-Auglýsing-

“Það verður hægt að gera við næstum hvað sem er”

Nýjungar á sviði stofnfrumna voru kynntar á fundi í Blóðbankanum í gær en þá var fjallað um notkun stofnfrumna í vefjaverkfræði og frumumeðferð á Íslandi. Að fundinum stóðu Blóðbankinn, verkfræði- og læknadeildir Háskóla Íslands, Össur hf. og University of California í San Diego. Að sögn Bernhards Ö. Pálssonar, prófessors við University of California, sameinar vefjaverkfræði líffræði, verkfræði og læknisfræði.

Nær endalausir möguleikar
Stofnfrumur eru ósérhæfðar, frumstæðar frumur sem finnast m.a. í beinmerg. Þegar þær skipta sér geta þær annað hvort haldið sér sem stofnfrumur eða breyst í ákveðna, sérhæfða vefjategund. Bernhard segir blóðbanka hingað til hafa einbeitt sér að merg og stofnfrumum í honum til að búa til blóðfrumur. Nú sé hins vegar stefnt að útvíkkun starfseminnar í meðhöndlun og rannsóknum á stofnfrumum sem geti framleitt aðra vefi, svo sem brjósk, bein og sinar og í framhaldi af því væri hugsanlega hægt að skoða taugafrumur. Í framtíðinni sé stefnt að því að framleiða vefi til að endurnýja hjartavöðva eftir hjartadrep. “Möguleikarnir eru næstum því ótakmarkaðir, það verður hægt að gera við næstum hvað sem er,” segir Sigurður Brynjólfsson, forseti verkfræðideildar Háskóla Íslands. Sigurður segir verkfræðina vera á hraðri leið inn í þessa veröld heilbrigðisvísinda. Yfirleitt byggist verkfræði á mikilli stærðfræði og eðlisfræði en þessi nýja lífverkfræði byggist meira á líffræðilegum grunni og hvernig nota eigi líffræði við hönnun. Það sé þó ekki nýtt að verkfræði tengist læknavísindum því finna má mikið af verkfræði á spítölum í kringum tækin sem þar er að finna.

-Auglýsing-

Taugar skipi gervilimum fyrir
Dr. Hilmar B. Janusson, framkvæmdastjóri rannsóknar- og þróunarsviðs Össurar hf., segir það hafa legið beinast við að fara í samstarf með Blóðbankanum því þar sé að finna mikla hæfni til að framkvæma hlutina. “Þeir eru komnir langlengst í meðferðarúrræðum og eru holdgervingur þessara breytinga. Þar er fólk sem kann að taka þetta frá byrjun til enda.”

Hilmar segir þátt Össurar í þessu vera að hafa augun opin fyrir þeim möguleikum sem bjóðast til að þróa tækni eða tækjabúnað sjúklinga þeirra. Þeir sjúkdómar sem þeir séu að fást við, t.d. sykursýki, slitgigt eða krabbamein, séu sjúkdómar sem verið er að þróa frumumeðferðarúrræði við.

Bernhard bætir við að í framtíðinni væri jafnvel hægt að tengja gervilimi, sem Össur framleiðir ásamt öðru, inn í taugakerfi þannig að taugar geti gefið gervilimunum skipun. Það yrði gert með vefjaverkfræði í kringum taugakerfið og gæfi sjúklingum beint vald á gervilimunum.

Nýr valkostur fyrir sjúklinga
Ýmsar breytingar felast í nýjum frumumeðferðum. “Venjulega hugsum við um að sprauta lyfjum í fólk en með þessu yrðu það frumurnar, sem fara inn í sjúklinginn, sem skapa lækninguna,” segir Bernhard. Að auki séu þessar frumumeðferðir staðbundnari, t.d. yrði sprautað beint inn í hné eða hjarta. Þar myndi fruman strax virkja af stað ákveðið ferli, renna saman við vefinn og byrja að endurnýja hann. Það tæki eflaust nokkrar vikur. Með frumumeðferðum byðist sjúklingum nýr valkostur fyrir meðferð.

- Auglýsing-

Að sögn Bernhards eru svona rannsóknir mjög dýrar og á tækjakosturinn stærstan þátt. Grunnrannsóknir fara yfirleitt allar fram í gegnum opinber styrkjakerfi og segir Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, þegar byrjað að sækja um úr mismunandi sjóðum. Hvað siðferðilegar hliðar málsins varðar segir Sveinn að í þessu tilviki sé sneitt framhjá siðferðilegum vandamálum þar sem um sé að ræða stofnfrumur úr fullorðnum einstaklingum en ekki úr fósturvísum.

Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur

ylfa@mbl.is

Morgunblaðið 12.06.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-