-Auglýsing-

Hugað líf eftir hnífstungu í hjartastað

KARLMAÐUR á fimmtugsaldri hefur verið úrskurðaður í fimm vikna gæsluvarðhald eftir lífshættulega hnífstunguárás á þriðjudagskvöld. Hann hefur játað að hafa stungið tæplega fimmtugan karlmann tvívegis og fór hnífurinn t.a.m. í gegnum hjarta fórnarlambsins. Sekúnduspursmál var hvort fórnarlambið lifði árásina af en hann liggur á gjörgæsludeild og er ástand hans stöðugt.

Aðdragandi árásarinnar er ekki að fullu ljós en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sátu fimm karlmenn á fimmtugs- og sextugsaldri að drykkju heima hjá einum þeirra. Ekki liggur fyrir hvað gerðist en af einhverjum ástæðum brá einn mannanna sér inn í eldhús íbúðarinnar, sótti hníf og réðst að félaga sínum og stakk hann tvívegis.

Mennirnir hringdu sjálfir á lögreglu sem kom á staðinn ásamt sjúkraliði. Fórnarlambið var flutt í skyndi á slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss en hinir gistu fangageymslur. Einn þeirra játaði og hefur eins og áður segir verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hinum mönnunum var sleppt í gær.

Með djúp sár á brjóstkassa
Samkvæmt upplýsingum frá LSH var það fyrir snarræði og sérstaklega góð viðbrögð að fórnarlambið lifði árásina af. Ágúst Hilmarsson deildarlæknir var einn af fyrstu mönnum á vettvang og mat aðstæður svo að engan tíma mætti missa. Maðurinn var með litla meðvitund og djúp sár á brjóstkassa. Kallaði hann því eftir miklum viðbúnaði á bráðamótttökunni, og hjartaskurðlækni.

Hjartaskurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson var kallaður út en hann var á svonefndri bundinni vakt á Landspítalanum við Hringbraut. Þegar hann fékk tilkynninguna voru fimm mínútur í að komið yrði með fórnarlambið niður í Fossvog.

Tómas var fluttur niður eftir í lögreglubifreið og var þangað kominn tveimur mínútum á eftir fórnarlambinu. Nánast á sama tíma stöðvaðist hjarta mannsins og grípa þurfti til aðgerða samstundis.

- Auglýsing-

Afar sjaldgæft er að aðgerðir séu gerðar í bráðamóttökunni en eftir að Tómas hafði beitt hjartahnoði og hjarta mannsins sló að nýju var ekki annað í stöðunni. Aðgerðin gekk vel.

Liggur alvarlega slasaður
Ófeigur Þorgeirsson, yfirlæknir á slysa- og bráðasviði LSH, segir að viðbrögðin hafi verið til fyrirmyndar og á spítalanum séu menn ánægðir með hvernig til tókst. Margir starfsmenn áttu þátt í björgun mannsins og hvert skref heppnaðist vel. Hann segir að þarna hafi afar litlu mátt muna en bendir jafnframt á að maðurinn sé enn á gjörgæsludeild, og þó svo að ástand hans sé stöðugt sé hann alvarlega slasaður.

Eftir Andra Karl
andri@mbl.is

Morgunblaðið 05.04.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-