-Auglýsing-

Gleðilega hátíð – Jólin og hjartað

Mynd: www.halldorjonssonphotography.com

Það verður að viðurkennast að mér vöknar stundum um augun  á jólum og hugurinn hvarflar til löngu liðinna daga þegar ég var barn að alast upp á Hvanneyri í Borgarfirði. 

Ég ólst upp við jólaguðspjallið sem gerði söguna um Jesúbarnið ljóslifandi í hugskoti mínu og er það minning sem mér þykir einstaklega vænt um. Þetta voru fallegir dagar og boðskapur jólanna um kærleika og frið höfðaði til mín og hef ég reynt að hafa þennan boðskap í huga alla tíð síðan.

Ég eins og svo ótal margir aðrir set markið nokkuð hátt í undirbúningi jólanna, stundum fullhátt. Ég næ yfirleitt aldrei að komst yfir allt en læt það ekki eyðileggja fyrir mér á neinn hátt. Satt best að segja finnst mér einmitt sú staðreynd að vera ekki fullkomin manneskja hluti af jólunum, það er bara allt í lagi. Það eru samt sem áður venjurnar og hefðirnar í kringum aðventuna og jólahaldið sem eru mér kærar og ég hef gaman að því að hafa dálitla sérvisku þegar kemur að jólahaldi.

Jólamatur og hjartað

Eitt af því sem við sem lifum með hjartasjúkdóm þurfum að huga vel að á þessum tíma er maturinn. Allt þetta reykta kjöt og það sem því fylgir er okkur sumum hverjum erfitt viðureignar. Skiljanlega er ekki alltaf auðvelt að láta þetta algjörlega í friði en mikilvægt að vera meðvitaður/meðvituð hvernig manni líður og rétt að stíga varlega til jarðar. Ýmsir aðrir möguleikar eru í boði þar sem kjötið er ekki reykt og það gæti verið góður kostur fyrir marga.

Hjartaáföll um jól

Það er vel þekkt fyrirbæri að fleiri fái hjartaáfall á jólum en á öðrum tímum ársins. Það sem er þó sýnu alvarlegra er að rannsóknir sýna að dánartíðni af völdum hjartaáfalla er allt að 30% hærri um jólin og 25. og 26. desember með hæstu dánartíðnina en 1. janúar fylgir fast á eftir.  Svo rammt kveður að þessu að oft er talað um jólahátíðar hjartaáföll. Þetta beinir sjónum okkar að því að kynna okkur fyrirfram hvert skal halda ef veikindi ber að garði og ekki hika við að hringja í neyðarlínuna 112 ef brjóstverkir eru slæmir eða viðvarandi og hjálpar er þörf.

Það er einlæg von mín að við komumst heil í gegnum hátíðarnar án þess að þurfa á þjónustu bráðamóttöku að halda. Því miður eru alltof margir sem þurfa að leita þangað en við getum lagt lóð okkar á vogarskálina með því að ganga hægt um gleðinnar dyr og halda okkur frá reykta og saltaða matnum.

- Auglýsing-

Verum góð við hvort annað og hlúum að fjölskyldunni á jólum og styrkjum böndin.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og óska þess að þið megið þið njóta gleði og friðar um hátíðarnar.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-