-Auglýsing-

Hvíld og svefn

iStock 000015336802XSmall

Eitt af því mikilvægasta fyrir okkur mannfólkið er hvíld, góður svefn. Þegar maður er hjartabilaður þá fær orðið hvíld jafnvel enn víðtækari merkingu þar sem lífið þarf að snúast um það að hluta til að skipuleggja hvíldina sína og svefnvenjur þar sem mikilvægt er að hún raskist ekki.

Það er nefnilega þannig að ef svefninn raskast fer eitt og annað að fara úr skorðum og það kallar á vandræði eða vítahring sem stundum getur verið erfitt að ná sér út úr, eða tekið töluverðan tíma að lagfæra.

Svefnvandamálin

Ég átti í vandræðum með svefn í mörg ár áður en ég fékk hjartaáfall og leitaði til lækna og sérfræðinga til að reyna að ráða bót á þessu vandamáli mínu. Í tveimur tilfellum þegar þetta var verulega slæmt fékk ég svefnlyf sem hjálpuðu og mér tókst að laga svefninn minn heilmikið í kjölfarið.

Hér áður fyrr var mitt vandamál þannig að ég átti í vandræðum með að sofna á kvöldin, það tók langan tíma jafnvel eina til tvær klukkustundir og ef ég sofnaði fyrr átti ég það til að vakna aftur eftir tvo tíma eða svo. Þegar ég svo vaknaði eftir þennan tveggja tíma svefn lá ég oft andvaka næstu þrjá til fjóra tímana, sofnaði svo undir morgun og átti svo erfitt með að vakna þegar ég þurfti að fara á fætur. Eins gat þetta komið þannig út að ég var mjög lengi að sofna en glaðvaknaði svo klukkan fimm um morguninn og svaf ekkert eftir það. Eins og gefur að skilja þá var þetta skelfilega leiðigjarnt því það er óskaplega erfitt að vera illa sofinn til lengri tíma.

- Auglýsing-

Margt hefur verið rætt og ritað um svefn almennt en rannsóknir hér á landi hafa sýnt að 15-45 prósent Íslendinga kvarta yfir svefnleysi einhvern tíma á árinu og samkvæmt rannsókn frá 2003 nota 12-14 prósent allra Íslendinga svefnlyf. Mest er notkunin reyndar meðal aldraðra á stofnunum, þar sem hvorki meira eða minna en um 70% þeirra sem þar búa nota slík lyf. Þetta er mikill fjöldi og ljóst að svefnvandi hrjáir marga og þarf ekki hjartabilun til.

Mér fannst merkilegt sem kom fram í viðtali sem ég las einu sinni við Dr. Jan Triebel yfirlækni á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði  þar sem hann lét hafa eftir sér “Svefn er ekki bara hvíld hann er okkur lífsnauðsyn. Líkamlega hvíld fáum við í djúpum hægbylgjusvefni og andlegri endurnæringu náum við í draumsvefni. Það gerist ýmislegt að degi til sem við þurfum að vinna úr í svefninum og ef við missum draumasvefninn getum við ekki lært því við endurskipuleggjum okkur á vissan hátt gegnum hann.”

Þar höfum við þetta svart á hvítu að svefninn hann sér aldeilis ekki bara til þess að við hvílum líkamann heldur er hann afar mikilvægur fyrir okkur andlega til að vinna úr því sem við upplifum í vöku. Þannig að það má eiginlega segja að það sé svolítið til í því þegar fólk á slæma daga, er ekki líkt sjálfu sér að það væri kannski góð hugmynd að huga að svefninum og láta hann um að greiða úr flækjunum í stað þess að við séum að flækja hlutina fyrir okkur.

Ég hugsaði ekki sérlega mikið um svefninn hér áður fyrr þó ég hafi verið meðvitaður um mikilvægi hans. Það var hinsvegar fljótlega eftir að ég veiktist að farið var að grafast fyrir um svefnvenjur mínar og var ég þá settur í svefnpróf þannig að svefninn minn var skráður í nokkrar nætur. Niðurstaðan úr því var einfaldlega sú að ég væri ekki að sofa eða hvílast vel og það þyrfti að grípa til aðgerða til að hjálpa mér við svefninn. Auk þess sem ég var sendur í  frekari rannsóknir með svefninn og kom þá í ljós að kæfisvefn var eitt af því sem olli mér vandræðum. Þrátt fyrir það hef ég aldrei komist upp á lag með að nota svona blástursvél til að hjálpa með kæfisvefn, hún hefur bara truflað svefninn minn enn frekar.

Nú eru liðinn næstum 15 ár frá hjartaáfalli og í ein 10 ár notaði ég svefnlyf að staðaldri. Síðustu fimm árin hef ég verið svefnlyfjalaus og hefur mér fallið vel að vera laus undan þeim. Stóran hluta þess tíma hef ég sofið nokkuð vandræðalaust en inn á milli koma tímabil þar sem  svefninn fer úr skorðum en þá dugar yfirleitt að koma reglu á svefnvenjurnar til að svefnin sæli falli í réttan takt.

Auðvitað er þetta einstaklingsbundið en þetta er mín reynsla í gegnum þessi næstum 15 ár sem ég hef lifað með hjartabilun og aðra kvilla sem hrjá mig. Ég hef reyndar átt tímabil þar sem ég þarf jafnvel að sofa meira en þá hef ég verið sérlega slæmur eða búinn að ganga fram af mér í orkubúskapnum.  En mín upplifun er sú að því meiri regla sem er á svefninum því betra og lífið verður léttara.

Björn Ófeigs.
bjorn@hjartalif.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-