna var komið við sögu, og hún bætti því við brosandi að vegna þessara miklu anna á móttökunni væri bara erfitt að komast í það að fylla út innlagnarpappíranna.

Ég sagði fátt en verð að viðurkenna að ég átti tiltölulega erfitt með að skilja rökin fyrir slíku verklagi og  fór nú að velta því fyrir mér að illa væri nú komið fyrir bráðveikum í landinu þar sem vakthafandi læknir væri búinn að standa vaktina í yfir 30 klukkustundir og gaf sér ekki tíma til að innskrifa fólk inn á spítalana vegna álags frá þeim sem væru að reyna að komast inn á yfirfulla bráðmóttöku.

Það er af mér að segja að það tókst fyrir rest að innrita mig á spítalann tæpum 9 klukkustundum eftir að ákvörðun um það lá fyrir. Ég hafði semsagt haldið uppteknu rúmi á bráðamóttöku allan daginn vegna þess að örþreyttur læknir gaf sér ekki tíma til að ganga frá innlagnarpappírum vegna anna.

Ekki veit ég hvort að læknirinn örþreytti var enn á vakt þegar ég yfirgaf bráðamóttökuna en hitt veit ég að rúmið á hjartadeildinni sem ég fór í var búið að vera laust frá því  um morguninn og enginn á ganginum.

Það er annars um sjúkrahúsdvöl mína að segja að hún gekk vel og greiðlega fyrir sig. Starfsfólk allt til fyrirmyndar, frábær þjónusta og hlýlegt viðmót.

Björn Ófeigs

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-