-Auglýsing-

Hugleiðingar á haustdegi

Mynd: www.halldorjonssonphotography.com

Enn og aftur hefur veröld okkar verið snúið á hvolf með kórónuveirunni og í þetta skiptið af miklum ákafa. Þjóðinni er brugðið, þríeykið áhyggjufullt og tilfinningin er dálítið eins og við höfum verið tekin í bólinu að þessu sinni. 

Sannarlega var þjóðin byrjuð að njóta frelsisins að nýju í sumar og margir jafnvel orðnir full kærulausir í sóttvörnum. Okkur gekk alveg ljómandi vel að ná þessu niður í vor og við vonuðum það besta og margir gældu við að þetta væri kannski búið.

Sumarið 2020 verður lengi í minnum haft þó ekki væri nema vegna þess að landsmenn gátu notið náttúru landsins -nokkuð óáreitt. Náttúran sveik ekki og var stórkostleg. Flest okkar væntanlega búið til mikið af fallegum minningum, sem er mjög gott því útlit er fyrir að við þurfum á þeim að halda á næstu vikum og mánuðum.

En Adam var ekki lengi í paradís. Nú er samfélagið komið meira og minna í baklás og sóttvarnir og grímunotkun nær nýjum hæðum. Óánægjuraddir heyrast og það er erfitt að fara aftur í innilokun og einangrun auk þess sem margir sjá fram á erfiða tíma fjárhagslega. Óvissan algjör.

Við sem glímum við undirliggjandi sjúkdóma eins og hjartasjúkdóma, sykursýki, lungnasjúkdóma og þar fram eftir götunum þurfum að fara sérlega varlega og halda okkur til hlés. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að það er okkur dýrmætt að stunda útivist meðan á ósköpunum stendur. Göngur og hjólreiðar eru eitthvað sem passar vel fyrir fólk eins og okkur. Að undanförnu hefur veðrið leikið við okkur og gert útivist einstaklega gleðiríka.

Á meðan staðan er viðkvæm þurfum við að taka tilmæli yfirvalda mjög alvarlega. Sérfræðingar hafa miklar áhyggjur að veiran breiðist til viðkvæmari hópa með ófyrirséðum afleiðingum. Við sem tilheyrum þessum hópi þurfum að fara einstaklega varlega og halda okkur sem mest heimavið. Notum heimsendingarþjónustu þar sem því er viðkomið og forðumst samneyti við annað fólk en okkar innsta kjarna.

- Auglýsing-

En það er ekki allt alveg ómögulegt við þessa stöðu og myndsímtöl eru frábær leið til að halda góðum tengslum við fólkið okkar, börn og barnabörn. Sjálfur á ég bróðir í Skotlandi þar sem ástandið er mjög erfitt og reyni ég að tala við fjölskylduna í mynd daglega ef mögulegt. Þetta gerir mikið fyrir okkur bræður og stelpurnar hans tvær sem eru eins árs og fimm ára og hafa þær mikið gaman að þessu og flest símtölin enda í grettukeppni og miklum hlátrasköllum. Það felst því tækifæri í ástandinu til að efla böndin við fólkið sitt og kannski hringja í vini sem hafa setið á hakanum í amstri dagsins.

Það er ljóst að lífið verður sennilega aldrei eins og það var og kannski er það gott. Kannski er veiru skömminn að setja okkur í naflaskoðun og okkur gefst tækifæri og tími til að endurhugsa hluti í lífi okkar sem hafa rekið á reiðanum -kannski í mörg ár.

Vonandi styttist í jákvæðar fregnir af bóluefnum sem virðist grundvöllurinn fyrir því að hagkerfi heimsins fari að taka við sér og lífið verði án jafn mikilla takmarkanna og nú er.

Þangað til er góð hugmynd að nota tækifærið og hlúa að fölskyldum okkar og okkur sjálfum og skoða hvað við getum gert til að bæta líf okkar til framtíðar og bæta þar með lífsgæði okkar til lengri tíma.

Þetta er erfitt og verður erfitt um ótilgreindan tíma og þetta virðist vera langt frá því að vera búið. Samtakamátturinn og persónulegar sóttvarnir er lykilatriði og saman getum við þetta og það er mikilvægt að hver og einn leggi sitt að mörkum.

Förum varlega og verum góð við hvort annað.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-