-Auglýsing-

Mataræðið er að þróast í rétta átt

HoltSíðastliðinn föstudag fylgdi með Morgunblaðinu fylgirit um mataræði og hreyfingu. Mikið var af fróðlegu efni og meðal annars vital við Önnu Rögnu Magnúsardóttir næringarfræðing og doktor í heilbrigðisvísindum um mataræði okkar Íslendinga.

Mælingar sýna að meðal-Íslendingurinn hætti að þyngjast upp úr aldamótum og almennt virðist mataræði fólks fara batnandi. Umtöluðustu kúrar dagsins í dag hafa bæði sínar góðu og slæmu hliðar og skortur á rannsóknum kallar á varkárni.

-Auglýsing-

Óhætt er að fullyrða að Íslendingar hafi aldrei verið eins meðvitaðir um gildi hollrar næringar. Landinn virðist leggja sig fram um að lesa og læra um gott mataræði og blöðin eru full af heilsupistlum, fréttum af næringarrannsóknum og hollustuuppskriftum
.
Anna Ragna Magnúsardóttir næringarfræðingur segir að mataræði landsmanna fari að ýmsu leyti batnandi en ákveðnir hópar kunni þó að sitja eftir. „Breytingarnar á mataræði og matarúrvali hafa verið miklar síðustu áratugina. Fólk á mínum aldri man eftir að hafa alist upp við að borða ýsu með kartöflum nokkra daga í viku, lambalæri um helgar, súrmjólk með púðursykri daglega og kannski harðsoðin egg með rúgbrauði. Þetta var ágætis matur, svolítið einhæfur, en var á allra borðum, bæði hjá háum og lágum, körlum sem konum. Nú er framboðið á alls kyns matvælum svo miklu meira, áróður fyrir alls konar mataræði og sérverslanir með heilsufæði hafa sprottið upp á mörgum stöðum. Neyslukannanir sýna að að meðaltali er grænmetis- og ávaxtaneysla að aukast og vatnsdrykkja einnig á meðan t.d. neysla á sætum gosdrykkjum er að dragast saman. Þetta er jákvæð þróun, en Íslendingar mættu samt borða meiri fisk og trefjaríkar kornvörur og borða enn meira grænmeti.“

Ef litið er á algengi offitu virðist toppinum hafa verið náð í kringum aldamótin. Anna segir Íslendinga hafa þyngst frá 1970 til aldamóta, en síðan þá hafi hægt á þróuninni og nú standi hlutfallið í stað. Stórir hópar fólks leggi greinilega mikið á sig til að borða rétt og borða hollt. „En ástæða er til að hafa áhyggjur af því hvort þessi jákvæða þróun nái jafnt til allra hópa samfélagsins. Sumir eru heilsumeðvitaðri en aðrir og um leið með tekjurnar sem þarf til að kaupa hollasta matinn. Aðrir eru ekki eins heilsumeðvitaðir og gæta ekki að mataræðinu að sama marki. Þeir eru ginnkeyptari fyrir skyndibitaauglýsingum og oft er það sama fólkið og verður að halda fastar um budduna. Heilsufæði getur verið dýrt og efnahagurinn leyfir sumum ekki að láta hollustuna eftir sér,“ segir hún. „Ég vil þó taka fram að þegar grannt er skoðað er hollur matur ekki alltaf dýr, og óhollur matur alls ekki ódýr. Hollir grænmetisréttir og sushi eru t.d. oft það ódýrasta á matseðli veitingahúsanna. Eins er oft ódýrara að kaupa hráefni og elda frá grunni en að kaupa óhollan skyndibita.“

Líkamsþyngdarstuðullinn segir ekki alla söguna

Algengt er að vaxtarlag og ásigkomulag fólks sé metið eftir svokölluðum líkamsþyngdarstuðli sem reiknaður er út frá hæð og þyngd. Fólk telst of þungt ef gildið fer yfir 25, og fari það yfir 30 er fólk komið í offituflokk.
Anna segir samt að taka verði líkamsþyngdarstuðlinum með ákveðnum fyrirvara og að hann segi ekki allt um heilsu fólks, lífsgæði og lífslíkur. „Fyrir það fyrsta eru líkamar fólks ólíkir. Beinastærð og vöðvamassi geta fært manneskju í góðu formi yfir í ofþyngdarhópinn. Ekki nóg með það heldur eru rannsóknir farnar að sýna fram á að fólk sem er með líkamsþyngdarstuðul á bilinu 25 til 27 virðist lifa við betri heilsu og hafa lengri lífslíkur en þeir sem eru í neðri mörkum þess sem telst vera kjörþyngd.“

- Auglýsing-

Hvaða kúr virkar?

Alls kyns matar- og megrunarkúrar skjóta reglulega upp kollinum og sitt sýnist hverjum um hvaða gagn kúrarnir gera fólki. Anna Ragna segir að vinsælustu kúrarnir í dag, s.s. lágkolvetnamataræði, paleo-steinaldarmataræði og hráfæði, hafi bæði kosti og galla og ráðlegt geti verið að forðast allar öfgar.
„Þessir kúrar geta orðið ansi öfgakenndir og til lengdar litið er erfitt fyrir fólk að halda sig við mataræði sem er fullt af boðum og bönnum.“

Anna nefnir þann kost við lágkolvetna- og paleo-kúrana að þeir verði til þess að draga úr franskbrauðs- og bakkelsisáti. Brauðmeti geti orðið fullstór hluti af mataræði fólks ef það er borðað oft á dag og ekki óvitlaust að hafa hemil á neyslu fínunninna kolvetna. „Þessir kúrar verða líka til þess að dregur úr neyslu á dísætum mjólkurvörum, hrísgrjónum og pasta. Þótt kolvetni gegni ákveðnu hlutverki getur það verið of mikið ef helmingurinn af kvöldmatardiskinum er hvít hrísgrjón og best ef kolvetnin koma sem mest úr grænmeti, ávöxtum og heilkorni.“

Umfram allt segir Anna það vera jákvætt ef matarvalið hjá fólki verður vandaðra. „Hráfæðis- og steinaldarmataræði leggur áherslu á næringarríkan og óunninn mat, sem eldaður er ferskur og frá grunni.“

Eru kolvetnin fitandi?

Galdurinn á bak við lágkolvetna- og paleo-mataræðið á m.a. að vera að kolvetnin, sem finna má í t.d. brauði, hveiti og sykri, hafi áhrif á mikilvæg hormón i líkamanum og auki fitusöfnun. Anna Ragna segir ákveðin vísindaleg rök fyrir þessari tengingu en grunnástæða fitusöfnunar sé þó alltaf að fólk borði of mikið og hreyfi sig of lítið. „Sá sem borðar mikið og hreyfir sig ekki neitt á eftir að fitna, sama hvort maturinn er kolvetnaríkur eða kolvetnasnauður.“
Hún bendir líka á að kolvetnasnauða mataræðið leggi áherslu á prótín- og fituneyslu til að sjá líkamanum fyrir orku. Hafa rannsóknir sýnt að margir finna seinna til svengdar á slíku mataræði og geti það skýrt megrunaráhrifin að hluta enda líði þá lengra milli máltíða. Þá virðist sem auðveldara sé að borða sig saddan á lágkolvetnakúr en lágfitukúr og það kunni að hjálpa til við að viðhalda úthaldinu sem þarf til að sjá árangur af mataræðisbreytingunni.

„En um leið og allt þetta er skoðað þarf að muna að mikil prótínneysla veldur álagi á nýrun og getur dregið kalk úr beinunum. Þó að mettaða fitan sé sennilega ekki eins óholl og við héldum áður vantar rannsóknir til að skera úr um langtímaáhrif af svona mataræði fyrir heilsuna. Það eitt að langtímaáhrifin hafa ekki verið vandlega rannsökuð gefur tilefni til að fara varlega í sakirnar.“

Greinin birtist með fyrlgiblaði Morgunblaðsins föstudaginn 23. ágúst

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-