-Auglýsing-

Manni bjargað eftir hjartastopp í World Class.

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

DV.is segir frá því að alvarlegt atvik hafi orðið í stöð World Class að Tjarnarvöllum í Hafnarfirði á þriðjudagsmorgun er maður hneig þar niður í hjartastoppi.

Var maðurinn þátttakandi í hóptíma er hann missti meðvitund. Snarræði stöðvarstjóra World Class og hjúkrunarfræðings sem var í tímanum, auk hjálpsemi annarra viðskiptavina og starfsfólks, varð til þess að bjarga lífi mannsins. Það staðhæfir hann sjálfur í þakkarbréfi sem hann sendi á World Class í dag.

„Hann fékk hjartastopp í tíma en stöðvarstjórinn stökk til og náði í hjartastuðtæki og kom honum í gang. Þarna var líka hjúkrunarfræðingur til aðstoðar,“ segir Björn Leifsson, eigandi World Class, í samtali við DV.

Tveir sjúkrabílar og lögregubíll komu á vettvang en maðurinn var fluttur tímanlega með sjúkrabíl á Landspítalann til aðhlynningar.

„Ykkur tókst að koma mér undir læknishendur á mjög skömmum tíma í mínu fyrsta hjartastoppi. Þakka ég ykkur öllum fyrir,“ segir maðurinn ennfremur í tölvupósti sínum. Er hann á hjartadeild og fékk hjartaþræðingu í gær. Líður manninum vel og ljóst að hann mun ná sér. „Ég er afskaplega heppinn að hafa verið á réttum stað með rétta fólkinu – það bjargaði lífi mínu,“ segir maðurinn ennfremur í þakkarpósti sínum.

Björn segir að það sem þarna gerðist geti hent alla: „Þetta er 51 árs maður í toppformi og hefur æft í stöðinni í Hafnarfirði. Þetta sýnir að við getum lent öll í þessu. Ef þessi maður hefði verið einhvers staðar úti í móa þegar þetta kom fyrir þá væri hann ekki á meðal okkar núna.“

- Auglýsing-

Aðspurður segir Björn að vel sé gætt að öryggismálum í stöðvum World Class. „Það eru hjartastuðtæki á öllum stöðvunum. Okkar starfsfólk fer allt á skyndihjálparnámskeið. Þú ert öruggur inni hjá okkur,“ segir Björn.

Hann tekur undir að atburðurinn hafi verið gleðilegur þegar upp er staðið þó að maðurinn hafi verið hætt kominn. Maðurinn muni ná sér og þarna hafi reynt á snarræði og samstöðu allra viðstaddra sem hafi verið til fyrirmyndar.

Þetta dæmi sannar svo ekki verður um villst að það er afar mikilvægt að hjartastuðtæki sé sem allra víðast. Það getur klárlega bjargað mannslífum. Þetta er greinilega til fyrirmyndar hjá World Class og ekki í fyrsta skipti sem mannslífi er bjargað á þeim bænum.

Þess má geta að árlega verða á milli 100 og 200 hjartatopp utan sjúkrahúss. Það sorglega er hinsvegar að aðeins um 20% þeirra sem lenda í þessu lifa það af.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-