-Auglýsing-

“Okkar akkillesarhæll er að við önnum ekki eftirspurn nógu ört”

Langur biðlisti eftir hjartaþræðingu hefur verið í umræðunni síðustu daga. Um 200 manns bíða aðgerðar – sumir hverjir síðan í janúar. Ylfa Kristín K. Árnadóttir leitaði skýringa hjá Guðmundi Þorgeirssyni, sviðsstjóra lækninga á lyflækningasviði.

 

“STUTTA svarið er einfaldlega að við önnum ekki eftirspurninni,” segir Guðmundur. Í kringum 1.600 hjartaþræðingar voru framkvæmdar í fyrra en í ár stefnir fjöldinn í 1.800 eða að meðaltali fimm á dag. Í ársbyrjun 2004 var biðlistinn stuttur en mikill niðurskurður það árið tók sinn toll og í lok ársins var fjöldi sjúklinga á biðlista orðinn tvö hundruð. Að sögn Guðmundar má skýringar helst finna í tækjakosti og fjölda rúma á legudeildum.

Hjartaþræðingartækin samnýtt
Hjartaþræðingartækin tvö sem hjartadeild LSH hefur yfir að ráða eru einnig nýtt í aðrar aðgerðir, t.d. í gangráðsísetningar og brennsluaðgerðir við hjartsláttartruflunum. Útboð er hafið á þriðja tækinu sem vonast er til að verði komið í notkun fyrri hluta næsta árs. Guðmundur vonar að með tækinu komi nokkur gæslurúm til viðbótar, því án þeirra verði ekki hægt að nýta tækið til fulls.

Þá þurfi að halda öllum rúmum opnum til að hámarka afköstin. “Ef fráflæðið truflast, til dæmis ef við komum ekki öldruðum sjúklingum á öldrunardeild eða í endurhæfingu eða ef skurðdeildirnar anna ekki sjúklingunum sem þurfa hjartaaðgerð, þá truflar það afkastagetuna okkar,” segir Guðmundur en hann segir deildirnar háðar hver annarri og álag á einni deild hafi mikil áhrif á starfsemi annarra deilda.

Meiri þörf fyrir þræðingu
Hvað auknu eftirspurnina varðar segir Guðmundur hana stafa af því að öldruðum á Íslandi hafi fjölgað og þörf þeirra fyrir þessa þjónustu því aukist. “Fyrir 15-20 árum var gert mun minna af hjartaþræðingum og öðru slíku fyrir gamalt fólk með hjartasjúkdóma. Núna er þessu fólki veitt meiri þjónustu.” Þá hafa verið tekin í gagnið ný tæki sem eiga hægara með að greina kransæðasjúkdóma á byrjunarstigum.

Árið 2006 var meðalbiðtíminn eftir hjartaþræðingu 1,7 mánuðir en var kominn í rúmlega tvo mánuði í byrjun þessa árs. Sumir sjúklinganna þurfa að bíða í allt að 6-7 mánuði. “Þetta finnst okkur óásættanlegt og okkar markmið er að enginn bíði lengur en tvo mánuði.” Bráðatilvik hljóta þó forgang og er þeim sinnt nánast jafnóðum, hvenær sem er sólarhringsins. Tekið var upp á þeirri þjónustu fyrir nokkrum árum og segir Guðmundur árangurinn afar góðan. “Dánar- og fylgikvillatíðnin hefur hrapað hjá okkur og við erum mjög ánægð með þjónustuna. Síðan er alltaf verið að vinna í biðlistanum þannig að þeim er forgangsraðað sem eru veikastir og liggur mest á.” Guðmundur segir stuðning heilbrigðisráðuneytisins nauðsynlegan þar sem starfsemin sé háð rekstrarumhverfi spítalans sem rekinn er með miklu aðhaldi. “Það hefur ekkert verið afgangs í rými eða mannafla og það snýr beint að hjartadeildinni og vinnuumhverfi hennar. Hún getur ekki verið ósnortin af annarri starfsemi spítalans og því er mjög mikilvægt að ráðuneyti heilbrigðis og fjármála viðurkenni mikla þörf spítalans.”

- Auglýsing-

ylfa@mbl.is

Morgunblaðið 09.08.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-