-Auglýsing-

Fóru sjálf úr vélinni áhöfninni til furðu

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að í frétt Fréttablaðsins í gær af fjölskyldu um borð í vél flugfélagsins frá Boston hafi verið dregin upp ósanngjörn og röng mynd af félaginu og starfsfólki þess.

Í fréttinni í gær var sagt frá því að hjónum, sem voru á leið heim frá Boston með átján mánaða gamla stúlku og þriggja mánaða gamlan dreng sem verið hafði í hjartauppskurði, var gert að yfirgefa vélina þar sem fjölskyldufaðirinn neitaði að sitja í sæti sínu á almennu farrými. Hann vildi að fjölskyldan fengi að færa sig á Saga Class. Konan sagðist hafa viljað fljúga ein heim til Íslands með börnin en að henni hafi verið vísað út með manni sínum. Haft var eftir Guðjóni Arngrímssyni að Icelandair tjáði sig ekki um málefni einstakra farþega en að reglan væri sú að farþegar sætu í þeim sætum sem farmiðar þeirra segðu til um.

„Þessari fjölskyldu var alls ekki vísað frá borði,” segir Guðjón, sem kveður áhöfnina hafa orðið vara við það þegar verið var að gera flugvélina klára til brottfarar að maður nokkur neitaði að setjast í sæti sitt. Hann hafi fullyrt að fjölskylda hans ætti að sitja á Saga Class. „Við snögga athugun kom í ljós að fjölskyldan, hjón með tvö lítil börn, var með miða á almennu farrými og að Tryggingastofnun var greiðandi miðanna.”

Guðjón segir margar íslenskar fjölskyldur fara í læknisaðgerðir í Boston og að áhafnir Icelandair leggi sig fram um að láta þeim líða vel.
„Reynt var að útskýra fyrir manninum að vélin væri að fara og hann yrði að setjast í sætið sitt. Maðurinn neitaði að setjast niður og krafðist þess að fljúga á Saga Class. Engu tauti var við hann komandi og á brottfarartíma þurfti flugstjórinn að koma fram og bjóða honum tvo kosti: annaðhvort fengju þau sér sæti, svo að vélin gæti farið í loftið, eða þau yrðu að yfirgefa vélina. Maðurinn valdi seinni kostinn. Þá þurfti að taka farangur þeirra af vélinni og tafðist brottför flugsins um fimmtán mínútur þess vegna,” segir Guðjón.

Þá segir upplýsingafulltrúinn rangt sem komi fram í Fréttablaðinu í gær að hann hefði staðfest að fólkinu hefði verið vísað frá borði. „Það var ekki gert. Þau voru velkomin um borð, höfðu fullgilda farmiða og hefðu fengið afbragðsþjónustu fyrir sig og ungabarnið á leiðinni heim. Þau vildu frekar verða eftir og óhætt er að segja að starfsfólk okkar, sem þó er ýmsu vant, var furðu lostið.”

www.visir.is 17.09.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-