Á dögunum birtust fréttir af rannsókn þar sem kom fram að lýsi gæti hugsanlega aukið hættu á gáttatifi og heilablóðfalli en þó eingöngu þegar fólk er ekki með greindan hjarta eða æðasjúkdóm fyrir.
Á hinn bóginn leiddi rannsóknin í ljós að fólk sem var með greindan hjarta eða æðsjúkdóm í upphafi rannsóknarinnar, en tók reglulega lýsi, var í 15% minni hættu á að fá hjartaáfall í kjölfar gáttatifs og í 9% minni hættu á að láta lífið vegna hjartabilunar.
Á mbl.is er haft eftir Dr. Arnari Halldórssyni, framkvæmdastjóri gæðadeildar hjá Lýsi hf., að vísindagreinin sem birtist í liðinni viku, þar sem meðal annars koma fram möguleg neikvæð áhrif neyslu bætiefna úr fiskiolíu á borð við lýsi, einungis vera dropa í hafsjó rannsókna og vísindagreina sem sýni fram á jákvæð áhrif lýsis á hjarta- og æðasjúkdóma.
Hann bendir á að í greininni komi bæði fram jákvæð og neikvæð áhrif af neyslu á omega-3-fitusýrum. Þar komi einnig fram að nauðsynlegt sé að framkvæma frekari rannsóknir til þess að staðfesta niðurstöðurnar.
Ein rannsókn hefur lítið vægi
„Þessi grein setur okkur í Lýsi ekki úr jafnvægi. Það er til svo óendanlega mikið af niðurstöðum sem styðja jákvæð áhrif lýsis. Það er varasamt að alhæfa aðeins út frá einni grein sem þyrfti að styðja með mikið fleiri rannsóknum eins og kemur fram í greininni sjálfri,“ segir Arnar í samtali við Morgunblaðið. Hann bætir við að jákvæð áhrif omega-3-fitusýranna EPA og DHA hafi fyrir löngu verið staðfest með tugum þúsund vísindagreina og rannsókna.
Omega-3 hefur staðfest jákvæð áhrif
Arnar tekur fram eina slíka heilsufullyrðingu sem segir að vörur sem innihalda EPA og DHA hafi jákvæð áhrif á hjartastarfsemi. Sú fullyrðing sé staðfest af Evrópusambandinu.
„Ýmsar jákvæðar heilsufullyrðingar omega-3, þar á meðal jákvæð áhrif á hjartastarfsemi, eru staðfestar af Matvælastofnun Evrópu, EFA. Ég tel afar ólíklegt að þessi staka vísindagrein muni breyta nokkru,“ segir Arnar. Þar að auki eru jákvæð áhrif omega-3 nýtt sem virkt efni í lyf gegn hjarta- og æðasjúkdómum í mörgum löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum og í Japan.
Að lokum
Eins og bent er á þá þarfnast málið frekari rannsókna við en óhætt er að fullyrða að þeir sem eru nú þegar með greindan hjarta eða æðasjúkdóm geta óhræddir haldið áfram að taka sitt lýsi. Auk þess er rétt að nefna að best er að ná sem mestu af Omega-3 beint úr fæðunni.
Björn Ófeigs.