-Auglýsing-

Málarekstur

heradsdomur_2Eins undarlega og það kann að hljóma vissi ég á fyrstu vikunni eftir hjartaáfallið að eitthvað hafði farið úrskeiðis. Viðbrögð starfsfólks á deildinni við umkvörtunum mínum ýttu frekar undir þá tilfinningu mína heldur en hitt. Drifinn áfram af réttlætiskennd lagði ég af stað í þá göngu sem nú hefur tekið á áttunda ár og eftir því sem árin hafa liðið hefur þessi réttlætiskennd mín frekar eflst en hitt þrátt fyrir að þetta sé erfið barátta. Ég hef þó langt því frá staðið einn í þessari baráttu og mér er til efs að ég hefði haft allt þetta baráttuþrek einn og óstuddur.

Málaferli eru tímafrek og útheimta  gríðarlega mikið úthald eins og ég hef reynt á eigin skinni síðustu átta ár og viðbrögð kerfisins undir málarekstrinum vekja á köflum óhug. Það er ekki ætlunin með þessum pistli að letja fólk til að leita réttar síns telji viðkomandi að hann eða hún hafi orðið fyrir læknamistökum  eða lent í atviki innan sjúkrastofnunar sem leitt hefur af sér skaða. Í flestum tilfellum þegar sú er reyndin er eðlilegast að láta fyrst reyna á sjúklingatrygginguna hjá TR og ef niðurstaðan þar er sú að eitthvað hafi farið úrskeiðis þá eru greiddar bætur. Sá hængur er á að þak er á þeirri upphæð sem fæst út úr sjúklingatryggingu sem gerir það að verkum að ef tjónið er mikið og varanlegt eru líkindi til þess að sú upphæð sé langt fyrir neðan þau mörk sem ásættanleg eru.
Það er hinsvegar afar jákvætt að það sé mögulegt að fá einhverjar bætur innan skikkanlegs tíma og mín reynsla af samskiptum við Tryggingastofnun vegna sjúklingatryggingar er góð. Þá er það einnig afar jákvætt ef fólk ákveður að fara í málaferli að hafa fengið úrskurð um að atvik hafi átt sér stað sem sé þess eðlis að bætur verði greiddar úr sjúklingatryggingu. Það skal þó tekið fram að það ferli er allt saman mikið einfaldara heldur en þegar ráðist er í málaferli við sjúkrastofnun eins og LSH

-Auglýsing-

Ég og Mjöll kona mín erum venjulegt fólk og ég geri ekki ráð fyrir því að vera svo sérstakur að stjórnendur Landspítala háskólasjúkrahúss hafi ákveðið í samráði við sína lögmenn sem í þessu tilfelli er Ríkislögmaður að berja eitthvað sérstaklega á mér. Ég geri sem sagt ráð fyrir því að svona gangi þetta almennt fyrir sig þegar lagt er til atlögu við þetta bákn.

Í rauninni má segja að það sé hálf galið fyrir einstakling að leggja af stað í leiðangur sem þennan og hafa ekki einhvern eins og umboðsmann sjúklinga til leiðbeiningar og sem upplýsingaleið inn í kerfið þar sem á við. Það er gríðarlega erfitt  að geta ekki fengið læknisfræðilega aðstoð til að skilja og greina þær upplýsingar sem koma fram í greinargerðum og þar ætti umboðsmaður sjúklinga (ef hann væri nú til) einfaldlega að koma inn með lista yfir fagfólk sem gæti aðstoðað við málaferlin, skilning og mat á læknisfræðilegum hugtökum og rökum sem beitt er gegn einstaklingum í svona málum.
Landlæknir á að vera hlutlaus en okkur hefur fundist í greinargerðum hans og þeim greinargerðum sem hann lætur vinna fyrir sig tilhneiging til að túlka vafaatriði annað hvort spítalanum eða lækninum í hag. Einnig hefur okkur fundist þegar við höfum gert athugasemdir við það sem fram kemur í greinargerðum að Landlæknir taki almennt ekki mikið mark á þeim. Markmið greinargerðanna virðist manni stundum vera að draga þrótt úr þeim sem kvartar eða stendur í málferlunum. Það er þekkt í málum sem þessum að engin læknir fæst til að aðstoða einstaklinginn við málaferlin sem gerir það að verkum að málinu er kaffært í læknisfræðilegum útskýringum og rökræðum sem venjulegt fólk og lögfræðingar hafa ekki þekkingu á.

Það er ekki eðlilegt að fólk þurfi eins og ég og Mjöll gerðum í upphafi að kaupa fullt af bókum um hjartasjúkdóma eða jafnvel kennslubækur um hjartalækningar til þess að geta skilið betur og / eða svarað og barist fyrir rétti sínum. Margir þeirra sem lenda í læknamistökum hafa heldur ekki á því tök eða getu til að berjast á þennan hátt. Sanngjarnt ferli í læknamistakamálum ætti að tryggja að sjúklingar geti barist jafnfætis læknastéttinni með því að tryggja skilning lögfræðings og einstaklings á þeim læknisfræðilegu hlutum sem skipta máli og þeim ferlum sem óhjákvæmilega eru til umræðu og læknar einir þekkja. Málaferli vegna læknamistaka eiga það til að dragast í mörg ár. Veikt fólk hefur ekki alltaf mörg ár. Í raun ættu að vera hér í landinu lög um ferli þegar slík mál koma upp sem takmarka þann tíma sem þau geta tekið.

Þegar sigur er unnin og dómur fallin um að án vafa hafi átt sér stað mistök sem séu bótaskyld hefst næsti kafli.  Þá er loksins komið að því að meta hvert tjónið var vegna mistakana.  Skipaðir eru matsmenn sem eiga að meta ástandið og skoða. Þegar boðað var til matsfundar varð ég spenntur og ánægður því ég hélt í einfeldni minni að málið væri að komast á endapunkt enda hafði ég unnið málið fyrir rétti. En óvinur lá í leyni og í mínu tilfelli fóru yfirstjórnendur spítalans þá leið að senda frá sér greinargerð nokkrum dögum fyrir svokallaðan matsfund sem fulltrúi ríkislögmanns kom til skila.

- Auglýsing-

Þessi greinargerð virtist hafa þann eina tilgang að reyna hafa áhrif á mat skipaðra matsmanna og greinargerðin er unninn á þann hátt að gögn úr sjúkraskýrslum mínum eru handvalin af yfirstjórnendum spítalans af lækningasviði  og afhent tveimur yfirlæknum spítalans. Þeim er þá gert að að skrifa greinargerð um ástand mitt og skaða af völdum mistakanna byggt á þeim gögnum. Þessir tveir yfirlæknar spyrja engra spurninga, leita ekki ráða hjá meðferðarlæknum mínum sem þekkja mig best, kalla mig ekki til sín til skoðunar eða umræðu eða gera neina tilraun til að vinna slíka greinargerð eins og fagmönnum sæmir. Sem sagt pöntuð greinargerð frá stjórnendum byggð á útvöldum gögnum teknum úr sjúkraskrá án minnar vitundar.

Þar sem þessi greinargerð var mér mjög óhliðholl,  eins og gefur að skilja, þá svöruðum við fullum hálsi með gögnum, álitum og skýrslum frá læknum og sálfræðingum. Í kjölfarið á því þá bakka þessir tveir yfirlæknar með flest sem þeir höfðu skrifað og leggja á það áherslu að þeir hafi engar forsendur til að fara gegn álitum meðferðarlækna minna. Enda hittu þessir yfirlæknar mig heldur aldrei, þeir vissu líklega ekki við hverskonar þverhaus  þeir voru að berjast og áttu því kannski ekki að venjast að vera svarað svona eins og við gerðum.
Tekið skal fram að í þessari pöntuðu greinargerð var því haldið fram að ekkert væri að mér og helst væri hægt að útskýra sjúkleika minn sem geðrænt vandamál og að ég væri jafnvel að ljúga einkennum. Fæst ekki annað séð en markmiðið með vinnslu þessarar greinargerðar og þar með ólögmæt notkun  gagna að okkar mati úr sjúkraskrá minni hafi verið að kasta rýrð á trúverðugleika minn, gera aðför að æru minni og gera mig tortryggilegan í augum matsmanna.

Við kvörtuðum til persónuverndar vegna meðferðar á sjúkraskrá minni og vildum fá úr því skorið hvort slík vinnubrögð væru leyfileg. Varnir spítalans voru þær að þeir hefðu metið hagsmuni spítalans ofar friðhelgi einkalífsins míns. Mér finnst það athyglisverð spurning hvort yfirstjórnandi á LSH geti tekið ákvörðun upp á sitt einsdæmi um það hvaða hagsmunir eigi að ríkja eða víkja? Getur yfirstjórnandi á LSH ákveðið upp á sitt einsdæmi að hagsmunir stofnunarinnar sem hann vinnur fyrir vegi þyngra en friðhelgi einkalífsins hjá skjólstæðingi stofnunarinnar sem hefur eitthvað út á vinnubrögð hennar að setja ?  Gaman væri að fá svar við því. Því skal enn og aftur haldið til haga að á þessum tímapunkti var ekki lengur spurning um hvort mistök hefðu átt sér stað eða ekki, það hafði verið staðfest með dómi sem spítalinn áfrýjaði ekki.

Persónuvernd hefur enn ekki treyst sér til að kveða upp úr um þetta þrátt fyrir að við höfum ítrekað erindið í þrígang. Ég hef ekkert á móti því að sjúkraskýrslur mínar séu skoðaðar enda hef aldrei haft neitt að fela. Það verður hinsvegar að vera með mínu samþykki eins og lög gera ráð fyrir. Ég hef aldrei neitað slíkri beiðni og ég hefði ekki neitað þeim um aðgang í skýrslur mínar enda eðlilegt að erindið væri borið upp og útskýrt í hvaða tilgangi og hverjir það væru sem fengju að skoða gögnin og þá hvaða gögn. Enda mjög persónuleg gögn. Einnig hlýtur það að vera ámælisvert þegar valin eru gögn af einum aðila til að mata annan með en öðrum gögnum haldið utan við málið. Það gefur auga leið að sá sem berst við að reyna að koma einni hlið á framfæri velur gögn sem henta þeirri hlið.

Ríkislögmaður hefur haldið því fram að við vildum velja gögn í hann… Það er alls ekki málið. Við krefjumst einungis lögmætra vinnuaðferða í málum sem þessum. Þá ætti einnig að spyrja hvort það sé réttlátt að öll sjúkragögn sjúklings verði opinber spítalanum vegna læknamistakamáls. Er það í alvörunni þannig að ef fólk lendir í slíkum málaferlum þá hafi yfirmenn spítalans bara rétt til að gramsa í gögnum og leita þar að einhverju sem hann telur að geti skipt máli og nýtt án frekara aðhalds eða eftirlits. Er opið veiðileyfi á allt sem mögulega stendur í gögnum þó svo það komi viðkomandi máli kannski ekki mikið við? Ef ekki, hver átti þá að fylgjast með þarna að þau gögn sem væru tekin kæmu málinu við?

Þau vinnubrögð sem fulltrúi Ríkislögmanns sem verjandi spítalans hefur viðhaft frá upphafi þessa máls hafa vakið með okkur mikla furðu svo vægt sé til orða tekið.  Fulltrúi Ríkislögmanns fyrir hönd spítalans hefur af því er virðist gert ráð fyrir því að við séum að reyna að fá fram einhverja niðurstöðu sem sé ekki í samræmi við það sem gerðist, afleiðingar mistakanna eða raunverulegt ástand mitt. Með öðrum orðum, fulltrúi Ríkislögmanns hefur hagað málum þannig að ég hef verið kallaður lygari og sé að gera mér upp einkenni, gefur jafnvel í skyn að ég eigi við andlega vanheilsu að stríða og gefi fulltrúa Ríkislögmanns ekki allan þann tíma sem hún telur sig þurfa til að svara erindum mínum eða okkar lögmanns.

Okkur hefur alla tíð undrað að fulltrúi ríkislögmanns skuli sýna viðlíka hörku í öllum sínum samskiptum og greinargerðum. Á stundum þegar við höfum lesið greinargerðir frá fulltrúa Ríkislögmanns hafa okkur fallist hendur og höfum við margoft spurt okkur þeirrar spurningar hvaðan sú persónulega óvild kemur sem virðist gegnumsýra skrif hennar og viðbrögð við erindum okkar eða svörum.

Það skal tekið fram að fulltrúi ríkislögmanns notar ekki tölvupóst eða farsíma og hefur það komið fyrir að fulltrúi Ríkislögmanns hafi hvorki svarað bréfum sem henni hafa verið send í venjulegum pósti og heldur ekki svarað tölvupósti sem hefur verið sendur á skrifstofu ríkislögmanns merkt með þeim hætti að það skuli berast til viðkomandi starfsmanns. Satt best að segja er með ólíkindum að þegnar þessa lands skuli þurfa að þola annað eins viðhorf frá starfsmanni Ríkislögmanns. 

- Auglýsing -

Gott og vel hlutverk fulltrúa ríkislögmanns er að gæta hagsmuna spítalans / ríkisins. Ég hinsvegar bað aldrei um að lenda í þessum læknamistökum og hafði ekki hugsað mér að eyða átta til tíu árum í að berjast við ómanneskjulegt kerfi.

Að lokum þetta. Þetta er orðið svo langt mál og mörg atriði sem hafa komið upp. Það sem hér hefur verið upptalið er einungis brot af því sem við höfum upplifað.  En… Ég ítreka að ég geri ekki ráð fyrir því að mín persóna sé svo merkileg að ákveðið hafi verið að tækla mitt mál eitthvað sérstaklega kröftuglega og því skiptir þessi framkoma almennt máli.

Ef það er svo að þetta sé það vinnulag sem almennt er viðhaft þegar einstaklingar telji sig hafa eitthvað út á læknisfræðilega meðferð sína að setja á LSH, þá segi ég Guð hjálpi þeim sem leggja af stað í slíka göngu.

Þetta hefur tekið okkur átta ár og er ekki lokið ennþá. Við sjáum kannski fram á endanlega niðurstöðu í málinu 2011 eða 2012 eða átta til níu árum eftir að farið var af stað með málið og slíkt hlýtur að teljast langur tími fyrir utan alla marblettina og sálfræðitímana sem það hefur tekið að komast í gegnum þessa baráttu lifandi. Það tekur orku frá öðrum hlutum að slást, það tefur bata og það minnkar lífsgæði. Það er ekki í lagi að standa í þessu ennþá, nú átta árum eftir læknamistökin.

Það skiptir engu máli hvað læknar eru góðir og bjarga mörgum mannslífum Það gefur þeim engan rétt til að ráðskast með líf þeirra sem lifa af eins og þeim hentar ef sett er út á þeirra vinnubrögð.

Það hlýtur líka að vera umhugsunarefni þegar fyrir liggur dómur að um bótaskylt atvik sé að ræða að spítalinn haldi samt áfram að verja sig með kjafti og klóm í matsferlinu og dregur þar með málið á langinn svo árum skiptir öllum til tjóns.

Það getur öllum orðið á og það er mannlegt, mér finnst að nálgast eigi hlutina út frá því sjónarhorni og í rauninni hefur Landlæknir talað um að veruleikin sé sá að mistök eiga sér stað. Því spyr ég hvervegna snúa menn sér þá ekki að því að bæta fyrir þau í stað þess að eyða tíma og fjármunum almennings í lagaflækjur.

Á þessum átta árum hefur engin viðurkennt mistök þrátt fyrir dóm þar um og á þessum átta árum hefur engin sagt fyrirgefðu við mig.

Árósum 25. Janúar 2011

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-