-Auglýsing-

Hjólað fyrir hjartað – Út fyrir boxið

Það hefur fylgt því mikil gleði að hjóla um bæinn.

Ég hef áður minnst á það hér í þessum pistlum mínum hversu stórkostleg tilfinning það var að uppgötva að ég gæti hjólað um á rafmagnshjóli. Þessi tilraun til að hjóla var gerð með stuðningi reiðhjólverslunarinnar TRI við Suðurlandsbraut sem lánaði mér Cube rafmagnshjól til að vera á í sumar.

Eðli málsins samkvæmt var þetta stórt skref fyrir mig og ég var hreint ekki viss um ég gæti gert þetta með góðu móti þó svo ég hefði prófað lítillega síðastliðið sumar.

-Auglýsing-

Ég fékk hjólið 2. Júlí síðastliðinn.  Ég byrjaði á stuttum túrum og svo fór ég að hjóla um bæinn minn þangað til ég var farinn að hjóla 10 km í ferð. Ég var ansi dasaður eftir hvern túr í fyrstu og þurfti að hvíla mig að honum loknum.

Lykilatriðið í mínum huga var að byrja smátt og byggja ofan á hjólreiðarnar og stefna að því að fara aðeins lengra með hverjum deginum. Ég verð að viðurkenna að ég var pínu skelkaður í fyrstu. Treysti sjálfum mér ekki fullkomlega og fann til óöryggis þegar ég fór yfir götu eða í námunda við bílaumferð. Ég fylgdist náið með hjartslættinum mínum og lét Garmin úrið mitt skrásetja bæði púls og leiðina sem ég hjólaði. Svo setti ég allt saman inn á Strava og gat þar með skoðað nákvæmlega hvernig túrinn gekk fyrir sig.

Út fyrir boxið

Ég naut þess að hjóla og ég fann með hverri ferðinni sem leið hvað ég varð öruggari með mig og hafði meira vald á hjólinu og þeim aðstæðum sem ég kom mér í. Ég sá líka að eiginleikar rafmagnshjólsins gerðu það að verkum að ég gat haldi púlsinum á mér innan skynsamlegra marka en samt haft af þessu mikið gagn og mikið gaman.

Mér óx ásmegin og smám saman fjölgaði dögunum í hverri viku sem ég hjólaði og túrarnir mínir urðu lengri. Ég fann að þegar ég vaknaði á morgnanna varð ég fljótt spenntur fyrir því að komast út að hjóla og velti því fyrir mér hvert skyldi halda þann daginn. Fljótlega var ég farinn að hjóla 15 til 20 km langa túra og ég fann hvernig vöðvarnir í neðri hluta líkamans tóku við sér og ég varð allur styrkari. Það út af fyrir sig eftir sautján ára aðgerðarleysi þessara sömu vöðva var mér hvatning.

- Auglýsing-

Svo í vikunni gerðist það að ég rúllaði á Cube hjólinu sem ég kalla Léttfeta yfir 800 km markið. Eitthvað sem ég hefði talið óhugsandi fyrir ekki svo löngu síðan. Ég geri mér grein fyrir því að ekki hentar öllum þessi ákefð. Hitt er annað að sú staðreynd að rafhjól geri fólki eins og mér kleift að njóta útiveru með þessum hætti, án þess að leggja of mikið álag á hjartað og án þess að verða verkjaður í skrokknum er lítið annað en stórkostlegt.

Að lokum

Í fyrsta skipti í rúm sautján ár get ég farið út með fjölskyldunni í sporti sem við eigum saman. Það er ómetanlega dýrmætt. Við höfum meðal annars farið um landið með hjólin með okkur og hjólað hér og þar um landið og var það stórkostlegt og sér efni í aðra pistla.

Ég sé stórkostlega möguleika fyrir hjartafólk og aðra sem eru með stoðkerfisvanda svo dæmi sé tekið. Svo er það hitt að andlega líður mér mikið betur. Mér finnst ég vera að gera eitthvað sem gefur mér meira sjálfstraust og ég finn meira fyrir karlmennsku minni eins hégómalega og það kann að hljóma.

Hjartað í mér alveg jafn skemmt og það var og skilar ekki fullum afköstum. Ég hef hins vegar stigið út fyrir boxið og fundið leið til að njóta lífsins í útiveru sem passar mér og gerir hjartanu gott. Það að hafa hjólað fyrir hjartað í sumar hefur gert mig lífsglaðari, kjarkmeiri og öruggari með mig og það smitar út frá sér í mínu daglega lífi.

Takk fyrir mig.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-