-Auglýsing-

Hjartabilaður gengur á vegg

Þung spor
Þung spor

Undanfarnir átta mánuðir hafa verið erfiðir og hvað eftir annað hafa heilsufarsleg vandræði bankað upp á og gert mér lífið leitt. Í rauninni hefur heilsufar mitt ekki verið jafn viðkvæmt í allnokkur ár og þrekið ansi lítið og einkenni hjartabilunar koma oft ansi fljótt við lítið álag.

Á síðastliðnum átta mánuðum hef ég farið í þrjár hjartaþræðingar, fengið brjósklos, verið greindur með Barret´s í vélinda, verið lagður fimm sinnum inn á spítala og nokkrum sinnum leitað á bráðamóttöku. Eins og gefur að skilja hefur þetta dregið úr mér þróttinn og ég varð þess vegna feginn þegar ég var kallaður á Reykjalund þar sem á að freista þess að hressa aðeins upp á ástandið.

Ég geri mér hinsvegar ljóst að sökum þess hvernig hjartabilun minni er háttað er ekki líklegt að unnin verði kraftaverk á almennri getu minni eða þreki en hugsanlega er hægt að hækka eitthvað þröskuldinn og bæta lífsgæði mín. Hér er smá hugleiðing um fyrstu vikuna mína þar.

Þá er ég kominn enn og aftur á Reykjalund en hingað kom ég fyrst í endurhæfingu fyrir tæpum 12 árum síðan og var hér fastamaður um nokkurra ára skeið þar sem leitast var við að auka við þrek mitt. Það er skemmst frá því að segja að það gekk erfiðlega að berja í mig þrekið og þá var markmiðið sett á að halda mér í einhverri hreyfingu og reyna að halda uppi vöðvastyrk eftir því sem hægt var.

Endurhæfing mín hefur því verið þyrnum stráð en þrátt fyrir allt þá fagnaði ég því að fá tækifæri til að koma hingað aftur því það var líka mikilvægt fyrir mig að reyna að átta mig á því hvar ég væri staddur.

Fyrsta daginn fór ég í þrekpróf og sprengdi ekki skala þar frekar en fyrri daginn en þó einn stór munur. Fyrir tólf árum var ég fluttur á sjúkrabörum úr þolprófinu inn á deild en í dag fylgdi Magnús læknir mér í rólegheitunum, lagði mig upp í rúm og undir sæng. Prófið gekk samt vel og hjartað í mér er stöðugt þó svo að það geti ekki mikið. Niðurstaðan var hámarkssúrefnisupptaka upp á 12,7 sem er ansi lélegt svo ekki sé meira sagt. Það var því þreyttur Björn sem hélt heim á leið þennan daginn.

- Auglýsing-

Hremmingum mínum á Reykjalundi var ekki lokið eftir þrekprófið. Daginn eftir mætti ég á þrekhjólið og eins og venjulega var ég staðráðinn í því að gera mitt besta. Mér hættir hinsvegar til að gleyma því að þegar ég fer út fyrir boxið mitt og fer um ókunnar lendur þá lendi ég oft í vandræðum. Það er skemmst frá því að segja að ég hjólaði í rúmar sjö mínútur, varð móður, fékk óþægindi í brjóstkassann, flökurleika og fleiri einkenni sem ég þekki svo vel en er gleyminn á.

Mér var fylgt á bekk þar sem ég jafnaði mig og var svo trillað inn á herbergi í hjólastól, upp í rúm og undir sæng. Ég ætti að þekkja þetta eftir tólf ár en einhvern veginn er þetta alltaf jafn erfitt og sárt þegar ég lendi á veggnum. Dagsdaglega lifi ég lífinu mínu í kössum sem ég ræð við en þegar farið er út fyrir kassana þá lendi ég í ógöngum. Þetta var erfitt og það var ekki laust við að glitraði tár á hvarmi þar sem ég lá undir sænginni á Reykjalundi og jafnaði mig.

Ég mætti svo á fimmtudeginum en var ekki líklegur til stórræða og Magnús læknir lagði til að ég tæki mér frí á föstudeginum og fengi langa helgi í þeirri von að ég væri þá kannski búinn að jafna mig.

Stundum er það svo að sjúkdómurinn minn, hjartabilunin nær í skottið á mér og það gerði hún svo sannarlega þessa fyrstu viku á Reykjalundi. Þrátt fyrir það að ég þekki þetta vel þá er alltaf jafn erfitt að upplifa það að vera hjartabilaður og lenda á vegg, geta ekki meira.

Ég get tekið þátt í ótrúlega mörgu sem reynir ekki mikið á úthald og orku og í því felast mín lífsgæði. Ég get sinnt fjölskyldunni minni, eldað mat, lyft glasi á góðri stund, átt góða samveru með fólki og sinnt léttum heimilisverkum sem eru að hluta til mín líkamsrækt.

Mitt frelsi til athafna felst mikið í því að mér finnst alveg svakalega gaman að keyra bíl og þar þreytist ég seint og finnst mikil afslöppun og frelsi í því að geta þeyst um bæinn.

Þetta blessaða líf er ekki sjálfsagt og það er gott að fá að njóta þess að fá að vera á þeim stað þar sem manni líður vel og með fólkinu sínu þ.e. heima. Þess hef ég notið um helgina og fyrir það er ég þakklátur.

Framundan er ný vika á Reykjalundi og verður spennandi að sjá hvað hún ber í skauti sér og þið getið fylgst með því ferðalagi hér.

- Auglýsing -

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-