-Auglýsing-

Langveikur Landspítali

LSH 060Málefni Landspítala eru daglega og jafnvel oft á dag í fjölmiðlum og það eru dapurlegar fréttir sem landsmenn fá af stöðunni þar sem hópar starfsmanna lýsa miklum áhyggjum af ömurlegu ástandi og vonlausum vinnuaðstæðum.

Við sjúklingar hljótum að hafa af þessu miklar áhyggjur og miðað við umræðuna sýnist mér liggja ljóst fyrir að öryggi er ekki aðeins ógnað heldur er öryggi sjúklinga ótryggt með öllu.

Hvar er eftirlitsaðili heilbrigðisþjónustunnar, Landlæknir? Þaðan heyrist fátt þrátt fyrir að heilbrigðiskerfið í heild sinni sé nánast að riða til falls.

Á undanförnum árum hafa stjórnendur spítalans hvað eftir annað komið fram í fjölmiðlum og fullyrt að hvað sem gangi á verði öryggi sjúklinga tryggt. Landlæknir hefur tekið undir sönginn um að öryggi sjúklinga sé tryggt þrátt fyrir gríðarlegan niðurskurð.

Það blasir við að þessir menn hafa sagt ósatt, það liggur fyrir að fullyrðingar þessara manna hafa verið óraunsæ óskhyggja um að þrátt fyrir allt yrði nú allt í lagi. Þeir virðast hafa hugsað með sér á sér-íslenska vísu að þetta reddist nú allt saman.

Yfirstjórn spítalans ber ábyrgð á þeirri stöðu sem nú er uppi. Forstjóranum og hans fólki tókst vel upp sem rekstrarfólki að halda spítalanum innan fjárheimilda í kjölfar kreppunnar og það var mikið afrek. Að launum hlaut forstjórinn svo verulega mikla launahækkun sem því miður komst upp um og ég get ekki betur séð en síðan þá sé hann algjörlega rúinn trausti og trúnaði starfsmanna og skyldi engan undra.

- Auglýsing-

Afleiðingarnar af þessum „góða“ rekstri koma nú fram af fullum krafti og mér virðist liggja ljóst fyrir að stjórnendur spítalans hafa látið teyma sig of langt í algjörlega óraunhæfum niðurskurði með afleiðingum sem nú koma í ljós af fullum þunga.

Á sama tíma hefur Landlæknir fylgst með því að þjónustan væri í lagi og hann hefur ítrekað fullyrt að öryggi sjúklinga sé ekki ógna. Eins og nú er komið á daginn hafa það verið draumórar hjá Landlækni og greinilegt að embættið hefur svifið með stjórnendum Landspítalasofandi að feigðarósi, í stað þess að hafa uppi sterk varnaðarorð og standa með starfsfólki og sjúklingum.

Ég get ekki betur séð en almenningur hafi verið blekktur.

Ég velti því oft fyrir mér þegar ég sá viðtöl við forstjóra spítalans þar sem hann ræddi um rekstrarárangur sinn, hvort það væri í raun algjör hugsunarvilla að háskólasjúkrahús ætti að geta verið rekið innan fjárlaga.

Ég hef staðið í þeirri trú að eðli heilbrigðisþjónustu væri þannig að það væri óhjákvæmilegt að hafa ákveðið svigrúm í rekstrinum til að bregðast við þegar óvæntir hlutir kæmu upp, pestir, bilun í tækjabúnaði, ný tækni, ný lyf og svo mætti lengi telja.

Hér áður fyrr var formið þannig að hallinn var afgreiddur með aukafjárveitingu en á móti kom að þjónustan var góð og stöður voru mannaðar. Í mínum haus hljómar það einhvern veginn réttara því eðli heilbrigðisþjónustunnar er þannig að þegar vá ber að höndum þá bregst kerfið við því óvænta.

Það liggur fyrir að á þeim tímum sem niðurskurðurinn hefur verið mestur þá voru samt sem áður til peningar til ýmissa verkefna sem geta vel talist umdeilanleg.

Á sama tíma virðast manni sparnaðarkröfurnar sem gerðar voru til heilbrigðiskerfisins algjörleg óraunhæfar með öllu.

- Auglýsing -

Það sem vekur furðu mína er að stjórnendur spítalans skuli hafa látið hafa sig út í þennan leiðangur og þá ekki síst hvernig Landlæknir hefur á síðustu árum lagt blessun sína yfir vitleysuna eins og allt væri í lagi þó það væri dálítið erfitt og hann hefði af þessu áhyggjur.

Árið 2009 voru 24 almennir læknar við störf á lyflækningasviði. Nú eru þeir tíu og fer fækkandi.

Þetta hefur verið ljóst lengi og enginn hefur brugðist við.

Sjálfur stóð ég í málaferlum við spítalann í átta og hálft ár vegna læknamistakamáls. Þá fékk ég að kynnast á mínu eigin skinni óbilgirni stjórnenda spítalans og viðhorfum þeirra.

Línan sem þeir tóku var þessi; við semjum ekki við fólk en ef það verður eitthvað úr þessu berjumst við í réttarsölum, hagsmunir spítalans og ríkisins ofar öllu.

Mér virðist satt best að segja eftir að hafa fylgst með samskiptum stjórnenda og starfsfólks LSH og starfsmanna síðustu mánuði að þetta sé ekki fjarri því að vera samskiptamátinn sem er viðhafður almennt, að semja helst alls ekki við fólk.

Ég er hræddur um að þar hafi stjórnendur skotið sig í fótinn, stjórnendum hefði verið nær að standa með sínu fólki en ekki ríkisvaldinu í óraunhæfum kröfum um sparnað.

Starfsfólk spítalans á heiður skilið fyrir að hafa staðið vaktina þrátt fyrir erfið ár en nú er mál að linni. Landspítli er langveikur og þarfast alvöru lækninga með nýrri tækni, fleiri höndum, betri aðbúnaði og betri aðhlynningu. Aðeins þannig getum við stutt hann til heilsu á ný.

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-