-Auglýsing-

Rannsókn á öryggismálum sjúklinga í uppnámi

SjúkrahúsStundum hef ég haft á tilfinningunni að öryggi sjúklinga sé orð sem aðallega sé notað á ráðstefnum og á öðrum tyllidögum. Næstum tveir einstaklingar á dag örkumlast vegna atviks eða mistaka inn á heilbrigðisstofnun og tæplega einn deyr af sömu orsökum annan hvern dag.

Síðustu ár hefur rannsókn á öryggi sjúklinga verið í vinnslu og miðað við hvernig gengur að fá fjármuni til verksins má ljóst vera að þetta málefni er ekki ofarlega á lista yfirvalda. Öryggi sjúklinga virðist almennt ekki valda almenningi miklu hugarangri heldur, þrátt fyrir þá staðreynd að 10% þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús komi til með að lenda í atviki innan heilbrigðisstofnunar.

-Auglýsing-

Talið er að um 2500 manns lendi í slíkum atvikum á ári hverju og um 600 hljóti varanlega örkuml og um 170 komi til með að láta lífið vegna mistaka eða atviks innan heilbrigðisþjónustunnar. Þetta þíðir að næstum tveir sjúklingar örkumlast á dag og annan hvern dag deyr sjúklingur vegna mistaka.

Ég veit ekki með ykkur en mér finnast þetta mjög sláandi tölur og sérstaklega þegar haft er í huga mögulega væri hægt að fækka þessum tilfellum um allt að helming með betra skipulagi og bættri öryggismenningu innan sjúkrahúsa.

Annað sem stendur öryggi sjúklinga fyrir þrifum er sú staðreynd að engin vill viðurkenna þessi mál eða tala um þau nema á tyllidögum, það er óþolandi.

Það er óþolandi að þolendur í þessum málum fái ekki góðar móttökur í kerfinu og er gert erfitt fyrir þegar kemur að því að sækja rétt sinn.

- Auglýsing-

Það er ekki óalgegnt að mistakamál sem fara í gegnum kerfið geta tekið átta til tíu ár í vinnslu og í sumum tilfellum fyrnast þau jafnvel í meðförum yfirvalda án þess að efnisleg niðurstaða hafi fengist.

Þetta þekki ég sjálfur af eigin raun.

Rannsóknin

Fréttablaðið fjallaði um rannsóknina síðasta Föstudag og er athyglisvert að þessi mál eru ekki í góðum farvegi.

Í greininni segir meðal annars:

Stjórnvöld ættu að leggja fram fjármagn til að ljúka við rannsókn á öryggi sjúklinga, er mat ábyrgðarmanns. Heilbrigðisráðherra telur hendur sínar bundnar og að slík fyrirgreiðsla komi ekki til greina. Til að ljúka vinnunni þarf tíu til tólf milljónir króna.
Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi landlæknir og forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, hefur um árabil bent á að ekkert bendi til annars en að reynsla annarra landa eigi við hér, til dæmis í viðtali við Fréttablaðið í júní 2010. Þá stóð fjárskortur rannsókninni fyrir þrifum, eins og nú.

“Mér finnst það ekki til fyrirmyndar að ekki sé hægt að fjármagna könnun af þessu tagi,” segir Sigurður spurður um skoðun hans á því að stjórnvöld klári ekki einfaldlega rannsóknina með fjárframlagi, eins og þráfaldlega hefur verið sóst eftir.

Sigurður bendir á að mikilvægi upplýsinganna sé einfaldlega svo mikið að slíkt ætti að koma til greina, ekki síst í því umhverfi niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu sem allir þekki. Niðurskurði fylgi aukin hætta á að öryggi sjúklinga aukist. “Þau rök hafa heyrst að mat á þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu eigi ekki að vera á könnu vísindasjóða heldur hins opinbera. Þetta er mat á gæðum heilbrigðisþjónustunnar, sem við erum alltaf að tala um, og í því samhengi er þetta ekki dýrt.”

- Auglýsing -

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra dregur ekkert úr mikilvægi rannsóknarinnar, heldur þvert á móti. En hann telur hendur sínar bundnar þar sem engin hefð sé fyrir því að ráðuneyti heilbrigðismála taki ákvörðun einhliða um að veita fjármagn með þeim hætti sem Sigurður nefnir. “Ráðherra situr því miður ekki á neinum sjóðum sem hægt væri að nýta í þetta verkefni, þótt það sé vissulega þarft að ljúka vinnunni,” segir Kristján.

Að lokum

Ég held að miðað við hvernig þetta mál er statt sé töluvert í það að niðurstöður rannsóknarinnar liggi fyrir. Jafnvel gæti hún dagað uppi því gríðarlega mörg mál er varða heilbriðgisþjónustuna eru í algjöru uppnámi og sér ekki fyrir endan á þvi ófremdarástandi.

Ég legg til að almenningur sem leggst inn á sjúkrahús sé meðvitaður um hættuna á slíkum atvikum innan heilbrigðisþjónustunnar og fólk verði duglegt að spyrja spurninga þegar það leggst inn á spítala.

Þar vinnur frábært starfsfólk sem vill öllum vel við ömurlegar aðstæður og mikið álag en við sem þurfum á þjónustunni að halda getum lagt okkar að mörkum með því að vera meðvituð um hvað er verið að gera eða á að fara að gera við okkur.

En þangað til alvöru öryggismenning verður stunduð á Landspítalanum verðum við bara að vona það besta en hafa jafnframt í huga að sjúkrahús eru hættulegur staður og ekkert sjálfsagt að sleppa þaðan óskaddaður.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-