-Auglýsing-

Konur klæðumst rauðu

418844 10151154650440027 1636694574 nÁtt þú móður, systur eða vinkonu sem hefur fengið hjartaáfall eða heilaslag – eða hefur þú sjálf jafnvel lent í þeirri lífsreynslu? Eða hugsar þú eins og margar konur og allt of margir heilbrigðisstarfsmenn, að hjarta- og æðasjúkdómar séu eitthvað sem margir karlar fái, en bara einstaka konur? Það er rétt að framan af ævinni fá hlutfallslega færri konur en karlar hjartaáföll. Eigi að síður eru hjarta- og æðasjúkdómar af einhverju tagi algengasta dánarorsök kvenna jafnt sem karla hér á landi líkt og í Evrópu. Nú má halda því fram að það liggi fyrir okkur öllum að deyja og gildi þá einu úr hverju. Í þeirri umræðu má ekki gleymast að fjöldi kvenna og karla lifa í mörg ár með skerta starfsorku og lífsgæði vegna hjartasjúkdóms eða heilaslags og er því til mikils að vinna að fyrirbyggja þessa sjúkdóma.

GoRed For Women átakið er alheimsátak á vegum World Heart Federation (http://www.world-heart-federation.org), sem starfrækt hefur verið frá árinu 2004 í Bandaríkjunum og fjölda Evrópulanda. Hvatinn að baki átaksins er einfaldur. Fjöldinn allur af konum deyr af völdum hjartasjúkdóma og heilaáfalla en það er eins og konur geri sér litla grein fyrir áhættu eða einkennum sjúkdómanna. Átakinu er ætlað að vekja konur af dvalanum, fá þær til að átta sig á hverjir áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma eru og gera eitthvað í málunum. Ennfremur að kenna konum að þekkja einkenni hjarta- og æðasjúkdóma og fá þær til að leita sér lækninga ef ástæða er til. Á Íslandi eru það Hjartavernd, Hjartaheill, Heilaheill og fagdeild hjartahjúkrunarfræðinga sem starfa saman að verkefninu. Að auki koma fleiri fagaðilar að átakinu sem nú er haldið er í fimmta sinn á Íslandi um miðjan febrúar.

-Auglýsing-

Það vill reyndar svo vel til að Ísland tilheyrir þeim löndum þar sem tíðni hjarta- og æðasjúkdóma hefur farið lækkandi tengt því að staða áhættuþátta hefur batnað verulega á síðustu áratugum. Má þar nefna minni reykingar, lækkandi kólesteról og blóðþrýsting, aukna hreyfingu og neyslu grænmetis og ávaxta. Á móti kemur að offita og sykursýki er vaxandi vandamál sem vinna gegn þessari jákvæðu þróun áhættuþátta. Þetta sýnir að stefnumörkun yfirvalda, breytingar á samfélagi og venjum ásamt forvörnum hafa mikil áhrif á tilurð þessara sjúkdóma. Einstaklingurinn sjálfur getur haft veruleg áhrif á flesta áhættuþætti fyrir utan aldur og erfðir, enda velur maður ekki foreldra sína.

Þekki „tölurnar” sínar

En hvaða konur eru það sem fá hjartasjúkdóm eða heilaslag? Svarið við þessari spurningu er að allar konur geta lent í þessu, en konur eru ekki allar í jafn mikilli áhættu og því ættu konur að þekkja „tölurnar sínar”. Yngri konur með enga áhættuþætti eru t.d. ekki líklegar til að fá kransæðastíflu, en eftir því sem áhættuþættirnir eru fleiri margfaldast áhættan. Rannsóknir hafa sýnt að konur sem reykja fjórfalda líkurnar á hjarta- og heilaáfalli og að á Íslandi reykja fleiri konur en karlar. Konur sem fá háþrýsting eða sykursýki á meðgöngu eru í sérstökum áhættuhópi fyrir hjarta- og heilaáföll og ættu að vera vel vakandi gagnvart öðrum áhættuþáttum. Háþrýstingur er sterkasti áhættuþáttur hjartabilunar og heilaslags hjá konum og því ástæða til að fylgjast vel með blóðþrýstingnum.

Allar konur sem komnar eru á miðjan aldur og yngri konur með ættarsögu ættu því að þekkja „tölurnar sínar” og jafnframt að takast á við þær. Ein aðferð til að sjá hvort maður er í aukinni áhættu er að fara inn á áhættureikni Hjartaverndar (www.hjarta.is), fylla inn tölurnar, skoða útkomuna og sjá hvort sérstök ástæða sé til að taka á málunum. Oft geta einfaldir hlutir eins og aukin dagleg hreyfing og neysla ávaxta og grænmetis haft jákvæð áhrif á áhættuþætti og líðan.

- Auglýsing-

En hver eru þá einkennin sem okkur ber að þekkja? Verkur fyrir brjósti, þyngsli eða óeðlileg mæði geta verið einkenni hjartasjúkdóms. Verkurinn getur verið margvíslegur, og leiðir stundum út í handlegg, aftur í bak, upp í háls eða niður í maga. Þessu fylgir jafnvel ógleði, hjartsláttarónot eða kaldsviti. Einkenni kvenna, einkum þeirra sem eru eldri eða með sykursýki eru oft óljósari og konur bíða almennt lengur en karlar með að fara á bráðamóttöku vegna hjartaáfalls. Einkenni heilaslags eru margvísleg en þar má nefna skyndilega truflun á tali, skyni, hreyfigetu eða jafnvægi, eða skyndilegan höfuðverk með ógleði. Við slík einkenni ber að sjálfsögðu að leita aðstoðar strax.
Við konur ættum að sameinast um að þekkja til áhættuþátta okkar og veita hver annarri stuðning við að takast á við þá. Þann 14. febrúar gefst einnig tækifæri til taka fram rauða kjólinn, buxurnar, bolinn eða einhverja aðra rauða flík og njóta fræðslu og skemmtunar innan um aðrar konur í Kringlunni. GoRed á Íslandi – fyrir konur.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir hjartalæknir

www.visir.is 11.02.2013

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-