-Auglýsing-

Mannréttindabrot landlæknisembættisins

arni r arnason419603AÁrni Richard Árnason verkfræðingur skrifar eftirfarandi grein í Fréttablaðið þann 27. desember síðastliðinn.

Árið 2009 kvartaði ég til landlæknisembættisins yfir mistökum í krossbandsaðgerð og endurhæfingu sem ég gekkst undir í Orkuhúsinu. Embættið fékk tvo umsagnaraðila til að gefa álit sitt. Annar þeirra var Magnús Páll Albertsson, meðstofnandi Læknastöðvar Orkuhússins. Hinn var Sigrún Vala Björnsdóttir, lektor við sjúkraþjálfunarskor Háskóla Íslands. Landlæknisembættið gaf út álit sitt í mars 2011 sem var á þann veg að „ekki verði séð að um vanrækslu eða mistök” hafi verið að ræða. Einnig kom fram að vöðvaslit á tveimur vöðvum í aftanverðu lærinu hefði ekki verið fylgikvilli aðgerðarinnar, jafnvel þó að sinar sömu vöðva hefðu verið fjarlægðar í aðgerðinni.

Í kjölfarið kom ég að mörgum alvarlegum athugasemdum við rökstuðning álitsgjafa. Þar á meðal voru ábendingar um augljósar rangfærslur, s.s. að Sigrún Vala hefði vísað í margar fræðigreinar um sjúkraþjálfun sem fjölluðu um aðra tegund krossbandsaðgerðar en ég gekkst undir. Einnig rökstuddi ég að krossbandið hefði verið rangt staðsett en þann rökstuðning fékk ég hjá dönskum læknum mínum. Þar að auki vísaði ég í margar fræðigreinar máli mínu til stuðnings. Umsagnirnar sýndu augljós merki þess að verið væri að hylma yfir mistök. Í nóvember 2011 gaf landlæknisembættið út lokaálit sitt með óbreyttri niðurstöðu þar sem hvergi var minnst á athugasemdir mínar eða rökstuðning.

Vanhæfir
Ég kærði málsmeðferðina til velferðarráðuneytisins, og í ágúst sl. úrskurðaði ráðuneytið báða umsagnaraðila vanhæfa í ljósi fjölda rangfærslna, órökstuddra fullyrðinga, og sýnt óhlutleysi í umsögnum sínum. Álit landlæknisembættisins var þar með ógilt og vísað til embættisins til útgáfu á nýju áliti.

Það er ótrúlegt að starfsmaður Háskóla Íslands skuli taka þátt í þeim leik landlæknisembættisins að sparka í þá sem eiga um sárt að binda með því að beita lygum og blekkingum. Nýlega sendi ég kvörtun til umboðsmanns Alþingis þar sem ég fer fram á að fjórir starfsmenn landlæknisembættisins, þ.á.m. landlæknir sjálfur, verði dæmdir vanhæfir til að hafa frekari aðkomu að málinu. Ástæðan er einbeittur brotavilji þeirra til að fá fyrirfram ákveðna niðurstöðu, m.a. með því að hafa hunsað alvarlegar athugasemdir mínar, falið lykilgögn í málinu og þrengt möguleika mína til að koma að athugasemdum.

Í aðgerðinni í Orkuhúsinu var krossbandið staðsett með þeim hætti að það gefur of mikla mótstöðu þegar hnéð er í djúpri beygju og kemur þannig í veg fyrir að hnéð nái hámarksbeygju. Nýja krossbandið þarf að staðsetja með mikilli nákvæmni, en rannsóknir hafa sýnt að 5 mm skekkja valdi því að álagið á krossbandið eykst um meira en helming. Hættan á að nýja krossbandið slitni margfaldast af þeim sökum, og það getur gerst löngu eftir aðgerðina, jafnvel 10 árum síðar. Þessi mistök eru algeng þrátt fyrir að fjallað hafi verið um þau í fjölmörgum læknagreinum.

- Auglýsing-

Ótrúleg mannfyrirlitning
Ég hef fengið þrjá virta danska lækna til að gefa mér skriflegt álit sitt um að krossbandið hafi verið rangt staðsett. Einn þeirra starfar í nefnd sem úrskurðar um læknamistök. Það segir mér að í Danmörku væri búið að fara í saumana á sambærilegu máli. Á Íslandi þurfa fórnarlömb læknamistaka sem vilja leita réttar síns að þola ótrúlega mannfyrirlitningu starfsmanna landlæknisembættisins. Sjálfur hef ég orðið fyrir um 450.000 króna lögfræðikostnaði til að verjast embættinu. Þess utan hef ég gengist undir þrettán aðgerðir sem hafa kostað mig tólf milljónir króna. Enn hef ég ekki fengið krónu í bætur vegna sjúklingatryggingar sem á að bæta skaða sem hlýst af læknismeðferð óháð því hvort mistök hafi átt sér stað.

Eftir að hafa borið myndræn gögn annarra krossbandssjúklinga Orkuhússins undir lækna þá hef ég ekki ástæðu til að ætla að ég hafi fengið verr staðsett krossband en þessir sjúklingar. Það er ljóst að fleiri hafa slitna vöðva en ég eftir að hafa fengið sömu eftirmeðferð. Einnig virðist það vera regla í Orkuhúsinu að sjúklingar fái ekki skriflega endurhæfingaráætlun í hendur, en samkvæmt þeim læknum sem ég hef rætt við er það algjört fúsk.

Ég bið ráðamenn og almenning að láta sig varða það svívirðilega óréttlæti sem fer fram innan veggja landlæknisembættisins. Það virðist vera í eðli margra Íslendinga að hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig þangað til þeir lenda í því sjálfir að verða fórnarlömb. Fyrir nokkru sá ég heimildaþátt um mannréttindabrot í Kína og þau minntu um margt á vinnubrögð landlæknisembættisins. Það eina sem hægt er að gera er að reka þá starfsmenn embættisins sem ítrekað eru staðnir að því að brjóta lög og ráða í staðinn fólk sem vinnur af heilindum.

www.visir.is 27.12.1012

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-