-Auglýsing-

Lífsgæðin laus við kvíða

Kvíði
Kvíði

Allir verða áhyggjufullir eða kvíðnir endrum og sinnum, til dæmis þegar byrjað er í nýrri vinnu, þegar þarf að tala fyrir framan hóp eða fólki finnst eitthvað ekki eins og það á að vera í aðstæðum eða umhverfi. Við göngum öll í gegnum hremmingar á lífsleiðinni þar sem það er eðlilegt og jafnvel óumflýjanlegt að vera kvíðin, hrædd og líða illa.

Kvíðaviðbragðið er nefnilega eðlilegt viðbragð sem við getum ekki lifað án. Það er verkfæri heilans til að vara okkur við og hjálpa okkur að bregðast við þegar hætta steðjar að. Það gerir okkur meðvitaðri um ógnina í umhverfi okkar og setur okkur í stellingar til að takast á við hana. Tilgangurinn er að reyna af fremsta megni að tryggja velferð okkar. Kerfið okkar vill að við séum á tánum, bregðumst hratt við og forðum okkur úr eða tökumst á af afli við ógnandi aðstæður. Það getur og hefur oft komið sér vel.

Stundum verður þetta viðbragð samt fram úr hófi sterkt og fram úr hófi algengt miðað við aðstæðurnar í okkar daglega lífi. Þegar svo er komið getur ástandið valdið verulegri vanlíðan og heft tilveruna mjög. Þá er það kallað kvíði.

Það er magnað hvað úthaldið fyrir vanlíðan getur verið mikið. Við höldum jafnvel að ekkert sé hægt að gera eða að ef að við bara tökum okkur á, spörkum okkur í rassinn, gerum betur, þá verði þetta allt í lagi.

Ef vanlíðanin væri jafn mikil vegna eymsla í hné þá væru margir fyrri til að leita sér hjálpar og standa á því að slík skerðing væri ekki ásættanleg, krefjast rannsókna og meðferðar og gera svo þær æfingar sem þyrfti svo hægt væri að hlaupa frjáls um á ný. Fáir setja undir sig haus og reyna að stíga bara fastar í og muldra um leið að vandinn sé einungis að ekki sé hlaupið nóg.

Eitthvað í þessu samfélagi, venjum okkar og viðhorfum hefur hins vegar gert að því miður ganga alltof margir um með andlega vanlíðan án þess að leita sér hjálpar eða segja frá. Án þess að krefjast rannsókna og sálfræðilegrar meðferðar og án þess þá að fá í hendurnar þær æfingar sem hægt er að gera til að geta hlaupið glaður um á ný. Þeir reyna að stíga í án þess að vinna með þann vanda sem gerir það að verkum að þeir geta ekki stigið í.

- Auglýsing-

Lífsgæði okkar mælast ekki bara í veraldlegum hlutum, húsi og bíl, heldur einnig í andlegri heilsu og áhrifum hennar á okkur sjálf og samskiptin við okkar nánustu. Þau mælast í því að samræmi sé milli stöðu okkar og væntinga. Að okkur líði eins og okkur langar til að líða og að okkur farnist eins og okkur langar til að farnast í sambúð við okkur sjálf og samferðamenn okkar. Kvíði er takmörkun á lífsgæðum, hann heldur aftur af framkvæmd og frumkvæði, veldur frestun og að við forðumst það sem þarf að gera og tekur frá okkur svefn.

Ef þú kannast við þetta þá hvet ég þig til að bregðast við. Eins og væri svo sjálfsagt að gera ef það sem takmarkaði væri hné.

Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 2. febrúar 2015

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-