-Auglýsing-

Óeðlilegt hjartarit algengt meðal knattspyrnumanna

iStock 000005541876 ExtraSmallÓeðlilegt hjartarit er algengt meðal ungra íþróttamanna en þýðing þessa er óljós. Því er óvíst hversu gagnlegt hjartarit er við skimun fyrir áhættuþáttum skyndidauða meðal afreksíþróttamanna.

Þetta kemur fram í grein sem birt er í nýjasta tölublaði Læknablaðsins og byggir á rannsókn sem náði til 159 karlkyns íþróttamanna á Íslandi. Höfundar eru Arnar Sigurðsson læknanemi, Axel F. Sigurðsson hjartalæknir, Halldóra Björnsdóttir Hjartalæknir og Þórarinn Guðnason hjartalæknir.

-Auglýsing-

Rannsóknin var afturvirk og tók til knattspyrnumanna á Íslandi sem tóku þátt í Evrópukeppni karla á árunum 2008-2010. Þessir leikmenn gengust undir nákvæma læknisskoðun, hjartarit og hjarta-ómskoðun samkvæmt kröfum Evrópska knattspyrnusambandsins (UEFA). Farið var yfir rannsóknarniðurstöður 159 knattspyrnumanna á aldrinum 16-45 ára (meðalaldur 25,5 ár). Notast var við staðla og viðmið European Society of Cardiology og American Society of Echocardiography.

Mikið hefur verið fjallað undanfarið um skyndidauða knattspyrnumanna vegna dauðsfalla nokkurra leikmanna í fremstu röð á alþjóðavettvangi. Í flestum tilfellum er orsök þessara dauðsfalla rakin til undirliggjandi hjartasjúkdóma. Þetta hefur leitt til þess að víða erlendis eru knattspyrnumenn í fremstu röð skimaðir til að leita að undirliggjandi áhættuþáttum skyndidauða, svo sem merkjum um ofþykktarsjúkdóm í hjartavöðva eða aðra hjartasjúkdóma.

Í grein Læknablaðsins kemur fram að alls höfðu 84 knattspyrnumenn (53%) óeðlilegt hjartarit. Algengi óeðlilegs hjartarits fór lækkandi með aldri. Hjartaómskoðun sýndi að veggþykkt, massi og þvermál vinstri slegils jókst með aldri svo og þvermál vinstri gáttar. Enginn munur var á veggþykkt, massa og þvermáli vinstri slegils eða þvermáli vinstri gáttar milli þeirra sem höfðu eðlilegt eða óeðlilegt hjartarit.

Niðurstaða rannsóknarinnar er m.a. sú að tíðni óeðlilegs hjartarits hjá íslenskum knattspyrnumönnum er há en bendir yfirleitt ekki til undirliggjandi hjartasjúkdóms. Tíðnin fer lækkandi með aldri. Hjartarit hefur samkvæmt rannsókninni ekki forspárgildi fyrir breytingar á veggþykkt eða þvermáli vinstri slegils. Há tíðni óeðlilegs hjartarits meðal yngstu einstaklinganna dregur úr gagnsemi hjartarita við skimun fyrir hættu á skyndidauða, að því er fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar.

- Auglýsing-

mbl.is 04.06.2013

Hér má heyra viðtal við Axel F. Sigurðsson hjartalækni um málið í kvöldfréttum RÚV

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-