-Auglýsing-

Jónas: Hvítabirnir og fjallgöngur

Jónas Helgason á fjalliÞað líður senn að lokum umfjöllunar um dagbókarbrotinn hans Jónasar sem fór í stóra og mikla opna hjartaskuðraðgerð í byrjun júní.

Við getum þó ómögulega sleppt af honum hendinni án þess fá sögur af því hvernig gengur að koma sér af stað aftur og fáum að heyra af aukaverkunum lyfjanna sem hann er á þar sem koma meðal annars hvítabirnir við sögu.

Eins og venjulega er húmorin ekki langt undan sem er afar mikilvægt þegar maður er að jafna sig eftir svona stórt inngrip, en yfir til þín Jónas.

Draumfarir

7.júlí 2013.
Ég hef nokkuð leitt hugann að því undanfarið hve ótrúleg læknavísindin eru og hvað mannslíkaminn lætur bjóða sér. Á morgun eru fjórar vikur síðan slökkt var á mínum líkama og vélar látnar sjá um að halda hlutunum gangandi. Núna, þessum fjórum vikum síðar er ég farinn að ganga úti tvisvar á dag, 30 – 40 mínútur í hvort skipti. Hamast á þrekhjóli á endurhæfingarstöðinni á Bjargi tvisvar í viku, drekk kaffi með góðum gestum og fæ mér jafnvel hálfan bjór eða lítið rauðvínsglas með öðrum. Vinn hiklaust nokkra tíma á dag á tölvuna og líður bara ótrúlega vel.

Er enn á helvítis hvítabjarnalyfjunum, en því lýkur núna eftir helgina. Síðustu birnirnir heimsóttu mig fyrir nokkrum nóttum heim í hlað á Grænavatni. Mér tókst að hrekja þá á flótta með steinkasti og reka þá út að Bakkhúsum. Þá áttaði ég mig á því að kellingar væru allar í húsunum og sennilega yrðu þær allar étnar. Hrökk þá upp og lá lengi vakandi og skammaðist mín fyrir að hafa ekki komið þeim til aðstoðar, eða a.m.k varað þær við hættunni.

- Auglýsing-

Síðustu nótt var ég svo á skuggalegri krá í Þýskalandi. Þar voru fjórir skuggalegir náungar sem króuðu mig af og voru með mjög ógnandi tilburði. Ég brá þá fyrir mig þýskri tungu og talaði þá nánast í hel, a.m.k. létu þeir mig sleppa án frekari vandræða. Nú er ég að velta fyrir mér hvaðan mér kom allur sá orðaforði sem ég átti skyndilega í fórum mínum, og jafnvel hvort öll þau orð séu í raun til í þýsku!

Hlakka til að losna af þessum lyfjum – og þá má ég líka fara að keyra…

Stórstígar framfarir

14.júlí 2013.

  • Drakk heilan bjór
  • Lyfti Jóhanni Óla afastrák (langþráð stund hjá báðum)
  • Fór út að borða
  • Drakk hálfan wiskey-snafs (stefni á heilan í næstu viku)
  • Laus við leiðinlegustu lyfin
  • Farinn að keyra bíl eftir lengstu pásu síðan ég lærði á Allis Chalmers þegar ég var á sjötta ári
  • Geng viðstöðulaust í allt að klukkutíma í einu (á jafnsléttu – stefni á brekkur í næstu viku)

Ætli ég setji ekki inn mynd af mér í fjallgöngu eftir viku!

Staðið við stóru orðin – fyrsta fjallgangan!

18. Júlí 2013.
Mér finnst varla nema nokkrir dagar síðan sjúkraþjálfarinn á Landspítalanum benti mér á að fara ekki alla leið út í enda á ganginum, því ég þyrfti að eiga eftir krafta til að komast “heim” í rúmið mitt aftur.

Tæpum sex vikum síðar fór ég í fjallgöngu, frá tjaldstæðinu á Hömrum, upp í skátaskálann “Gamla” og þaðan góðan spöl norður eftir hamrabrúninni. Hefði sennilega haldið áfram út í Fálkafell ef bíllinn minn hefði ekki verið við Hamra. Blés varla úr nös á göngunni og púlsinn lengst af um 90 slög á mín.

- Auglýsing -

Dásamlegt veður, aleinn með fuglunum – verður ekki betra.

Verð samt að viðurkenna að ég er ansi notalega þreyttur þar sem ég sit heima og reyni að ákveða næstu markmið í gönguferðunum. Passa að ætla mér ekki um of…

Eitt lítið lindubuff…

26. Júlí 2013.
…lítil vatnsflaska, tvær kexkökur og nokkrir klukkutímar aleinn í kyrrðinni lengst fram á Glerárdal. Lífið verður varla betra en þetta – og ekki nema nokkrar vikur síðan ég hélt að þetta sumar yrði ekkert annað en leiðindi!

Það gengur sem sagt allt eftir áætlun og vel það. Þó er eitt sem veldur mér áhyggjum, mér gengur illa að ná upp viskíþolinu. Er varla kominn nema upp í tvo sjússa og þá fylgja einhverjar aukaverkanir. Þarf sennilega að fá félagsskap og betra vískí!

Jónas

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-