-Auglýsing-

Lífsstíll og lífsgleði

shutterstock_234495382 (2)Sífellt fleiri rannsóknir sýna fram á nauðsyn þess að stunda heilbrigðar lífsstílsvenjur. Á dögunum var birtur hér á hjartalíf pistill með umfjöllun um enn eina rannsóknina þar sem kom í ljós að á átta ára tímabili var dánartíðni og hætta á hjartasjúkdómum 80% lægri hjá þeim sem fóru eftir ráðleggingum um þann lífsstíl sem miðað var við í rannsókninni.

Rannsóknin, sem hægt er að lesa nánar um hér, segir okkur í raun ekkert nýtt en sýnir jafnvel enn skýrar en áður það sem við vissum. Það á hreinlega ekki að reykja, það á að borða hollan mat og það á að stunda líkamsrækt að einhverju marki og eftir getu. Það að halda sér nálægt kjörþyngd er gott.

-Auglýsing-

En 80% lægri líkur á hjartasjúkdómum og dauða!? Það ætti að vera mjög áhrifarík ástæða til þess að fara í göngutúr. Af hverju er staðreyndin þá sú að ríflega helmingur hjartasjúklinga hættir að fara eftir leiðbeiningum um lífsstíl bara eftir fyrsta árið frá veikindum þrátt fyrir ítrekaðar vísbendingar þess að það geti bætt heilsu, lífsgæði og lengt líf?

Þetta er í fúlustu alvöru talað ekkert smá vandamál. Í heiminum öllum drepa hjarta- og æðasjúkdómar langflesta einstaklinga á hverju ári. Um 17,3 milljónir manna falla á ári hverju úr þessum sjúkdómum og eftir einungis 7 ár metur Alþjóða heilbrigðisstofnunin það þannig að þessi tala muni hafa hækkað í 23,6 milljónir manna. Á hverju ári… Alltof stór hluti þessa fólks, eða um 20% deyr fyrir 60 ára aldur og er því að skerða líf sitt verulega, bæði í árum og gæðum líka áður en sjúkdómurinn sigrar að lokum.
Hvernig er þinn lífsstíll og hverju þyrftir þú að breyta? Getur verið að þú getir eitthvað gert til að bæta þína heilsu og lengja líf þitt?

Það vita það allir að góðar lífsstílsvenjur leiða til betri heilsu. Þeir hjartasjúklingar sem ekki eru að lifa samkvæmt ráðleggingum um lífsstíl, þeir vita það. Þeir vita það allir svona um það bil hvað það er sem þeir eru að gera vitlaust. Þeir vita það vel hvaða afleiðingar þetta getur haft.

Af hverju gerir þá fólk ekki það sem það veit að það þarf að gera?

- Auglýsing-

Við þessari spurningu er ekkert eitt svar fyrir alla. Ef svarið væri mjög einfalt, þá væri þetta ekkert vandamál. Þetta er ekki bara leti eða kæruleysi. Það er ekki nóg að segja bara taktu þér tak og gerðu eitthvað í þínum málum. Svarið er falið í sálarlífi, hugsunum, reynslu og venjum hvers og eins og til að takast á við þetta þarf að takast á við þessa einstaklingsbundnu þætti. Það eru milljón þættir sem hafa áhrif á hegðun okkar á hverjum degi, á áhugahvöt okkar, á orkuna okkar, á úthaldið okkar, á löngunina okkar, á sjálfstraust okkar og trú á að við getum. Hvað heldur þú að hafi áhrif á þig og þinn lífsstíl?

Það sem við þurfum að leita að eru þættir sem við höfum stjórn á. Það er ekkert við því að gera akkúrat í dag hvað grænmeti kostar úti í búð eða hvort þú hefur efni á líkamsræktarkorti. Það eru svo margir hlutir sem við myndum vilja óska að væru öðruvísi. En þeir eru það ekki. Núverandi heilsa, orkuleysi og hjartavandamál eru hluti af því. En það eru margir, mjög margir þættir sem maður getur sjálfur haft áhrif á þegar kemur að lífsstílshegðunum.
Það sem mig langar því að taka fyrir hér, þar sem ég get ekki fjallað um allt í einum pistli, er eitt af þeim atriðum sem við getum haft áhrif á og rannsóknir hafa sýnt að hafi áhrif á árangur lífsstílsbreytinga eftir veikindi.

Sátt

Mjög stór hluti þeirra hjartasjúklinga sem breytir lífsstíl sínum eftir hjartaáfall endist ekki árið, byrjar aftur að reykja, nælir sér aftur í kúlusúkk pokann og forðast grænmetisdeildina í innkaupaleiðangrinum sem aldrei fyrr. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru ósáttir við þær breytingar sem þeir gera á lífsstíl sínum enda með versta lífsstílinn. Þeir sem breyta af því þeir eiga að breyta en njóta ekki hreyfingarinnar eða mataræðisins þeir enda á að hafa í átaki gert betur um tíma en mistekist að búa sér nýjan lífsstíl sem endist til framtíðar. Gerðu því breytingar, en hugaðu að því að þú getir verið sátt/ur við þær.

Þær eru óteljandi ráðleggingarnar sem gefnar eru um heilbrigðan lífsstíl. Ólíkir hlutir og ólíkar áherslur sem alls ekki passa alltaf saman. Sumir segja út með fitu á meðan aðrir segja út með kolvetni. Fitulítil gervi smjör eða verksmiðju unnin próteinduft í stað máltíðar. Er það nema von að erfitt sé að finna út úr því hvað skal og halda fókus? Það sem þetta allt á þó sameiginlegt er dálítill allt eða ekkert hugsunarháttur. Það eru gefin út matarplön, plönuð af einhverjum öðrum en þeim sem eftir þeim á að fara. Viðkomandi finnst planið væntanlega bara mjög girnilegt, enda skapað eftir hans/hennar höfði, smekk, venjum og bragðlaukum. Það er líka fínt eins langt og það nær. En fullorðið fólk vill hafa vald yfir eigin lífi. Fullorðið fólk er hætt að láta segja sér fyrir verkum þegar kemur að daglegum venjum. Fullorðið fólk vill og á að vera stjórnendur í eigin lífi. Gerðu því breytingar sem þú getur verið sátt/ur við.

Mjög margir reyna, tekst ekki alveg, finnst mikið af réttunum allt í lagi, ekkert spes samt. Eru ennþá hálf svangir eftir máltíðina, dreymir lakkrísdrauma. Hafa enga lyst á öllu þessu grænmeti, og græni djúsinn… úff… Ef fólk er ánægt þá frábært, en ef ekki þá eru þetta ekki lífsgæði. Þá er þetta uppskrift að átaki en ekki góðum breytingum á lífsstíl til framtíðar.

Það munar um allt. Hvað vilt þú og er sátt/ur við að gera?
Hvaða breytingar getur þú gert sem er aðlögun á lífsstíl en ekki alger umbreyting á öllu sem þú þekkir?

Byrjaðu smátt, ekki ætla þér að breyta heiminum á einum degi. Hafðu fjölskylduna með í ráðum og verið skapandi og með opin huga þegar þið leitið að nýjum uppskriftum, prufið ný hráefni, leitið og finnið nýjar leiðir sem ykkur líkar. Þetta þarf ekki að vera fullkomið. Þetta þarf ekki að vera flókið. Hvað hugsaðir þú áðan þegar ég spurði hvort það væri eitthvað sem þú vissir að þú þyrftir að breyta? Líkur eru á að þú vitir sjálf/ur um þó nokkra hluti sem þú gætir gert til að bæta heilsuna án þess að leggjast í stórvægar persónuleikabreytingar til að geta passað við nýja lífsstílinn.

- Auglýsing -

Það sama á við um hreyfingu. Það er engin regla að allir verði skilyrðislaust að hreyfa sig að minnsta kosti 60 mínútur á dag ef það á að gagnast eitthvað. Allt hjálpar. Það munar í fyrsta lagi mjög miklu að vera virkur í daglegu lífi. Taka stigann ef þú getur, leggja lengra frá búðinni. Ef þú værir fullkomlega heilbrigð/ur, í góðu formi, hvað værir þú þá að gera? Aðlagaðu hreyfingu þína að því. Ef það er ekki að hlaupa á bretti í líkamsræktarstöð, þá skaltu gera eitthvað annað. Eða kannski ertu eins og ég sem dreymir í laumi um að hlaupa maraþon. Þá er brettið kannski ágætis æfing og þá um leið áhugaverð því hún er hluti af eigin plani.

Hvað finnst þér gaman að gera?

Góð endurhæfing felst nefnilega ekki bara í að endurhæfa kroppinn heldur í að endurhæfa löngunina til hreyfingar líka, endurhæfa víðsýnina um hvað mögulega væri hægt að gera til að hreyfa sig. Langar þig á fjall? Ertu bollywood týpa sem vilt sveipa þig sjali og með lotningu svífa um gólf Kramhússins eða ertu týpan sem færð kikk út úr því að sigra sjálfa þig í sundi… og karlinn líka á næstu braut… Göngutúr í næsta nágrenni skilar alltaf sínu og ég horfði á afa gamla gera Mullers æfingar fram eftir öllum aldri enda lifði hann næstum 99 ár. Hugsaðu þig um og byrjaðu á að gera smá og eins og þú getur af því sem þig langar að geta, því sem þér finnst gaman. Smám saman bætist svo í.

Við erum nefnilega ólík, það sama hentar ekki öllum og sá sem best getur dæmt um það hvað þú getur verið sáttur við til framtíðar ert þú. Þú þarft nefnilega ekki bara að breyta lífsstíl, þú þarft að vera ánægður með það líka.

Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur
mjollj@heilsustodin.is

Heimildir nýttar við skrif þessa pistils

Bellg, A. (2003). Maintenance of Health Behavior Change in Preventive Cardiology: Internalization and Self-Regulation of New Behaviors. Behavior Modification, 27(1), 103-131.

Burke, L E (1997). Compliance with cardiovascular disease prevention strategies: a review of the research. Annals of behavioral medicine (0883-6612), 19 (3), 239.

Evidence mounts that four lifestyle changes will protect your heart and significantly reduce your risk of death. Fréttatilkynning sótt þann 12.06.2013: http://www.hopkinsmedicine.org/news/media/releases/evidence

Jónsdóttir, M. (2012). Influence of partners and relationships on the lifestyle change of heart patients. Óútgefið lokaverkefni. Háskólinn í Árósum.

WHO. (2011). Global Atlas on cardiovascular disease prevention and control. Geneva: World Health Organization in collaboration with the World Heart Federation and the World Stroke Organization.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-