-Auglýsing-

Með hjarta við hestaheilsu

Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is  Í janúar fara margir að huga að heilsunni, ekki er þá vitlaust að athuga stöðuna á líkamanum með því að fara í áhættugreiningu í Hjartavernd og sjá svart á hvítu hver er áhættan á að fá hjartasjúkdóma. Ég komst að ýmsu nýju um sjálfan mig með því að fara í áhættumatið, t.d. að ég væri 1 cm hærri en ég hélt að ég væri og það væru 0,1% líkur á að ég fengi kransæðasjúkdóm á næstu tíu árum.  Heimsóknin í Hjartavernd skiptist í tvo hluta; í fyrri heimsókninni er grunnskoðun þar sem einstaklingurinn er mældur og vigtaður, blóð dregið til mælinga og tekið hjartalínurit. Í síðari heimsókninni eru niðurstöðurnar komnar og þá er rætt við lækni þar sem farið er yfir áhættuþætti og sjúkdómseinkenni.

Prufutíminn
Heimsókn mín í Hjartavernd byrjaði á biðstofunni en sú bið var ekki löng, Bylgja Rún Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur bauð mig velkomna, útskýrði ferlið fyrir mér og rétti mér bláan slopp til að klæðast. Bylgja byrjaði á að spyrja mig út í ættarsöguna í sambandi við hjarta- og æðasjúkdóma, lífsstíl minn og fleira. Svo mældi hún blóðþrýsting og tók blóðprufur. Ég hafði fastað frá því kvöldinu áður svo blóðsykurinn væri ekki rokkandi.

Þau ráðleggja öllum yfir fertugu að koma í áhættumat og öllum 35 ára og eldri ef það er ættarsaga hjartasjúkdóma. „Það koma hingað að meðaltali um þrettán manns á dag yfir árið. Sumir koma einu sinni á ári, aðrir á nokkurra ára fresti. Oftast er fólk að koma í fyrstu heimsókn á milli fertugs og fimmtugs, en við fáum hingað fólk frá átján ára og upp úr. Það eru alltaf einhverjir sem við greinum á staðnum með kransæðasjúkdóma og eru sendir beint upp á spítala. Þeir sem koma illa út úr áhættumatinu fara næst í áreynslupróf þar sem sést hvort hjartavöðvinn verður fyrir súrefnisskorti við áreynslu,“ sagði Bylgja mér áður en hún sendi mig yfir til Sigríðar P. Ragnarsdóttur.

Hæð, þyngd og hjartalínurit
Sigríður byrjaði á að mæla hæð mína og var ég einum sentimetra hærri en ég hélt að ég væri. Næst var það vigtin sem reiknaði líka út þyngdarstuðul minn og fituhlutfall, mittismálið var tekið með gamaldags málbandi. Þá var það hjartalínuritið, ég lagðist á bekk þar sem Sigríður setti klemmur um ökkla og úlnliði og nema víðsvegar á brjóstkassann, svo spýtti vélin út úr sér línuriti sem virtist líta eðlilega út. Þá var grunnskoðun lokið og ég hélt heim á leið. Að láta tékka á hjartanu í sér er enginn tímaþjófur.
Nokkrum dögum síðar mætti ég til Karls Andersen læknis til að fá niðurstöður áhættumatsins. Hann byrjaði á að fara með mig í gegnum spurningalista varðandi áhættuþætti og ættarsögu. Þá mældi hann aftur hjá mér blóðþrýstinginn og hlustaði hjartað sem var víst innblásið af Íslandi og sló eins og frumskógartromma. „Þú ert með eðlilega hjartahlustun, eðlilegt hjartalínurit og góðan blóðþrýsting,“ sagði Karl og hjarta mitt hoppaði af kæti. Næst var að kíkja á mælingarnar sem voru gerðar í fyrri heimsókninni. Á blaðinu mátti sjá mælingar mínar og svo æskileg gildi m.v. aldur, kyn, hæð og þyngd. Allt leit mjög vel út fyrir utan fituhlutfallið sem var heldur hátt, það þýðir víst ekki að ég sé of feit heldur að það vanti á mig vöðva sem er líklega mjög rétt.

„Hér má sjá að heildarkólesteról hjá þér er 5,27 en það er æskilegt að það sé undir 5,“ sagði Karl og bætti svo við að það væri allt í lagi því góða kólesterólið hjá mér væri mjög hátt sem þýddi að ég væri með góða fitusamsetningu.

Góða og vonda kólesterólið
„Kólesteról skiptist í tvo undirhópa, HDL sem er gott kólesteról og LDL sem er vont kólesteról og þú ert undir viðmiði í LDL. Það má lesa út úr fitugildunum að þú borðar hollan mat. En þetta ræðst líka að hluta til af erfðafræðilegum þáttum,“ sagði Karl og benti mér á fleiri tölur sem þýddu að ég væri ekki með sykursýki og langt frá því að vera blóðlaus. Þá sýndi hann mér reiknivélina sem má finna á heimasíðu Hjartaverndar. „Hér má reikna út líkurnar á því að maður fái hjartasjúkdóm eftir tíu ár með því að færa gildin sín inn. Við notum þetta reiknimódel til að benda á hvaða áhættuþætti fólk getur lagað,“ sagði Karl og reiknaði út að það væru 0,1% líkur á að ég fengi kransæðasjúkdóma á næstu tíu árum. Er það sambærilegt við meðaltal jafnaldra kvenna á Íslandi. „Konur eru ólíklegar til að fá kransæðasjúkdóma fyrir tíðarhvörf, kvenhormónin eru æðaverndandi. Þegar þær eru komnar yfir tíðarhvörf eykst áhættan mikið. Karlar fá hjartasjúkdóma tíu árum fyrr en konur. Þannig að þín áhætta nú er svipuð og hjá 23 ára strák,“ sagði Karl að lokum og með því var ég útskrifuð við hestaheilsu með niðurstöðurnar útprentaðar á skjali.janúar fara margir að huga að heilsunni, ekki er þá vitlaust að athuga stöðuna á líkamanum með því að fara í áhættugreiningu í Hjartavernd og sjá svart á hvítu hver er áhættan á að fá hjartasjúkdóma. Ég komst að ýmsu nýju um sjálfan mig með því að fara í áhættumatið, t.d. að ég væri 1 cm hærri en ég hélt að ég væri og það væru 0,1% líkur á að ég fengi kransæðasjúkdóm á næstu tíu árum.

- Auglýsing-

Morgunblaðið 22.01.2011

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-