-Auglýsing-

Hjónum með hjartveikt barn vísað úr flugvél Icelandair

Hjónum með þriggja mánaða gamalt barn, sem var nýkomið úr hjartaaðgerð, var vísað úr þotu Icelandair á flugvellinum í Boston vegna deilu um sætaskipan. Ég ætla að stefna flugstjóranum, segir faðirinn.

Dómsmál “Ég ætla að stefna flugstjóranum og Icelandair,” segir Zoran Kokotovic, sem rekinn var frá borði ásamt eiginkonu sinni og börnum úr áætlunarvél Icelandair frá Boston til Keflavíkur á sunnudag.

Hjónin höfðu farið til Boston með eins og hálfs árs gamla dóttur sína og þriggja mánaða gamlan son sinn sem þurfti þangað til að gangast undir hjartaaðgerð. Tryggingastofnun hafði keypt miða á Saga Class fyrir fjölskylduna á leiðinni út en Zoran segir hjónin hafa uppgötvað þegar þau komu út í vél á heimleiðinni frá Boston að farmiðar þeirra voru á almennu farrými.

“Ég taldi að það færi ekki nógu vel um son okkar í almenna farrýminu þar sem við þyrftum þá að taka hann úr rúminu og vildum fá okkur flutt á Saga Class. Þótt það væri bara ein stúlka sem sat þar var okkur sagt að það væri ekki hægt. Miðarnir okkar voru þannig að þeim átti að vera hægt að breyta og ég bauðst til að greiða mismuninn á staðnum en okkur var sagt að það væri útilokað,” segir Zoran, sem búið hefur á Íslandi í fimmtán ár og er íslenskur ríkisborgari.

Á endanum setti flugstjórinn Zoran þá tvo kosti að setjast í sitt eigið sæti eða víkja frá borði. “Konan mín vildi fara með vélinni með börnin en ég valdi að verða eftir í Boston því ég taldi að hún fengi kannski að fara á Saga Class þegar ég væri farinn. Þá brást flugstjórinn við með því að vísa okkur öllum frá borði og lét henda farangrinum okkar út,” segir hann.

Eiginkona Zoransa, Vesna Djuric, hafði sig að sögn þeirra hjóna ekkert í frammi í viðræðunum við áhöfn flugvélarinnar. Þau segjast ekki skilja hvers vegna henni var vikið frá borði með tvö smábörn, þar af annað hjartveikt. Farþegi um borð í vélinni hefur staðfest að eiginkonan hafi haldið sig til hlés. Sjálf segist Vesna alls ekki hafa viljað verða eftir í Boston heldur fara með börnin í vélinni heim til Íslands.

- Auglýsing-

Fjölskyldan leitaði ásjár hjá íslenskum vinum ytra og flaug síðan heim tveimur dögum síðar á Saga Class. Litla drengnum heilsast vel eftir aðgerðina.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi hjá Flugleiðum, segist ekkert vilja segja um það sem gerðist þótt hann staðfesti að fólkinu hafi verið vísað frá borði. “Við tjáum okkur ekki um einstaka farþega. Almenna reglan er sú um borð í okkar vélum að fólk situr í þeim sætum sem miðar þeirra segja til um,” segir Guðjón.

Vinnureglur Tryggingastofnunar munu vera þær að veikt fólk sem fljúga þarf með milli landa er á almennu farrými og ekki á Saga Class nema það þurfi fylgd læknis eða hjúkrunarfræðings. Svo var ekki í þessu tilviki.

gar@frettabladid.is

Fréttablaðið 16.09.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-