-Auglýsing-

Nýtt tæki bætir þjónustu við hjartasjúklinga

Landspítalinn á tvö hjartaþræðingartæki eins og er, þau einu á landinu. Að sögn Guðmundar Þorgeirssonar hjartasérfræðings og sviðsstjóra lyflækningasviðs I á Landspítala er annað þessara tækja mjög komið til ára sinna.

„Það er þó enn nothæft en ekki alveg á það að treysta, það gæti bilað alvarlega hvenær sem er,“ segir Guðmundur.

„Við viljum ekki kasta því heldur eiga það til vara þegar það þriðja kemur, sem verið er að safna fyrir nú.“

-Auglýsing-

– En hvernig er nýja tækið sem á að kaupa fyrir söfnunarféð?

„Það verður sérhæft til hjartaþræðinga og kransæðamyndatöku. Þess má geta að annað af þeim tveimur tækjum sem til eru nú er heilmikið notað til raflífeðlisfræðilegra rannsókna og meðferðar. Mikið er nú beitt brennsluaðferðum til að meðhöndla hjartsláttaróreglu, það felst m.a. í að brenna aukabrautir í hjarta.“

– Er nýja tækið ætlað til slíkra nota líka?

„Það verður hægt að nota það en tækið verður ekki valið sérstaklega með það í huga.“

- Auglýsing-

– Er mikil þörf á hinu nýja tæki?

„Já gríðarlega mikil. Í fyrsta lagi eru tækin tvö sem nú eru í notkun nánast fullnýtt, í öðru lagi er annað þeirra komið á tíma, sem fyrr sagði og ekki hægt að treysta á það. Í þriðja lagi þarf að auka umsvifin vegna biðlista og vaxandi þarfa fyrir þessa þjónustu.“

– Eru biðlistar langir núna?

„Þeir eru að styttast, nú bíða um 150 til 160 sjúklingar, fyrir nokkru voru þeir 250. En betur má ef duga skal. Nýja tækið er hluti af þeirri hernaðaráætlun.“

– Eru breytingar á hjartalækningum í nánd?

„Já. Það er vissulega margt að gerst, ekki síst á sviði lyfjameðferðar og í dýpri skilningi á eðli og meingerð hjartasjúkdóma. En það er ekki fyrirsjáanleg stórkostleg breyting á þeim aðgerðum sem nú er boðið upp á í náinni framtíð. En við sjóndeildarhringinn má þó sjá mjög spennandi nýjungar, til dæmis er farið að skipta um hjartalokur án skurðaðgerðar og síðan er heilmikil þróun í brennsluaðgerðum sem laga gáttatif og gáttaflökt.“

– Er hægt að hjálpa mörgum með svona brennsluaðferðum?

„Þessu er ekki beitt ef auðveldlega tekst að halda takttruflun í skefjum með lyfjum. Hins vegar er árangur að batna af þessum brennsluaðferðum og það má vel vera að þær ryðji sér enn frekar til rúms innan ekki langs tíma.“

- Auglýsing -

– Hvað getur þú sagt um árangur þess starfs sem nú fer fram í hjartalækningum á Landspítalanum?

„Hann er mjög góður og sérstaklega höfum við upplýsingar um góðan árangur af bráðakransæðavíkkun sem hafa gerbreytt horfum sjúklinga sem fá kransæðastíflu. Þessi bráðakransæðavíkkun minnkar afleiðingar af stíflunni, drep í hjartavöðva verður miklu minna en ella.“

– Gerið þið ykkur góðar vonir um að fá nýja tækið í haust?

„Já, við gerum okkur miklar vonir um það. Styrktarsjóður Jónínu Gísladóttur hefur þegar lagt stórfé til þessara kaupa og Hjartaheill gengur nú fram fyrir skjöldu til að klára dæmið. Við gerum okkur vonir um að almenningur bregðist vel við þegar leitað verður stuðnings fólks svo hægt verði að kaupa þetta tæki, sem svo mörgum getur hjálpað.“

Morgunblaðið 01.06.2008

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-