„VIÐ erum þegar farin að undirbúa atkvæðagreiðslu meðal hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu um algjört yfirvinnubann frá 10. júlí. Það verður rafræn kosning, þannig að við munum reyna að keyra þetta eins hratt í gegn og við getum,“ segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, um fyrirhugað yfirvinnubann.
„Ef tillagan verður samþykkt þurfum við að boða yfirvinnubannið formlega með 15 daga fyrirvara. Þetta tekur allt tíma og þess vegna veljum við 10. júlí, þannig að þetta verði allt um garð gengið.“
Elsa segir „hjúkrunarfræðingana sjálfa hafa ákveðið að taka ekki aukavaktir“ og að tillagan um atkvæðagreiðsluna „muni fara í sama ferli og ef um verkfall væri að ræða“. Hún segir ljóst að yfirvinnubannið myndi valda „mjög verulegri röskun á allri starfsemi“ hjá Landspítalanum, enda álagið þegar mikið.
-Auglýsing-
Morgunblaðið 06.06.2008
-Auglýsing-