-Auglýsing-

Mígreni tengt hjartasjúkdómum

Lyfja- og faraldsfræðingurinn Lárus Steinþór Guðmundsson ver doktorsritgerð sína „Tengsl mígrenis, blóðþrýstings og bólgusvars við dauða vegna hjarta- og æðasjúkdóma” við Læknadeild Háskóla Íslands á föstudag.

Helstu niðurstöður verkefnisins eru þær að fólk á miðjum aldri sem þjáist af mígreni höfuðverkjum ásamt áru deyr frekar vegna hjarta- og æðasjúkdóma en þeir sem ekki þjást af slíkum höfuðverk. Einstaklingar með mígreni án áru eru hins vegar ekki í aukinni hættu. Ára lýsir sér sem sjóntruflanir, svimi eða dofi fyrir mígrenikast.

-Auglýsing-

Niðurstöðurnar byggja á gögnum úr hóprannsókn Hjartaverndar sem hófst árið 1967. Í henni var 18.725 þátttakendum af báðum kynjum fylgt eftir að meðaltali í 26 ár eftir að þeir höfðu svarað spurningum um ýmsa þætti tengda hjarta- og æðasjúkdómum. Í rannsókninni voru einnig gerðar ýmsar klínískar mælingar eins og blóðþrýstings- og blóðfitumælingar. Með úrvinnsluaðferðum í faraldsfræði var hægt að meta dánarlíkur tengdar mígreni með og án áru og leiðrétta jafnframt fyrir áhrifum annarra áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma. Við það kom í ljós að mígreni með áru er sjálfstæður áhættuþáttur. Hann er hins vegar mun vægari en þekktir áhættuþættir eins og reykingar, sykursýki og háþrýstingur. Ekki fannst samband milli mígrenis og háþrýstings og bólgusvar var ekki hærra meðal einstaklinga með mígreni samanborið við aðra.

En hver er skýringin á þessum tengslum mígrenis með áru við hjarta- og æðasjúkdóma?

„Það eru ýmsar kenningar til og sumir hallast að því að skýringuna sé að finna í æðaveggjunum. Fyrri rannsóknir benda til þess að samband sé á milli mígrenis og heilablóðfalls en hingað til hefur það verið meira á reiki hvort það hafi áhrif á hjartað. Okkar niðurstöður benda til þess að það sé samband á milli mígrenis með áru og bæði heilablóðfalls og kransæðastíflu. Mígrenið virðist því ekki bara tengt við höfuðið heldur er allt æðakerfið undir,” segir Lárus.

Hann segir hefðbundnum áhættuþáttum eins og reykingum, sykursýki og háþrýstingi hægt að stýra og að ýmislegt bendi til þess að það sama eigi við um mígreni.

- Auglýsing-

„Það þyrfti hins vegar að rannsaka það frekar hvort ákveðin íhlutun dragi úr líkum á því að fólk sem er með mígreni með áru deyi úr hjarta- og æðasjúkdómum. Það sem við þó vitum er að það er hægt að hafa áhrif á tíðni mígrenikasta með bæði lyfjagjöf og lifnaðarháttum.”

Doktorsvörn Lárusar fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu. Hún er öllum opin og hefst klukkan 10.

www.visir.is 10.11.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-