-Auglýsing-

Lífsnauðsynlegar fitusýrur I

Sigmundur Guðbjarnarson býr yfir mikill reynslu og miklum fróðleik pistlarnir hans sem birtast á eyjunni.is eru hver öðrum fróðlegri og hér kemur einn þar sem umfjöllunarefnið er lífsnauðsynlegar fitusýrur.

Til eru ýmsar gerðir af fitusýrum; mettaðar, einómettaðar og fjölómettaðar fitusýrur.

-Auglýsing-

Mettaðar fitusýrur eru uppistaðan í mör og tólg og einnig í smjöri en þessar fitusýrur bráðna við frekar hátt hitastig, hærra en herbergishita. Einómettaðar fitusýrur hafa eitt svokallað ómettað tengi milli kolefnisatóma í fitusýrukeðjunni. Það táknar að unnt er að metta þetta tengi með vetni (t.d. í fituherslu) og breyta fitusýrunni í mettaða fitusýru.

Einómettaðar fitusýrur bráðna við lágt hitastig og eru fljótandi við herbergishita, t.d. ólífuolía.

Fjölómettaðar fitusýrur hafa tvö eða fleiri slík ómettuð tengi en þessi ómettuðu tengi hvarfast mjög greiðlega, t.d. við súrefni og þránar fitan því auðveldlega, t.d. kornolía o.fl. matarolíur.

Fitusýrur eru mjög mikilvægar, bæði mettaðar og ómettaðar fitusýrur. Þær eru t.d. orkugjafi sem gefur tvöfalt meiri orku í grammi en neysla á kolvetnum eða próteinum. Þær eru einnig mikilvægar byggingareiningar í efnasamböndum sem nefnast fosfólipið og eru í öllum frumuhimnum.

- Auglýsing-

Fjölómettaðar fitusýrur eru mikilvægar fyrir myndun vissra hormóna eða boðefna. Þessar fitusýrur eru einkum omega-6 og omega-3 fitusýrur og skortur á þeim veldur ýmsum sjúkdómseinkennum, t.d. exemi.

Rannsóknir á omega-3 fitusýrum voru fyrst stundaðar af George Burr og Mildred Burr, hjónum sem störfuðu við University of Minnesota Medical School 1929. Ralph Holman tók þátt í rannsóknum á þessum fitusýrum og gaf hann þessum fitusýrum nafnið „omega-3 fitusýrur“. Holman rannsakaði byggingu og eiginleika þessara efna og ummyndanir í frumum. Það voru hins vegar tveir danskir læknar, Dyerberg og Bang, sem voru við rannsóknir á Grænlandi sem bentu á að Inúítar hefðu mun lægri dánartíðni af völdum kransæða-sjúkdóma en Danir sem bjuggu á Grænlandi. Fæða Inúíta var sjávarfang sem innihélt mikið af omega-3 fitusýrum. Að vísu var meðalaldur Inúíta mun lægri, um 60 ár þegar þessar rannsóknir voru gerðar, en meðalaldur Dana og hefur það áhrif á slíkan samanburð. Þessar rannsóknir á Inúítum vöktu athygli og var það upphafið að sívaxandi rannsóknum á áhrifum omega-3 fitusýra á heilsufar almennt og hjartasjúkdóma sérstaklega.

Munurinn á omega-6 og omega-3 fitusýrum felst í staðsetningu ómettuðu tengjanna í fitusýrukeðjunni. Omega-3 fitusýrur hafa fyrsta ómettaða tengið við kolefnisatóm númer 3 talið frá þeim enda kolefniskeðjunnar sem ekki ber sýruhópinn. Omega-6 fitusýrur hafa fyrsta ómettaða tengið við kolefnisatóm númer 6. Þetta eru tvær fjölskyldur af fitusýrum og verða menn að fá báðar þessar tegundir af fitusýrum í fæði, þær eru lífsnauðsynlegar.

■Mikilvægustu omega-6 fitusýrurnar eru linolsýra og arakidonsýra.
■Mikilvægustu omega-3 fitusýrurnar eru EPA og DHA og eru einkum í fiski og lýsi. EPA er skammstöfun á eicosapentaensýru. DHA er skammstöfun á docosahexaensýru.

Áhugi á notkun ómega-3 fjölómettaðra fitusýra í læknisfræðilegum tilgangi hefur aukist mikið á síðari árum. Omega-3 fjölómettaðar fitusýrur eru notaðar sem meðferð við háum styrk blóðfitu og einnig sem hluti af meðferð eftir brátt hjartadrep. Þá hafa rannsóknir gefið til kynna gagnsemi þeirra við meðferð á hjarta- og æðasjúkdómum, og við meðferð háþrýstings, æðakölkunar og til að fyrirbyggja alvarlegar hjartsláttartruflanir og skyndidauða. Einnig hafa á undanförnum árum komið fram fjölmargar áhugaverðar rannsóknir á notkun þessara fitusýra í meðferð langvinnra bólgusjúkdóma, sérstaklega iktsýki.  Loks hafa rannsóknir á hlutverki ómega-3 fjölómettaðra fitusýra í miðtaugakerfi ýtt undir athuganir á gildi þeirra fyrir taugaþroska ungbarna og notkun við meðferð geðsjúkdóma.

Þessar omega-6 og omega-3 fitusýrur eru nauðsynlegar í frumuhimnur. Omega-3 og omega-6 fitusýrur eru mikilvægar fyrir framleiðslu prostaglandina í líffærunum. Prostaglandin eru framleidd úr þessum fitusýrum og eru í raun nokkurs konar hormónar sem stjórna margvíslegri starfsemi svo sem bólgum og sársauka. Prostaglandin eru mikilvæg fyrir stjórnun á blóðþrýstingi, starfsemi hjartans, nýra og meltingarfæra, einnig fyrir ofnæmi, myndun blóðtappa, og myndun annara hormóna.

Heilinn er 60% fita og DHA er algengasta fitusýran í heilanum. DHA er einnig ein mikilvægasta fitusýran í móðurmjólkinni en nýfædd börn þurfa á DHA að halda fyrir vöxt og þroska heilans og augnanna. Omega-3 fitusýrur virðast sérstaklega mikilvægar fyrir eðlileg tengingu taugafruma og boðflutninga í heilanum. DHA er einnig í háum styrk í sjónhimnu augans.

Jafnvægi þarf að ríkja milli neyslu omega-3 og omega–6 fitusýra, en matarræði í hinum vestræna heimi inniheldur mun meira og of mikið af omega-6 en omega–3 fitusýrum.

- Auglýsing -

Um það verður fjallað nánar síðar.

Heimildir.

The Slow Discovery of the Importance of 3 Essential Fatty Acids in Human Health1 Ralph T. Holman. The Hormel Institute, University of Minnesota, Austin The Journal of Nutrition Vol. 128 No. 2 February 1998, pp. 427S-433S

Fish consumption and risk of sudden cardiac death. Albert CM, Hennekens CH, O’Donnell CJ, Ajani UA, Carey VJ, Willett WC, Ruskin JN, Manson JE. JAMA 1998;279:23-28.

Effects of changes in fat, fish, and fibre intakes on death and myocardial reinfarction: diet and reinfarction trial (DART). Burr ML, Fehily AM, Gilbert JF, et al. Lancet 1989;2:757-761.

Effect of fish oil on heart rate variability in survivors of myocardial infarction: a double blind randomised controlled trial. Christensen JH, Gustenhoff P, Korup E, Aarøe J, Toft E, Møller J, Rasmussen K, Dyerberg J, Schmidt EB. Brit Med J 1996;312:677-678.

Fish Consumption, n3 Fatty Acids in Cell Membranes, and Heart Rate Variability in Survivors of Myocardial Infarction With Left Ventricular Dysfunction. Christensen JH, Korup E, Aarøe J, Toft E, Moller J, Rasmussen K, Dyerberg J, Schmidt EB.. Am J Cardiol 1997;79:1670-1673.

Diet, atherosclerosis, and fish oil. Connor WE, Connor SL. Adv Intern Med 1990;35:139-171.

www.eyjna.is 24.11.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-