-Auglýsing-

Meiri ávexti og grænmeti – heilsunnar vegna!

Hollráð um heilsuna frá Lýðheilsustöð.: Rífleg neysla grænmetis og ávaxta virðist minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, ýmsum tegundum krabbameina, sykursýki af gerð 2 og offitu. Hollusta þessara fæðutegunda er meðal annars fólgin í ríkulegu magni þeirra af vítamínum, steinefnum, trefjum og öðrum hollefnum. Áhrifin virðast meiri eftir því sem meira er borðað af mismunandi tegundum ávaxta og grænmetis en einstök efni í töfluformi hafa ekki sömu áhrif. Ráðleggingin 5 á dag eða 500 g af grænmeti og ávöxtum á dag er því enn í fullu gildi.

Ávaxta- og grænmetisneysla hér á landi hefur almennt aukist á undanförnum árum en við þurfum að gera enn betur. Gott ráð er að fara yfir neysluvenjur sínar og sjá hverju má hnika til og breyta til að við borðum meira af ávöxtum og grænmeti yfir daginn.

Hvernig getum við auðveldlega aukið neysluna?Kjörið er að byrja daginn með ávöxtum, enda bragðast þeir vel og lífga upp á morgunverðinn. Það má t.d. skera ferska ávexti út á léttsýrðar mjólkurvörur með sem minnstum sykri, hafragraut, morgunkorn eða ofan á brauð. Einnig er hægt að fá sér eitt glas af ávaxta- eða grænmetissafa.

Á miðjum morgni er gott að fá sér ávexti eða grænmeti. Tilvalið er fyrir vinnustaði að bjóða starfsmönnum sínum ókeypis grænmeti og ávexti og hafa frammi á áberandi stað, t.d. inni á hverri deild eða kaffistofu. Þannig leggja þeir líka sitt af mörkum til að stuðla að góðri heilsu og vellíðan starfsmanna sinna.

Með hádegismatnum er gott að fá sér grænmetissalat og ef borðað er brauð að hafa þá ávexti og grænmeti sem álegg á brauðið, t.d. tómata, gúrku, epli, banana og peru, og fá sér svo jafnvel ávöxt í eftirrétt.

Til að slá á hungrið – og stundum sætindaþörfina – síðdegis hentar vel að fá sér alls konar ávexti og grænmetisbita. Gott er að skera ávexti eða grænmeti niður í skál og láta standa frammi á meðan beðið er eftir kvöldmatnum.

- Auglýsing-

Grænmeti í matargerð

Auðveld leið til að auka grænmetisneyslu er að hafa nóg af alls konar grænmeti með matnum en æskilegt er að grænmeti þeki a.m.k. einn þriðja hluta matardisksins. Einnig er kjörið að nota meira grænmeti sem hráefni og krydd í réttina sjálfa auk þess að vera með grænmetisrétti á borðum. Fjölbreytni fæst með því að velja bæði gróft og trefjaríkt grænmeti, svo sem spergilkál, hvítkál, blómkál, gulrætur, rófur, lauk og baunir, en einnig fínni og vatnsmeiri tegundir, svo sem tómata, agúrkur, salat og paprikur. Fjölbreytnin verður svo enn meiri ef grænmetið er bæði haft hrátt og soðið eða snöggsteikt í smávegis af olíu. Með þessu móti verður máltíðin bæði léttari og bætiefna- og trefjaríkari. Ávextir henta svo vel í eftirrétt.

Sem snarl

Niðurskornir ávextir og grænmeti eru bæði gott og skemmtilegt kvöldsnakk. Niðurskornar melónur, ananas, vínber og fleiri tegundir berja og strimlar af gulrótum, paprikum, gúrkum, sellerí, blómkáli og spergilkáli smakkast til dæmis vel. Til tilbreytingar má útbúa léttar sósur úr súrmjólk og jógúrti til að dýfa grænmetinu í.

Leiðirnar sem hér hafa verið nefndar sýna að það þarf ekki að vera erfitt fyrir hvern og einn að finna sína leið til að ná 5 á dag og hafa þannig ákvæð áhrif á heilsu sína

Morgunblaðið 26.03.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-