-Auglýsing-

Hjólað fyrir hjartað – Vorkoma á rafhjóli

Þriðja árið í röð efnum við á hjartalif.is til samstarfs við hjólreiðabúina TRI sem er umboðsaðili fyrir CUBE reiðhjól. Þeir leggja mér til rafhjól og ég hjóla um bæinn og skrifa um upplifun mína. Auk þess er Garminbúðin með okkur í liði og 66 norður.

Unirritaður ásamt ferðafélaganum Léttfeta.

Eins og margir vita er ég hjartabilaður og með gangráð/bjargráð þannig að hjólreiðarnar eru töluvert afrek í mínum huga. Hjólreiðarnar hafa breytt lífi mínu á síðan ég byrjaði að hjóla á rafhjóli fyrir tveim árum. Þá settist ég aðeins í hnakkinn til að athuga hvort ég gæti yfir höfuð hjólað. Prufan gekk framar vonum og síðastliðið sumar þá fórum við inn í þetta af fullum krafti og markmiðið var að geta hjólað það mikið að það virkilega skipti máli.

Hjólað fyrir hjartað

Ég hef hjólað allan vetur og rúllaði yfir 3200 km í vikunni en það hef ég hjólað frá 2 júlí á síðasta ári. Ég er ekki bara stoltur af árangrinum heldur líka ótrúlega þakklátur fyrir að fá tækifæri til að gera þetta. Tilgangurinn með þessu brölti er að sýna fólki eins og mér að hjólreiðar á t.d. rafhjóli séu frábær leið fyrir fólk með hjartavandamál og aðra líkamlega krankleika til að stunda hreyfingu og útivist. En þetta snýst ekki endilega um hvað maður hjólar marga kílómetra heldur njóta hverrar ferðar á þeim hraða sem passar.

Eftir byltuna mína í febrúar er ég enn meira vakandi í kringum fólk með hunda og er óspar á bjölluna til að vekja athygli vegfarenda á ferðum mínum. Mér finnst reyndar sumum bregða heldur meira við þegar ég dingla bjöllu en þegar ég lauma mér hljóðlega framúr í rólegheitunum og kasta kveðju á fólk. Svo eru náttúrlega hinir líka sem eru með heyrnatól í eyrunum og heyra lítið sem ekkert af því sem fram fer í kringum þá.

Vorkoma á hjóli

Síðustu vikur hef ég hjólað um bæinn með gleði í hjarta og fylgst með vorinu koma.
Að fylgjast með vorkomunni á hjóli er stórkostlegt. Finna hvernig lyktin breytist í loftinu og fuglunum fjölgar sem syngja fjörlega. Að ég tali nú ekki um gróðurinn sem lifnar hratt og örugglega og græni liturinn tekur við af gráleitum grasblettum. Í rauninni má segja að umskiptin hafi orðið áþreifanlegri þegar ég skipti af nagladekkjunum sem höfðu staðið sig sérlega vel í vetur og komið mér á óvart hvað gripið var gott. Tilfinningin hinsvegar þegar ég fór fyrsta hringinn á sumardekkjunum var frábær. Þá gerði ég mér grein fyrir hvað hávaðinn var mikill í nöglunum og hjólið rann til mikilla muna betur og hljóðlegar um stíga borgarinnar.

Eitt af því sem mér finnst mikilvægt á ferðum mínum um bæinn er einmitt þetta. Þ.e. hlusta á umhverfishljóðin, finna lyktina og sjá og skoða það sem verður á vegi mínum. Stundum fer ég sama hringinn marga daga í einu en alltaf sé ég eða heyri eitthvað nýtt. Mér finnst borgin falleg og sjónarhornið sem er í boði þegar maður er á hjóli bíður upp á algjörlega einstaka leið til að skynja umhverfi sitt.

Að lokum

Ég er einn af þeim sem hef gaman að því að fylgjast með því hvað ég er að brölta og nota til þess Garmin tæki/úr sem skrásetur og svo fara þær upplýsingar inn á Strava (sem er mjög þægilegt smáforrit) og þar get ég séð ferðir mínar í smáatriðum og skoðað hjartsláttartíðni meðan á ferðinni stendur. Til gamans má geta þess að ég hef stofnað hóp á Strava sem heitir einfaldlega “Hjólað fyrir hjartað” og það er bráðsnjallt að slást í hópinn.

Ég læt mér hlakka til næstu vikna þegar borgin klæðist sumarskrúða og menn og málleysingjar njóta þess besta sem lífið hefur upp á að bjóða og allir nýbólusettir. Það eru sannarlega gleðidagar framundan.

Gleðilegt sumar.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-