-Auglýsing-

Full bólusettur Björn

Í vikunni rann upp sá gleðidagur að ég fékk seinni sprautuna af Moderna. Það má telja með ólíkindum að vísindamönnum hafi tekist að búa til svo áhrifaríkt bóluefni á jafn skömmum tíma og áhrifin á heimsbyggðina eru augljós.

Eina vörnin gegn Covid-19 er bóluefni en því miður er líklegt að faraldurinn eigi eftir að reiða alloft til höggs víða um heim áður en tekst að ná böndum á veiruna. Covid-19 veiran er eins og óargadýr sem engu eirir og jafnvel þeir sem veikjast lítið glíma við afleiðingar til lengri tíma. Það hefur því verið til mikils að vinna að sleppa við sýkingu. Á það ekki síst við okkur sem erum með undirliggjandi sjúkdóma eins og hjarta og æðasjúkdóma auk þess sem mörg okkar hafa fleiri undirliggjandi sjúkdóma sem fela í sér aukna áhættu.

Bólusetningin er því afar vel þeginn. Ég fann varla fyrir fyrri sprautunni en eftir seinni sprautuna í upphafi vikunnar þá var ég heldur orkulítill og slappur í eina tvo daga. Þetta lýsti sér helst í því að ég var orkulaus, mig svimaði og var með ónot nánast um allan kroppinn. En þetta var ekkert alvarlegt og eftir tveggja daga hvíld og góðan nætursvefn er ég aftur orðin eins og ég á að mér að vera.  

Á þessu rúma ári sem liðið er frá því heimsfaraldurinn skall á hef ég oft verið skelkaður um smitast og á stundum hefur einhver greinst sem staðið hefur mér óþægilega nærri. Við hér á þessu heimili höfum alloft síðastliðið árið nánast lokað okkur inni. Við höfum reynt að fara sérlega varlega vegna þeirrar staðreyndar að maður í minni stöðu mætti í rauninni alls ekki smitast að veirunni.

Til þessa hefur þetta gengið en stundum hefur þetta verið ósköp leiðinlegt að geta ekki farið neitt eða gert neitt. Mér hefur á slíkum stundum verið hugsað til þeirra sem búa úti í hinum stóra heimi þar sem takmarkanir á frelsi til athafna hefur verið mikið strangara en nokkurntíma hér á landi. Auk þess verður mér hugsað til þeirra milljóna sem ekki fá bólusetningu á næstunni og búa við aðstæður sem eru kjörlendi fyrir veiruna til að grassera og dreifa úr sér.

Miðað við það höfum við haft það verulega gott hér á landi og í rauninni getað búið við ótrúlega mikið frelsi þó nándin og fjöldinn hafi verið takmarkaður. Ég er þakklátur fyrir hvað þetta hefur gengið vel hér á landi og þessu hefur verið stýrt með styrkri hönd þríeykisins sem hefur staðið sig með mikilli prýði, oft á tíðum í mjög erfiðum og tvísýnum aðstæðum.  

Ég held að megi fullyrða að ákvarðanir sem teknar hafa verið að sóttvarnaryfirvöldum hafi verið vel lukkaðar og séu lykillin af því að við erum í öfundsverðum sporum, eina græna landið í Evrópu. Auðvitað er það svo að sumir hafa á þessu aðrar skoðanir og það er allt í góðu lagi, það má.

Ég horfi fram á veginn og sé fram á bjartari tíma og innan skamms getum við farið að faðma fólkið okkar og koma saman í stærri hópum til að fagna og njóta samveru.

Þrátt fyrir bólusetningu þurfum við þó að fara varlega og sinna persónubundnum sóttvörnum meðan veiruskömmin er ennþá á sveimi.

En hvað sem því líður þá skulum við njóta þess að það er sumar í aðsigi þó fæðingin hafi verið dálítið erfið þetta vorið. Við getum verið þess fullviss að sumarið og sólin koma og einhversstaðar verður sérlega gott veður í sumar. Hvar það hins vegar verður er ómögulegt að spá um.

Verum góð við hvort annað og njótum þess að vera til, það er nefnilega ekki sjálfsagt.

Björn Ófeigs.  

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-