-Auglýsing-

Náttúruefni og þrálátar bólgur

Sigmundur Guðbjarnarson skrifar alltaf afar fróðlega pistla á Eyjunni.is og hér kemur einn þeirra.

Bólgur eru eðlileg viðbrögð ónæmiskerfisins við sýkingum og meiðslum. Örvaðar hvítar blóðfrumur gefa frá sér ýmis efni sem örva bólgur. Eftir að líkaminn hefur jafnað sig þá róast ónæmiskerfið. Þetta gerist þó ekki alltaf og þrálátar bólgur á lágu stigi geta skaðað mörg  líffæri, t.d. hjartað, heilann, liðamót o.fl.

Þrálátar bólgur eiga þátt í mörgum sjúkdómum svo sem liðagigt og astma en einnig í kransæðasjúkdómum, Alzheimers sjúkdómi og ýmsum tegundum krabbameina. Þrálátar bólgur í æðaveggjum eru m.a. taldar eiga þátt í æðakölkun og hjarta- og æðasjúkdómum.

Náttúruefni í grænmeti, ávöxtum og lækningajurtum geta dregið úr bólgum og þeim erfiðleikum sem bólgur geta valdið. Sýnt hefur verið fram á að imperatorin o.fl. fúranókúmarín hindra prostaglandin E2 framleiðsluna úr arachidon sýru. Imperatorin virkar með því að hindra framleiðslu á tveimur ensímunum, cyclooxygenasa (COX) og prostaglandin synthasa. Önnur bólgueyðandi efni eru xanthotoxin og osthole. Imperatorin hindrar einnig T-frumu fjölgun en þessar frumur eru virkar í bólgumyndun.

Jurtir með virkni gegn bólgum: gulrætur, nípa, sellerí (blaðselja), parsley (steinselja), ætihvönn, engifer, karrý, vallhumall, bláber, epli, brokkoli, spínat, laukur, grænt te o.fl.

Virk efni í jurtunum: fúranókúmarín (imperatorin, isoimperatorin, xanthotoxin), falcarinol, osthole, curcumin, flavonoidar (quercetin, rutin, hesperidin, diosmin o.fl).

- Auglýsing-

Áhrif efnanna: bólgueyðandi efni í náttúrunni draga úr bólgum með því að hindra bæði myndun og virkni ensíma, phospholipasa A2, cycloxygenasa og lipoxygenasa, og framleiðslu bólgumyndandi prostanoida þ.e. bólguvaka.

Mataræðið hefur áhrif á bólgur: Rannsóknir hafa sýnt að omega-3 fitusýrur, einkum EPA og DHA úr fiski og lýsi, hafa bólgueyðandi áhrif og gætu verið gagnlegar við meðferð á bólgum og sjálfsofnæmissjúkdómum. Omega-6 fitusýrur, sem eru einkum í jurtaolíum (kornolíu, sojaolíu o.fl.), leiða til framleiðslu á öflugum bólguvökum, t.d. eicosanoidum, sem stjórna myndun bólguboðefna og tjáningu mikilvægra bólgugena.

Omega-3 og omega-6 fitusýrur hafa ólík og andstæð áhrif á bólgur. Ólífuolía hefur olíusýru sem er omega-9 fitusýra og virðist hún minnka bólgur. Úr ólífuolíu myndast ekki bólguvakar og er þessi olía því mjög heppileg matarolía.

Hlutfallið n-6/n-3 segir til um það hve miklu meira er af omega-6 fitusýrum en omega-3 fitusýrum í fæðunni. Þetta hlutfall er mjög mikilvægt, það var á öldum áður 1:1 til 4:1 en er nú um 10:1 til 30:1, en það táknar að það getur verið 30 sinnum meira af omega-6 fitusýrum en omega-3 fitusýrum í fæðunni sem er allt of mikið.

Nú er verið að rannsaka hvort stóraukin neysla á fjölómettuðum jurtaolíum, sem lækka kólesteról í blóði, hafi jafnframt valdið mikilli aukningu á bólgum og bólgusjúkdómum.

Flavonoidar gegn bólgum: Í grænmeti, ávöxtum og lækningajurtum sem eru talin upp hér að framan eru flavonoidar: (quercetin, rutin, hesperidin, diosmin o.fl.). Þessir flavonoidar draga úr bólgum, þ.e. hafa „anti-inflammatory“ virkni, með því að hindra bæði myndun og virkni ensíma sem geta stuðlað að bólgum, (þ.e. phospholipasa A2, cyclooxygenasa og lipoxygenasa), og minnka þannig styrk efna (prostaglandina og leukotriena) sem valda bólgum.

Efnafræði flavonoida er nokkuð flókin en allir flavonoidar hafa sömu grunnbyggingu, þrí-hringa sameind. Fjöldi efnahópa geta verið tengdir á flavonoid sameindina og eykur það fjölbreytnina en tekist hefur að greina >4000 mismunandi flavonoida. Flavonoidar eru oft í fæðu tengdir sykursameindum (t.d. glukósa,).

Fúranókúmarín gegn bólgum: Fúranókúmarín eru t.d. í ætihvönn, nípu, parsley, sellerí, fennel og fleiri jurtum af sveipjurtaætt. Þrjú fúranókúmarin hafa einkum verið rannsökuð með tilliti til áhrifa á bólgur, imperatorin, isoimperatorin og prantschimgin. Þessir fúranókúmarínar sýndu virkni gegn ensíminu 5-lipoxygenasa og hindra myndun á bólguvakanum leukotrieneC4. Imperatorin og isoimperatorin sýndu virkni gegn cyclooxygenasa-1 og cyclooxygenasa-2 sem mynda bólguvakann prostaglandin E2 og höfðu svipaða virkni gegn bólgum og lyfin indomethacin og nimesulide. Imperatorin og isoimperatorin eru tvöfaldir hindrarar, hindra bæði virkni cyclooxygenasa og lipoxygenasa við efnahvörf arachidon sýru. Prantschimgin hindrar hins vegar aðeins 5-lipoxy-genasa.

- Auglýsing -

Almennar ráðleggingar fyrir þá sem glíma við bólgusjúkdóma
1.Hafið fisk á matseðlinum 2-4 sinnum í viku. Takið einnig lýsi því omega-3 fitusýrur sem eru í öllum fiski og í lýsi geta hjálpað í baráttu við þrálátar bólgur.
2.Aukið neyslu á ávöxtum og grænmeti því þau hafa andoxunarefni, flavonoida og fúranókúmarín sem geta dregið úr bólgum. Grænmeti: gulrætur, sellerí, ætihvönn, brokkoli, kál, fennel, grænar baunir, spínat, sætar kartöflur, o.fl.    Ávextir: epli og eplasafi, bláber, kirsuber, jarðaber, sítrónur, appelsínur, o.fl.
3.Notið lauk og ólífuolíu við matseld  en þau geta hjálpað í baráttu við bólgur.
4.Notið bólgueyðandi krydd t.d. engifer, karrý og rósmarín.
5.Dragið úr fituneyslu, einkum dýrafitu í nokkrar vikur og athugið hvort bólgan minnkar.
6.Stundið hreyfingu reglulega, t.d. sund, göngur, æfingar o.s.frv.
7.Dragið úr sykurneyslu.
8.Takið C og D vítamín.

Ekki hentar öllum hið sama. Vissar fæðutegundir geta aukið bólgumyndun og ættu menn að forðast þær. Slíkar fæðutegundir á þá að forðast t.d. í mánuð og sjá hvort bólgur minnka. Síðan er hægt að bæta þeim við aftur einni í einu til að sjá hvort það hefur áhrif til hins verra. Sumum hentar að forðast tómata, kartöflur, osta, unnar kjötvörur o.fl.

Heimildir:

Hér er getið heimilda svo menn geti kynnt sér efnið betur.

Anti-inflammatory properties of plant flavonoids. Effects of rutin, quercetin and hesperidin on adjuvant arthritis in rat. Guardia T, Rotelli AE, Juarez AO, Pelzer LE. Farmaco. 2001; 56: 683-687.

Anti-inflammatory plant flavonoids and cellular action mechanisms. Kim HP, Son KH, Chang HW, Kang SS. J. Pharmocol. Sci. 2004; 96: 229-245.

Inhibitory effects of furanocoumarins isolated from the roots of Angelica dahuria on prostaglandin E2 production. Ban HS, Lim SS, Suzuki K, Jung SH, Lee S, Lee YS, Shin KH, Ohuchi K. Planta Med. 2003; 69: 408-412.

Anti-inflammatory and analgesic activities from roots of Angelica pubescens. Chen YF, Tsai HY, Wu TS. Planta Med. 1995; 61: 2-8.

Imperatorin inhibits T-cell proliferation by targeting the transcription factor NFAT. Marquez N, Sancho R, Ballero M, Bremner P, Appendino G, Fiebich BL, Heinrich M, Munoz E. Planta Med. 2004; 70: 1016-1021.

Effects of furanocoumarins from Cachys trifida on some macrophage functions.

Journal of Pharmacy and pharmacology 2001; 53: 1163-1168.

www.eyjan.is  09.11.2010

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-