-Auglýsing-

Landspítali og öryggi sjúklinga

Málefni Landspítala hafa verið í brennidepli að undanförnu. Eða væri kannski rétt að segja að málefni spítalans hafi verið í brennidepli svo árum skiptir með stuttum hléum.

Málefni bráðamóttöku hafa ratað reglulega í fjölmiðla þar sem biðtími er oftar en ekki langur og aðstæður sjúklinga og starfsfólks allar frekar nöturlegar svo ekki sé fastar að orði kveðið. Almenningur og starfsfólk finnur að öryggi sjúklinga er ógnað og hætta á alvarlegum mistökum til staðar.

Vandamál Landspítala voru oft í umræðunni áður en Covid-19 kom til en sá faraldur hefur hvað eftir annað sett starfsemina á hliðina. Lífsbjargandi aðgerðum hefur ítrekað verið frestað og starfsemi spítalans farið meira og minna úr skorðum. En vandi spítalans er síður en svo nýr af nálinni þó raddirnar sem kalla eftir tafarlausum úrbótum og framtíðarlausnum verði sífellt háværari.

Svokallaður fráflæðisvandi hefur verið vinsælt orð hjá stjórnendum og stjórnmálamönnum og hefur gjarnan verið kennt um „flöskuhálsin“ á bráðamóttökunni. Þrátt fyrir ýmiskonar skammtímalusnir í gegnum tíðina virðist aldrei sjást til lands í þessu eilífðarvandamáli eins undarlega eins og það kann að hljóma. Nú er það svo að mannfjöldaþróun er eitthvað sem er ekki flókið að finna út úr og ljóst að í málefnum eldri borgara er hreinlega ekki nóg að gert og uppbygging þjónustu í þeirra þágu gengur merkilega hægt fyrir sig.

Síðustu tæp 19 ár hef ég margoft þurft á þjónustu Landspítalans að halda. Tilefnið var nú kannski ekki sérlega skemmtilegt en ég fékk myndarlegt hjartaáfall sem fór á versta veg. Ég var fluttur á milli húsa, gögn týndust, ég fékk vitlausa greiningu og af þessu hlaust skaði. Ástæðan var álag og verkferlar sem ekki virkuðu sem leiddu til mannlegra mistaka. Með öðrum orðum aðstæður voru ekki sem skildi og því fór sem fór. Sem betur fer lærðu menn af þessu atviki og lagfærðu margt af því sem fór úrskeiðis til mikilla hagsbóta fyrir þá sem á eftir komu.

Allar götur síðan hef ég fylgst vel með umræðunni um Landspítalann. Reglulega hefur blossað upp mikil umræða um húskost spítalans og þá ekki síst bráðmóttöku. Engu hefur skipt hvaða stjórnmálaflokkur hefur farið með heilbrigðismál sparnaður og fráflæðisvandi hafa verið töfraorð af hálfu stjórnmálamanna. Valdabrölt hefur stundum átt sér stað meðal stjórnenda og spítalinn stundum logað stafna á milli í illdeilum. Reglulega hafa komið upp aðstæður þar sem tækjabúnaður spítalans hefur verið orðin lúinn og úr sér genginn. Þá hafa almenningur og félagasamtök tekið sig til og annaðhvort gefið tæki eða efnt til söfnunar til tækjakaupa.

-Auglýsing-

Ég er ekki sérfræðingur í rekstri sjúkrahúsa en mér virðast alvöru langtímalausnir ekki hafa verið mikið í almennri umræðu. Nýr spítali er framfaraskref enda löngu tímabært að fá nýjan spítala. Nýr spítali gerir hinsvegar ekki mikið einn og sér og meira þarf að koma til.

Nú tæpum 19 árum eftir mín veikindi erum við með hálf lamaða spítalastarfsemi örmagna og óánægt starfsfólk eftir tveggja ára heimsfaraldur. Ég ætla ekki að gera lítið úr afleiðingum farsóttarinnar en ég held hins vegar að það sé óráð að skella skuldinni algjörlega á heimsfaraldur því þreytan og pirringurinn nær mikið lengra aftur.

Um það verður ekki deilt að það starfsfólk sem er í vinnu sinnir sínum störfum af kostgæfni og oft við erfiðar aðstæður. Það er hins vegar sorglegt að sjá þegar almenningur er hreinlega beðin um að koma helst ekki á bráðamóttöku nema líf liggi við. Það er því óhætt að fullyrða að öryggi sjúklinga er stefnt í hættu nánast út frá hvaða sjónarhorni sem litið er á málið.

Það er umhugsunarefni að í tvígang á seinni árum hafa kjör hjúkrunarfræðinga verið ákvörðuð með Gerðardómi. Það er klárlega ekki í lagi. Ekki fyrir neina stétt. Nú er svo komið að uppsagnir eru daglegt brauð  hjá þeim sem vinna á bráðamóttöku og rætt er um manneklu vegna þess að þeir sem eru menntaðir hjúkrunarfræðingar vilja ekki vinna á spítalanum.

Það er líka merkileg staðreynd að það sé töluverður fjöldi hjúkrunarfræðinga sem starfar ekki í greininni eða vill ekki starfa þar. Líklegt má telja að launakjör og starfsaðstæður sem eru í boði hafi eitthvað með það að gera. Umræðan undanfarin ár vinnur svo ekki beinlínis með vinnustaðnum, mörgum finnst hann einfaldlega ekki aðlaðandi eins og staðan er.

Í hádegisfréttum þann 13 desember 2021 var haft eftir Hjalta Má Björnsyni yfirlækni á bráðamóttöku að hátt í 80% þeirra sjúklinga sem þá voru á bráðamóttöku hafa lokið meðferð þar og bíði eftir að komast á aðrar deildir.

Hjalti segist ekki vita til þess að ástand sem þetta ríki á sjúkrahúsum í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. „Þetta er smánarblettur á íslensku samfélagi og þetta er eitthvað sem verður að breyta því ástandið er hreinlega farsakennt á Landspítalanum í dag. Og það er eitthvað sem við höfum fulla trú á að ný ríkisstjórn muni ekki láta viðgangast lengur,“ segir Hjalti Már.

- Auglýsing-

Almennt hef ekki ég ekki mikla trú á breytingum á ríksstjórnum. En gott og vel látum þá njóta vafans og kannski er vandinn orðin það alvarlegur að tekið verði á vandanum af meiri myndugleik en verið hefur. Um það verður framtíðin að skera úr um. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að nú verða stjórnmálamenn að girða sig í brók, setja sig vel inn í málin og horfa til framtíðar. Þangað til það gerist verður væntanlega áfram rætt um vanda Þjóðarsjúkrahússins og sjúklingar notaðir sem skiptimynt í þeirri refskák og fólki áfram ráðið frá því að sækja þar þjónustu nema líf liggi við. Fyrir leikmann er ekki alltaf einfalt að meta hvenær það er og þar til breyting verður á slíkum skilaboðum verður öryggi sjúklinga ógnað.  

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-