-Auglýsing-

Kaldar kveðjur til ekkjunnar

„Ekkjan og börnin eru afskaplega miður sín yfir þessari niðurstöðu. Nú situr hún eftir án bóta og að þeirra mati er dómurinn einfaldlega rangur,“ segir Guðni Ásþór Haraldsson, lögfræðingur ekkjunnar Vilborgar Reynisdóttur sem missti mann sinn, Gísla Viðar Harðarson, árið 2005. Hann var þá 44 ára gamall.

Gísli starfaði sem slökkviliðsmaður á Suðurnesjum. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Brunavarnir Suðurnesja til að greiða Vilborgu og tveimur börnum þeirra hjóna rúmar 5,7 milljónir í miskabætur í mars á síðasta ári. Brunavarnir Suðurnesja vísuðu málinu til Hæstaréttar sem hefur sýknað þær af öllum kröfum.

„Þetta eru kaldar kveðjur til ekkjunnar og föðurlausra barnanna frá Hæstarétti,“ segir Guðni.
Gísli Viðar hneig niður eftir æfingu á hlaupabretti en ætlast er til þess að slökkviliðsmenn stundi líkamsrækt. Trúnaðarlækni Brunavarna var kunnugt um að Gísli hefði hjartagalla og þyrfti því að fara varlega. Að mati ekkju Gísla hefði því átt að tryggja að hann tæki ekki þátt í líkamlega erfiðum verkefnum.

Nokkrum vikum áður en hann lést tók Gísli þátt í reykköfunaræfingu í Svíþjóð á vegum slökkviliðsins en slíkt reynir gríðarlega á líkamann. Dómkvaddir hjartalæknar töldu að bein afleiðing væri á milli andláts Gísla og reykköfunarinnar.
Ljóst er að Gísli sinnti ekki til hlítar að taka lyf og fara í rannsóknir vegna hjartagallans. Að mati Héraðsdóms voru því bæði Gísli og Brunavarnir Suðurnesja ábyrg og sök þar skipt þeirra á milli. Því voru ekkjunni og börnunum dæmdar 5,7 milljónir í bætur. Þau höfðu krafist níu milljóna.
Brunavarnir Suðurnesja vísuðu málinu til Hæstaréttar sem hreinsaði þær af allri sök.

„Að mati fjölskyldunnar er þessi dómur rangur vegna þess að sökina var að finna bæði hjá slökkviliðinu og Gísla heitnum. Í ljósi þess að trúnaðarlæknir Brunavarna Suðurnesja var búinn að aðvara forsvarsmenn Brunavarna vegna veikinda Gísla hvílir ákveðin skylda á vinnuveitandanum. Sökin var líka hjá Brunavörnum Suðurnesja og því vel hægt að komast að annarri niðurstöðu,“ segir Guðni.

Hæstiréttur taldi þó vega þyngra að Gísli hafði ekki tekið lyf reglulega við of háum blóðþrýstingi og að það hafi átt stóran þátt í hvernig fór. Gísli hafði heldur ekki leitað til hjartalæknis eins og trúnaðarlæknir hafði ráðlagt honum. Ennfremur hafði Gísli tök á að forðast líkamlega áreynslu, að mati Hæstaréttar.

- Auglýsing-

„Þetta er endanlegt. Hún fær hvorki dánarbætur né bætur vegna slysatryggingar eiginmannsins. Hún fær engar bætur nema í gegnum almannatryggingar sem eru sáralitlar, svokallaðar ekknabætur,“ segir Guðni.

Börn Gísla voru 13 og 15 ára þegar hann lést.

Fjölskyldumeðlimir voru í miklu uppnámi vegna málalykta þegar DV hafði samband og treystu sér ekki til að tjá sig.

www.dv.is 16.02.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-