-Auglýsing-

Listin að velja : Um ráðstefnu Félags fagfólks um offitu

MyndmedsalfrædipistlumFélag fagfólks um offitu (FFO) hélt nú á dögunum afar áhugaverða og upplýsandi ráðstefnu um heilsu og holdafar. Ráðstefnan bar yfirskriftina ”Listin að velja” og reyndist nafn með rentu.

Á dagskrá voru fjölmargir fyrirlestrar en dagurinn var tvískiptur þannig að fyrri hluta dags kynnti fagfólk sem stundar rannsóknir á offitu rannsóknir sínar og niðurstöður og var kannski frekar miðaður að fagfólki en seinni hluta dags voru fluttir fjölbreyttir fyrirlestrar ætlaðir öllum þeim sem áhuga hafa á heilbrigðum lífsstíl. Nánar um dagskrá og einstaka fyrirlestra hér. Hér í þessum pistli segi ég frá fyrri hluta dagsins og þeim rannsóknum sem þar voru kynntar en fljótlega verður birtur annar pistill þar sem fjallað er nánar um efni fyrirlestranna sem fluttir voru eftir hádegið.

Þessi fyrrihluti dags sýndi það og sannaði að við hér á okkar litlu eyju búum yfir góðum hópi fagfólks sem er að gera flotta hluti í leit sinni að leiðum til aukinnar heilsu, enda ljóst að vandi offitunnar er stór.

Í fyrirlestri Guðlaugs Birgissonar um langtímaárangur offitumeðferðar á Reykjalundi kom fram að árið 2007 hefðu 18,9% karla og 21,3% kvenna á Íslandi verið offeit ef miðað er við BMI stuðulinn ≥30. Þar kom einnig fram að offitumeðferð Reykjalundar leiðir til marktæks þyngdartaps hjá bæði þeim sem fara í aðgerð og hinum sem það gera ekki. Fjórum árum eftir upphaf meðferðar hafa þeir sem fóru í aðgerð misst að meðaltali 44,2 kg. Áhugavert var þó að sá hópur sem ekki fór í aðgerð hafði tapað að meðaltali 7,4 kg og þó þetta sé árangur sem breytir einhverju fyrir heilsufar almennt þá má velta því fyrir sér hvort þetta sé ásættanlegt og hvort bæta megi annars góða meðferð Reykjalundar þannig að hún nái betur utan um þarfir þeirra sem ekki fara í aðgerð þannig að árangur þeirra verði meiri.

Þá var mjög áhugavert að heyra í fyrirlestri Maríönnu Þórðardóttur að hvort sem um var að ræða meðferð á Reykjalundi með aðgerð eða ekki þá hafði hún sambærileg áhrif til lækkunar á þunglyndi og kvíða hjá þátttakendum en kannski skiljanlega þá upplifði aðgerðarhópurinn meiri lausn undan félagslegum erfiðleikum tengdum offitu í kjölfar meðferðarinnar enda töluverður munur á raunverulegu þyngdartapi þessara tveggja hópa. Þyngdartapið sjálft hafði því áhrif á félagslega líðan en aðrir þættir meðferðarinnar á þunglyndi og kvíða þátttakenda.

Alfons Ramel flutti svo sérstaklega áhugaverðan fyrirlestur um niðurstöður um brottfall meðferðarinnar á Reykjalundi en þar kom fram að alvarlegt þunglyndi í upphafi meðferðar eykur líkur á því að fólk hætti meðferð án þess að klára. Þetta er afar áhugaverð staðreynd sem aftur vekur upp spurningar um það hvort og hvernig sé hægt að þróa svona meðferð þannig að hún nái betur utan um þarfir þess hóps sem á henni þarf að halda og hefur náð minnstum árangri eða ekki náð að tileinka sér meðferðina.

- Auglýsing-

Í máli Ásdísar Evu Lárusdóttur um niðurstöður rannsóknar á börnum sem sækja Heilsuskóla Barnaspítalans kom svo fram sú mikilvæga staðreynd að mittismál er hjá börnum, eins og hjá fullorðnum, besti einstaki mælikvarðinn á áhættuþætti kransæðasjúkdóma á fullorðinsárum. Það var einkar hughreistandi að heyra um góðan árangur Heilsuskólans og verður spennandi að sjá meira um starf þeirra er fram líða stundir.

Í síðasta fyrirlestrinum þennan fyrri hluta dags fræddi Kristján Þór Magnússon okkur svo um það meðal annars að þau ungmenni sem vanmeta þrek sitt byggja það mat sitt á sálfræðilegum þáttum eins og sjálfsáliti og líkamsímynd en ekki raunverulegri líkamlegri getu eða holdafari. Þar kom einnig fram að drengir ofmeta þrek sitt mun frekar en stúlkur.

Þessi fyrri hluti ráðstefnudags var svo sannarlega áhugaverður og skildi mig eftir með margar vangaveltur og spurningar. Það sem eftir sat hjá mér þegar gengið var til hádegisverðar var mikilvægi þess að takast á við andlega líðan þó hinn aðkallandi og sjáanlegi vandinn sé líkamlegur. Þunglyndi einkenndi þá sem duttu úr offitumeðferð en fjölmargar rannsóknir, innlendar sem erlendar hafa sýnt fram á að andlegir erfiðleikar skerða getu fólks til að ná árangri í lífsstílsbreytingum. Það er ekki framhjá því horft, eins og kom reyndar fram í fyrirlestri Maríönnu að þunglyndi virkar í báðar áttir þegar kemur að offitu. Offita eykur líkur á þunglyndi og þunglyndi eykur líkur á offitu. Þetta samspil sálar og líkama er því afar mikilvægt og viðkvæmt.

Það er auðvitað ljóst að á svona ráðstefnu er ekki mikill tími fyrir hvern og einn fyrirlesara og því klárlega takmarkað efni sem hægt er að koma til skila í hverjum fyrirlestri. Ég hefði viljað heyra meira um það t.d. hvernig Reykjalundur skilgreinir árangur í eigin meðferð, hvert er þeirra markmið og hvað telja þeir telja vera viðunnandi árangur miðað við inngrip og þá hvað einkennir þá sem ná þeim árangri innan aðgerðarhóps annars vegar og innan þess hóps hins vegar sem ekki fór í aðgerð. Þá þætti mér afar áhugavert að heyra hvort sálrænir þættir eins og kvíði og þunglyndi komi inn sem áhrifaþættir á meðal þeirra sem ná minni árangri innan hvors hóps fyrir sig. Sem sagt, nánari upplýsingar um það hvað einkennir þá sem ná minnstum árangri meðal þeirra sem fara í aðgerð og þá hinna sem ekki fara í aðgerð. Það gæti gefið mögulega gefið áhugaverðar vísbendingar um hvað mætti gera til að koma betur til móts við þá hópa. En þorsti eftir meiri upplýsingum er merki um áhugahvetjandi ráðstefnu svo ég bíð spennt eftir meiri niðurstöðum úr búðum Reykjalundarsérfræðinga.

Að lokum bendi ég á heimasíðu Félags fagfólks um offitu. En þar er hægt er að finna nánari upplýsingar um félagið og starfssemi þess.

Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-