-Auglýsing-

Níu ár frá hjartaaðgerð

iStock 000007808634 ExtraSmallÞað er yfir mörgu að gleðjast þessa dagana og þó ég fagni sumrinu af heilum hug þá held ég líka upp á það í dag að í dag eru níu ár síðan ég fór í DOR aðgerðina þar sem gúlpurinn sem ég fékk á vinstri slegilinn á hjartanu var fjarlægður og slegillin endurmótaður.

Það var hin sérstaklega skemmtilegi og eldklári Bjarni Torfason hjartaskurðlæknir sem skar mig og ég held að ég geti fullyrt að aðgerðin hafi gengið vel og reynst mér vel. Mánuðina fyrir aðgerðina upplifði ég mig sem deyjandi mann en eftir aðgerð hefur sú tilfinning ekki barið dyra hjá mér.

Ég tók saman til gamans búta úr pistlum sem ég skrifaði um undirbúninginn fyrir aðgerð og svo þegar ég vaknaði upp á gjörgæslu í þessu nýja lífi.

Undirbúningur fyrir aðgerð

Mér var ljóst að framundan var erfiður undirbúningstími og myndi reyna mikið á mig og Mjöll. Ég ákvað strax að undirbúa mig eins vel og ég gat, vona það besta en gera jafnframt ráð fyrir því að eitthvað gæti farið úrskeiðis þannig að ég ætti ekki afturkvæmt af skurðarborðinu á lífi.

Þetta var að mörgu leyti sérstakur tími, en fyrst á morgnanna eftir að ég vaknaði átti ég alltaf fullkomna stund þar sem mér leið vel og fannst ekkert ama að mér. Það breyttist þó jafnskjótt og ég fór á fætur. Ég átti í erfiðleikum með af fara í sturtu og einfaldar afhafnir daglegs lífs voru mér nánast um megn, þetta voru erfiðir tímar og ég hafði tilhneigingu til að draga mig í hlé.

- Auglýsing-

Ég fór vikulega að hitta sálfræðing sem hjálpaði mér að búa mig undir aðgerðina og það var gott en líka dálítið kómíst. Ég talaði stundum um Guð en þá var eins og við manninn mælt að sálfræðingurinn fór að tala um Golf. Mér þótti alltaf gott að koma til hans þrátt fyrir þetta og þetta hjálpaði mér á þessum erfiðu vikum.

Inn á milli var ég  lítill í mér og smár og leitaði oft í fangið á Mjöll sem var einstök eins og ævinlega. Þó ég geri mér grein fyrir því að þetta hafi verið erfitt fyrir hana átti ég ekki mikið afgangs til að sinna henni og mér fannst það stundum erfitt. Ég bað Guð oft um að gefa mér hugrekki því það var eitthvað sem ég vissi að ég þyrfti mikið á að halda þegar að aðgerðinni kæmi.

Ég fór í gegnum allt líf mitt áður en ég fór í aðgerðina og ákvað eins og áður sagði að fara í hana undirbúinn undir það að deyja. Við Mjöll sátum saman og ég valdi mér sálma og lög sem átti að syngja í jarðaförinni ef ég ætti ekki afturkvæmt. Þetta var bæði gríðarlega erfitt en um leið fólst einhver undarleg heilun í þessu ferli sem færði frið.

Ég hugleiddi mikið hvort það væri eitthvað sem mér fyndist ég eiga ógert eða óuppgert við annað fólk. Ég eyddi því töluverðum tíma í að hitta gamla vini mína og lagði mig fram um að skilja helst ekki eftir mikið af lausum endum. Þessar vangaveltur mínar höfðu góð áhrif á mig og ég varð sáttari við sjálfan mig, ég fann fyrir smæð minni og samhengi hlutanna varð annað.

Ég var duglegur að heimsækja fjölskyldu mína og gerði upp fullt af gömlum málum án þess kannski að fara í langar umræður. Kannski var það sem skipti mig mestu máli á þessum tíma að finna mannlega nærveru, vera saman með fólkinu mínu og finna fyrir því, segja því frá því að mér þætti vænt um það og kynni að meta það.  Ég hef alla tíð átt töluvert erfitt með snertingu við fólk en nú þarfnaðist ég hennar og sóttist eftir henni þar sem ég fann hversu nærandi hún var og hafði góð áhrif á mig, ég varð innilegri við fólkið mitt og einlægari, varð betri manneskja.

Það er sannarlega undarleg tilfinning að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að hugsanlega eigi ég ekki afturkvænt af skurðarborðinu en upplifa samt sem áður þakklæti fyrir lífið og hvað það er ekki sjálfsagt að fá að draga andann frá degi til dags, ég varð þakklátari fyrir það sem ég hafði, hver dagur var gjöf.

Ég vonaði hinsvegar einlæglega að þessi undirbúningur minn myndi ekki nýtast en það var mér samt mikilvægt að vera meðvitaður um að það væri ekkert sjálfsagt að fara í opna hjartaskurðaðgerð og að allt færi á besta veg.  Þar sem þetta var ekki heldur alveg hefðbundin aðgerð þá var hættan vissulega meiri að eitthvað gæti farið úrskeiðis og um það var ég meðvitaður.

Dagurinn og kvöldið fyrir aðgerð

- Auglýsing -

Daginn og kvöldið fyrir skurðdag er allt dálítið þokukennt. Hlutirnir höfðu gengið hratt fyrir sig því ég var kallaður inn fyrr, en við áttum von á, þannig að við vorum dálítið óviðbúinn. Við Mjöll höfðum hugsað okkur að eiga náðugan og rólegan morgun áður en ég þyrfti að fara niður á spítala og njóta samvista við hvort annað en tíminn hljóp frá okkur og við vorum orðin sein og þá fór allt í stress. Ég held ég hafi keyrt mig í einhvern hörkugír því þetta var allt saman skrambi erfitt.

Þegar ég kom niður á spítala var ég  rakaður frá toppi til táar, sótthreinsaður og skrúbbaður.

Ég var frekar sorgmæddur og dapur í bragði því ég vissi í sjálfu sér ekkert hvað var framundan þó ég vissi í sjálfu sér í hverju aðgerðin var fólgin. Ég reyndi samt að bera mig mannalega, en er ekki viss um að það hafi alltaf tekist. Ég fann að Mjöll leið ekki vel og skyldi engan undra og mér fannst leiðinlegt að vita í rauninni ekki hvað ég átti að segja eða hvernig ég átti að styðja hana.

Ég hugsaði dálítið um það hvernig það væri ef ég myndi deyja. Mér fannst sorglegt að hafa ekki eignast börn og ég hugsaði til þess hvað það yrði erfitt fyrir Mjöll og alla mína nánustu ef illa færi.

Ég reyndi samt eftir fremsta megni að bægja þessum hugsunum frá mér því það er svo auðvelt að verða hreinlega bugaður af sorg og trega á slíkum stundum. Ég reyndi að vera bjartsýnn og hugrakkur því það var það sem ég þurfti helst á að halda.

Þrátt fyrir allt var ég sáttur við líf mitt og ef þetta væri endastöð þá var ég tilbúinn, en mig bara langaði ekkert til að deyja og það var erfið hugsun að það væri  engu að síður möguleiki í stöðunni.

Ég kvaddi Mjöll og vætti svo koddann minn dálítið, ég svaf ekki mikið, var einmana og mig vantaði Mjöllina mína. Um morguninn var ég sóttur og keyrður inn á skurðstofu. Ég var ósköp lítill í mér, mér var kalt og ég hugsaði með mér að kannski væru þetta mínar síðustu minningar úr þessu lífi.

Nýtt líf  

Ég var ekki alveg viss um það í fyrstu hvort ég væri lífs eða liðinn. Það var eins og einhver héldi heljargreipum um brjóstkassann á mér og ég gat ekki talað. Ég skildi hvorki upp né niður í tilveru minni en sársaukin og óþægindin gerðu það að verkum að ég hugsaði með mér að ég hlyti að vera á lífi, Guð myndi ekki gera nokkurri manneskju svo illt að láta hana finna svona til ef hún á annað  borð væri dáin.

Ég fór smám saman að skilja að ég væri vaknaður eftir aðgerðina og skyndilega áttaði ég mig á því að ég hafði lifað aðgerðina af. Ég hafði kannski lifað af en ég var órólegur og mér leið ekki vel, ég var hræddur. Ég fann að sumar af hugsunum mínum voru ekki endilega alveg réttar og ég var ringlaður og stutt í allskyns ranghugmyndir.

Skyndilega birtist andlit sem engill í sjónlínu minni og brosti. Ég reyndi að segja að ég fyndi til í brjóstinu og ég væri þyrstur, en ég kom ekki upp orði. Ég held hún hafi sagt mér að ég væri með túpu og þess vegna gæti ég ekki talað. Ég benti á brjóstkassann á mér og gretti mig, benti síðan á varirnar á mér og gretti mig meira, mér leið skelfilega. Konan með elskulega andlitið vætti á mér varirnar og sagði mér að verið væri að reyna að hjálpa mér með verkina. Ég held að ég hafi grátið og ég var hræðilega einmana og skalf af kulda. Konan sagði mér að hún ætlaði að fjarlægja túpuna og ég ætti að anda djúpt og svo frá mér. Túpan var dregin upp og andartak náði ég ekki andanum og mér fannst ég vera að kafna, kannski var ég að deyja eftir allt saman. Skyndilega náði ég andanum aftur en ég veit ekki hvort það var betra því verkirnir í brjóstinu voru hræðilegir. Allt í einu uppgötvaði ég að það var eins og eitthvað væri inni í brjóstinu á mér og ég heyrði í því, svo var eins og það þrýstist í hálsinn á mér. Mér var sagt að ég væri með „balloon” pumpu til að hjálpa hjartanu að dæla, svona rétt á meðan það væri að jafna sig á að skorið hafði verið í það og hluti þess fjarlægður, hlutinn sem hafði skemmst í hjartaáfallinu.

Konan með elskulega andlitið kynnti sig, sagðist heita Friðrika en kölluð Dikka og strauk mér blíðlega yfir ennið, mér leið betur. Hún var hjúkrunarkonan mín og hún var góð við mig og ég þurfti sárlega á því að halda eins og staðan var. Skyndilega birtist Mjöll fyrir framan mig og ég vissi að allt myndi verða í lagi og reyndi að brosa, elskulega dásamlega Mjöllin mín var komin. Dikka spurði Mjöll hvort henni væri sama þó hún nuddaði  á mér fæturna. Mjöll kinkaði kolli og ég fann hvað þessi mannlega nánd og snerting gerði mér gott og róaði mig.

Mér fannst gott að hafa Mjöll hjá mér og ég sagði henni að nú hefði verið fjarlægður sá hluti hjarta míns sem hefði tilheyrt öðrum konum, nú ætti hún mig ein. Hjúkrunarkonan kímdi og Mjöll flissaði. Ég vissi það ekki alveg sjálfur og áttaði mig ekki alveg á hvernig þetta hljómaði  en það skipti ekki máli. Hjúkrunarkonan nuddaði fætur mínar og Mjöllin mín strauk mér um andlitið.  Ég var ekki lengur einmanna deyjandi maður.  Tárin runnu en verkurinn í brjóstinu skipti ekki máli ég var umvafinn umhyggju ástúð og hlýju og ég var á lífi.

Björn Ófeigsson
bjorn@hjartalif.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-