-Auglýsing-

Opinberar ráðleggingar um mataræði

HollustaÞar sem umfjöllunarefni hjartalif.is þessa dagana er mataræði þá er vel við hæfi að kíkja aðeins á opinberar ráðleggingar Landlæknisembættisins / Lýðheilsustöðvar um mataræði.

Hrund Valgeirsdóttir næringarfræðingur MSc sem heldur úti bloggsíðunni naering.com tileinkaði hluta mastersritgerðar sinnar umfjöllun um hversu margir Íslendingar ná hinum ýmsu ráðleggingum um mataræði og næringarefni samkvæmt upplýsingum úr Landskönnun á mataræði Íslendinga árin 2010/2011. Þetta er þó ekki tæmandi listi en afar athyglisverður.

Niðurstöðurnar voru þessar:

  • 67% Íslendinga ná ráðleggingum fyrir mjólkurvörur(2-3 skammtar á dag)
  • 50% ná ráðleggingum fyrir fiskneyslu (2svar í viku)
  • 10% ná ráðleggingum fyrir lýsi (1 tsk á dag),
  • 20% ná ráðleggingum fyrir ávexti og ber (>200 g á dag)
  • 8% ná ráðleggingum fyrir grænmeti (>200 g á dag).
  • 3% Íslendinga ná ráðleggingum fyrir harða fitu (<10% á dag)
  • 68% ná ráðleggingum fyrir viðbættan sykur (<10% á dag)
  • 22% ná ráðleggingum fyrir trefjar (>25 g miðað við 2400 kkal á dag).

Hér er svo samantekt á helstu ráðleggingum Landlæknis / Lýðheilsustöðvar á mataræði sem voru gefnar út árið 2006.

  • Borða fjölbreytt fæði til að fá sem flest vítamín og steinefni.
  • Borða minnst 5 skammta af ávöxtum og grænmeti daglega. Þá er miðað við að 1 skammtur sé sirka 100 grömm. Það minnkar líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, sykursýki 2 og offitu.
  • Borða fisk minnst tvisvar í viku. Það hjálpar við blóðþrýstingstjórnun, blóðstorknun og bólgu- og ónæmissvörun líkamans. Minnkar líkur á hjartaáfalli.
  • Nota gróft brauð og trefjaríkt kornmeti. Þá ætti brauð að innihalda minnst 6 grömm af trefjum og velja frekar brún hrísgrjón og heilhveitipasta. Það minnkar líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki 2, háþrýstingi og krabbameini.
  • Borða/drekka 2 skammta af fituminni mjólkurvörum á dag. Það dregur úr hættu á beinþynningu, hefur jákvæð áhrif á blóðfitur, blóðþrýsting og þróun sykursýki 2. Best er að fara ekki upp fyrir 5 skammta samt og velja vörur sem eru fitulitlar og sykurskertar.
  • Velja olíu í stað harðrar fitu. Nota olíur í stað smjörs og smjörlíkis. Mikil hörð fita hækkar LDL kólesterólið og eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.
  • Nota salt í hófi. Of mikið salt á það til að hækka blóðþrýsting og auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.
  • Taka lýsi einu sinni á dag. Lýsið er besti D-vítamín gjafinn. D-vítamín hjálpar til að halda kalkstyrk eðlilegum sem svo hjálpar til við beinheilsuna.
  • Drekka vatn í stað annarra drykkja. Mikil neysla gos- og svaladrykkja getur stuðlað að offitu. Koffein ríkir drykkir hafa örvandi áhrif á líkamann og mikil neysla getur haft neikvæð áhrif á heilsuna. Óhófleg neysla áfengra drykkja getur hækkað blóðþrýsting og verið fitandi.
  • Halda sér í kjörþyngd. Meiri líkur hjá of þungu fólki að það fái sjúkdóma eins og sykursýki 2, hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein, gallsteinasjúkdóma, krankleika í stoðkerfi, geðræna kvilla og fleira.
  • Borða hæfilega stóra skammta. Til að þyngjast ekki.
  • Hreyfa sig minnst 30 mínútur að meðaltali á dag. Hreyfing kemur í veg fyrir marga sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki 2, offitu, beinþynningu, krabbamein og geðröskun.Það er sannarlega áhugavert að sjá hvað fáir ná þessum markmiðum sem Landlæknir / Lýðheilsustöð setur. Það skildi þó aldrei vera að Íslendingar gætu upp til hópa komið sér í góð mál með því að fylgja leiðbeiningum opinberra aðila og allir þessir matarkúrar og næringarstefnur væru bara til að rugla okkur í ríminu.

    Eða er kannski því um að kenna að fræðsla til almennings af hálfu opinberra aðila sé bara hreinlega ekki nógu góð eða nógu mikil.

    Ekki er það mitt að kveða upp dóma hvað það varðar en það er umhugsunarefni hvað þessar leiðbeiningar eru fyrirferðalitlar í almennri umræðu miðað við það gríðarlega magn af efni sem er í boði fyrir almenning þegar kemur að mataræði.

    - Auglýsing-

    Upplýsingarnar eru fengar af bloggsíðu Hrundar Valgeirsdóttur næringarfræðings naering.com. Netfang: naering@naering.com

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-