-Auglýsing-

“Transfitusýrur væru kannski góðar í skóáburð”

Ef þú færð þér máltíð, sem samanstendur til dæmis af KFC-kjúklingi og frönskum, örbylgjupoppi og Póló-súkkulaðikexi frá Fróni, gætir þú verið að innbyrða allt að þrjátíu grömm af transfitusýrum í einni máltíð.

Rannsóknir sýna að fimm grömm af transfitusýrum á dag auka líkur á hjartaáfalli um 25% og hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælt gegn því að fólk innbyrði meira en sem nemur einu grammi af transfitusýrum á dag,” segir danski prófessorinn Steen Stender, sem jafnframt er yfirlæknir við háskólasjúkrahúsið í Gentofte.

-Auglýsing-

Stender hefur stundað rannsóknir á transfitusýrum lengi og á ferðalögum sínum vítt og breitt um heiminn tekið með sýni úr matvælum heim til Danmerkur í rannsóknaskyni, m.a. frá Íslandi. Eftir að matvælasvið Umhverfisstofnunar hafði samband við hann bauðst hann til að koma til Íslands á eigin kostnað til að halda kynningarfund fyrir íslenska sérfræðinga í matvælageiranum.

 ESB ákvað að kæra Dani ekki
Tilgangur Stenders með ferð sinni til Íslands var ekki síst sá að kynna íslenskum ráðamönnum danska reglugerð um efnið því honum er í mun að aðrar þjóðir fari að dæmi Dana. Í Danmörku var á árinu 2003 sett reglugerð, sem kveður á um að það feitmeti, sem reglugerðin nær til, megi ekki innihalda meira en tvö grömm af transfitusýrum per hundrað grömm af fitu. Þessi reglugerð nær þó ekki til transfitusýra sem eru í vörunni frá náttúrunnar hendi. Evrópusambandið gerði í fyrstu athugasemd við dönsku reglugerðina, en nú í aprílbyrjun féll ESB frá frekari málaferlum á hendur Dönum þótt reglugerðin kunni að hindra frítt flæði matvara innan ESB. Sýnt þótti að Danir væru með reglugerðinni að sporna gegn hugsanlegu heilsutjóni þegna sinna af völdum óæskilegs mataræðis, sem felst í neyslu transfitusýra. Danmörk er fyrsta landið í heiminum til að setja takmarkandi reglur um iðnaðarframleiddar transfitusýrur í matvælum og gilda þær einnig um innflutt matvæli. Allt að tveggja ára fangelsi er við brotum gegn reglugerð þessari.

 Í ljósi niðurstaðna bindur Stender nú vonir við að ESB fari að fordæmi Dana eða í það minnsta taki upp skyldumerkingar á transfitusýrum á umbúðum vara, líkt og Bandaríkjamenn hafa gert frá ársbyrjun 2006.

Danski prófessorinn hefur m.a. mælt transfitusýrur í matvælum keyptum á Íslandi á undanförnum mánuðum. Miðað við 100 grömm af fitu í matvælunum komst hann að því að mesta magn transfitusýra væri að finna í örbylgjupoppi eða 58,1 g. Í kexi og kökum fann hann 33,7 g og í djúpsteiktum skyndibita 25,9 g.

- Auglýsing-

Neikvæð samsetning blóðfitu
Að sögn Steens eru transfitusýrur mjög óhollar og hættulegar heilsunni. Þær draga úr góða kólesterólinu og auka vonda kólesterólið og hafa því afar neikvæð áhrif á samsetningu blóðfitunnar. Þetta eykur svo hættuna á hjartaáföllum, sem eru algeng á Íslandi. “Ég skil í reynd ekki af hverju framleiðendur þurfa að nota heilsuspillandi transfitusýrur í framleiðslu sína því það er svo auðvelt að sneiða hjá þeim, ef viljinn er fyrir hendi. Það væri í mesta lagi hægt að nota transfitusýrur í skóáburð, að mínu mati,” segir Steen.

Á Íslandi gilda engar reglur um hámark transfitusýra í matvælum. Hér á landi eru heldur enn engin áform um að fara að fordæmi Dana og setja ákveðnar reglur um notkun transfitusýra í matarolíum, viðbiti og smjörlíki, að sögn Brynhildar Briem, fagstjóra á matvælasviði Umhverfisstofnunar. Grunnrannsóknir og neyslukannanir yrðu að vera undanfari slíkrar ákvarðanatöku þótt líkur bendi til að transfitusýrur séu í meiri mæli hér en í nágrannalöndunum þar sem við flytjum meira inn af vörum frá Bandaríkjunum en hinar frændþjóðirnar.

3.000 Íslendingar í hættu
Transfitusýrur myndast aðallega þegar fljótandi olíu er breytt í fasta eða harða fitu, m.a. til að auka geymsluþol matvæla. Jafnframt geta transfitusýrur myndast við háan hita þegar verið er að hita eða steikja í olíu. Transfitusýrur er helst að finna í ýmsum unnum matvælum, t.d. í kexi, kökum, vínarbrauði, brauði, skyndibitafæði, þurrkuðum pakkamat, örbylgjupoppi og borðsmjörlíki.

“Í Danmörku hafa framleiðendur nú verið neyddir til að framleiða olíur og aðrar vörur án transfitusýra og nú er mjög auðvelt að kaupa þar mettaða olíu með ein- og fjölómettuðum fitusýrum í staðinn. Hingað til hefur mettuð fita verið talin fjandsamleg fita, en nú hefur það uppgötvast að transfita er enn verri “drápsfita”, eins og Bandaríkjamenn hafa gjarnan orðað það.

Ég hef helst áhyggjur af því fólki sem sækist mjög reglulega eftir skyndibita- og ruslfæði því það er án efa fólkið sem líka reykir, hreyfir sig minnst og borðar örugglega ekki fimm til sex ávexti á dag.

Ætla má að um þrjú þúsund Íslendingar séu í áhættuhópi og undir þessa sök seldir, en í öllu Evrópusambandinu má ætla að 4,7 milljónir manna séu í áhættuhópi, samkvæmt sömu útreikningum. Mest notkun transfitusýra í Evrópu er í Ungverjalandi, Tékklandi, Póllandi og Búlgaríu þar sem einnig er mest um hjarta- og æðasjúkdóma í Evrópu. Minnst er neyslan í Miðjarðarhafslöndum, en mun meiri á norðlægum slóðum,” segir Steen Stender.

Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur

join@mbl.is 

- Auglýsing -

Morgunblaðið 18.04.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-