-Auglýsing-

Hjartavernd felst í lífsstíl

Um 4.000 manns koma til Hjartaverndar árlega til athugunar í opnu áhættumati sem verið hefur á boðstólum fyrir almenning í nærri fjóra áratugi.

Hjartarannsókn ehf. er forvarnadeild Hjartaverndar og var stofnuð fyrir einu ári til þess að annast áhættumat Hjartaverndar. Yfirlæknir Hjartarannsóknar er Karl Andersen sérfræðingur í lyflækningum, hjarta- og æðasjúkdómum.

Aðrir læknar sem starfa við áhættumatið eru Þórarinn Guðnason hjartalæknir, Davíð Ottó Arnar hjartalæknir, Bolli Þórsson innkirtlalæknir, Guðjón Karlsson hjartalæknir og Hróbjartur Darri Karlsson hjartalæknir og hjúkrunarfræðingarnir Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, Svandís Jónsdóttir og Ólöf Elmarsdóttir.

-Auglýsing-

Karl segir að í áhættumati geti einstaklingar fengið mælingar á helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma og heildstætt mat á því hverjar líkurnar séu á því að það fái hjartasjúkdóm síðar á lífsleiðinni. “Þetta mat hefur tekið talsverðum breytingum í áranna rás eftir því sem þekkingu okkar á hjartasjúkdómum hefur fleygt fram. Áhættumatið grundvallast á þessum hefðbundnu áhættuþáttum: reykingum, háum blóðþrýstingi, háum blóðfitum, ættarsögu, offitu, sykursýki og hreyfingarleysi. Rannsóknir Hjartaverndar hafa sérstaklega skoðað þýðingu þessara áhættuþátta í Íslendingum og innbyrðis vægi þeirra. Rannsóknir þessar hafa verið notaðar til að útbúa reiknilíkan eða áhættureiknivél sem metur áhættu hvers og eins. Þessi áhættureiknivél er aðgengileg öllum á netinu og hefur reynst vel í þessari vinnu.”

Hverjir eiga að fara í áhættumat til ykkar?

“Fullorðnir einstaklingar sem vilja láta kanna líkurnar á að þeir fái hjartasjúkdóm. Sérstaklega þó fólk sem er með ættarsögu eða fleiri en einn ofannefndra áhættuþátta, en einnig aðrir eftir 40 ára aldur. Eftir áhættumatið gefum við fólki leiðbeiningar um það hvernig má bæta horfurnar og hvort nauðsynlegt sé að það láti fylgjast með sér.”

Hvernig fer áhættumatið fram?

- Auglýsing-

“Einstaklingar panta sér tíma í móttöku okkar í Holtasmára. Í fyrstu heimsókn eru gerðar grunnmælingar á blóðþrýstingi, þyngd, fituhlutfalli, mittismáli, reiknaður þyngdarstuðull, tekið hjartalínurit og blóðrannsóknir. Þá svarar fólk spurningalista um heilsufar og ættarsögu. Niðurstöður mælinganna liggja fyrir þegar einstaklingurinn kemur í síðari skoðun og viðtal hjá lækni. Í því viðtali er meðal annars áhættureiknivélin notuð til að finna út líkurnar á því að viðkomandi fái hjartasjúkdóm á næstu tíu árum. Þetta viðtal er einstaklingsmiðað og ráðgjöfin miðar að því að bæta horfur hvers og eins. Ef í ljós koma merki um hjartasjúkdóm eða aðra kvilla er viðkomandi vísað áfram í viðeigandi rannsóknir eða meðferð.”

Er áhættumat jafnt fyrir konur og karla? “Já, konur fá kransæðasjúkdóm að meðaltali tíu árum síðar á lífsleiðinni en karlar, en þegar þær eru komnar með kransæðasjúkdóminn eru horfur þeirra almennt verri. Áhættumat hjá konum er vandasamara meðal annars vegna þess að einkenni þeirra eru oft ekki eins dæmigerð og hjá körlum.”

Hver eru helstu einkenni sem fólk þarf að varast?

“Algengasta einkenni kransæðasjúkdóms er verkur sem kemur við áreynslu en hverfur í hvíld. Þetta getur verið meira eins og ónot eða seiðingur, jafnvel mæði. Stundum leiðir verkurinn í háls, kjálka eða handlegg, en það er alls ekki alltaf svo og mjög misjafnt milli einstaklinga hvernig þeir upplifa hjartverk. Verkurinn líður oftast fljótt hjá í hvíld eða við það að taka sprengitöflu (nitroglycerine). Ef verkur kemur í hvíld, vekur að næturlagi eða kemur fljótt aftur eftir að hann hverfur er talað um hvikulan hjartverk og er þá undir öllum kringumstæðum ástæða til að fara beint á bráðamóttöku enda getur verið um kransæðastíflu að ræða sem er lífshættulegt ástand.”

Hvað getur fólk gert til að minnka líkurnar á hjartasjúkdómi?

“Áhættuþáttum má skipta í tvennt; þætti sem við getum ekki breytt og þætti sem við getum breytt. Dæmi um áhættuþætti sem við getum ekki breytt eru erfðir, kyn og aldur. Hjarta- og æðasjúkdómar liggja í ættum og því verður ekki breytt, einnig það, að líkur á því að við fáum hjarta- og æðsjúkdóma aukast með auknum aldri. Það að karlar fá hjarta- og æðasjúkdóma að jafnaði tíu árum fyrr en konur er staðreynd. Þeir þættir sem við getum haft áhrif á til að minnka líkur á hjartasjúkdómi fela mögulega í sér breytingar á lífsstíl fólks.”

Hvernig myndi þá hjartvænn lífstíll vera?

“Það er t.d. að byrja ekki að reykja, eða hætta að reykja, það er aldrei of seint. Gott er að vita að í boði er fjöldi námskeiða í reykleysismeðferð og ýmis hjálparlyf sem við aðstoðum fólki við ef þörf er á. Regluleg hreyfing hefur verulegan heilsufarslegan ávinning. Það hefur sýnt sig í rannsóknum að samtals hálftíma hreyfing á dag fimm daga vikunnar eða oftar dregur verulega úr líkum á því að fólk þrói með sér hjartasjúkdóm. Áhrif hreyfingar á hjarta- og æðakerfi eru fjölþætt; sterkari hjartavöðvi, aukið þol, blóðþrýstingur lækkar, jákvæð áhrif á blóðfitu, einkum á góða kólesterólið, auðveldara að halda kjörþyngd, bæði með aukinni brennslu og vegna þess að grunnefnaskiptahraðinn eykst. Regluleg hreyfing dregur úr líkum á offitu og ýmsum sjúkdómum, minnkar streitu og kvíða, bætir svefn og leiðir af sér betri almenna líðan. Til þess að fólk gefist ekki upp á reglulegri hreyfingu þarf að velja hreyfingu sem það hefur gaman af, nýta hreyfinguna í daglega lífinu; nota stigana, ganga í búðina eða til vinnu þar sem það er hægt. Mataræðið er annar þáttur sem skiptir máli við hjartvænan lífsstíl og við getum haft áhrif á. Þar eru m-in þrjú sem þarf að skoða; rétta máltíðamunstrið, rétta magnið og rétti maturinn. Varðandi máltíðarmunstrið þá er talað um að borða reglulega yfir daginn 4-5 máltíðir á dag. Hvað magnið snertir eru einfaldar reglur sem hægt er að styðjast við eins og að fá sér einu sinni á diskinn og halda sig við reglulegar máltíðir og borða lítið sem ekkert eftir kvöldverð. Margir fara út í að borða of lítið þ.e. borða of fáar hitaeiningar sem er ekki gott. Varðandi matinn er fjölbreytt fæði úr öllum fæðuflokkum án óþarfa fitu og sykurs talið heppilegast. Matardagbók er einfalt en afar gott hjálpartæki fyrir fólk til að skoða sitt máltíðamunstur, magn og hvað það er að borða.”

- Auglýsing -

Áramótaheitin ættu þá að fela í sér að breyta rétt fyrir hjartað?

“Í janúar fyllast líkamsræktarstöðvarnar af fólki og öll blöð eru yfirfull af hollusturéttum. Almenningur er í raun vel upplýstur um hvað er best fyrir heilsuna og hjartað en margir hafa tileinkað sér lífsstíl sem þeir eru í raun óánægðir með. Það að vinna í þeim áhættuþáttum sem hægt er að breyta til að minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og láta fylgjast með þeim sem hægt er að mæla s.s. kólesteróli, blóðsykri og blóðþrýstingi eru það sem við gerum best fyrir hjartað. Hjartvænar lífsstílsbreytingar eru til langframa og til þess fallnar að endast lengur en í nokkrar vikur. Málið er að njóta lífsins en fara vel með hjartað því staðreyndin er sú að við eigum bara eitt.”

Hefur hjartasjúklingum fjölgað?

“Á síðast liðnum 25 árum hefur nýjum tilfellum kransæðastíflu fækkað um nálægt 50% og horfur þeirra sem fá kransæðastíflu hafa farið hratt batnandi. Rannsóknir Hjartaverndar sýna að þessi jákvæða þróun er að stórum hluta til komin vegna bættra forvarna. Reykingamönnum fækkar, blóðþrýstingmeðferð hefur batnað og aukin áhersla er á blóðfitumeðferð og hreyfingu, hollustu og lífsstílsbreytingar. Allt þetta hjálpast að til að bæta horfurnar. Það kann því að þykja mótsagnakennt að hjartasjúklingum fjölgar sífellt, en það skýrist af því að fólk með hjartasjúkdóma lifir lengur en áður og heildarfjöldi fólks með hjartasjúkdóm eykst því á hverjum tíma. Nútíma hjartalækningar leggja mikla áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Til þess þarf að greina þá sem eru líklegir til að þróa með sér hjartasjúkdóm. Ný greiningartækni og rétt notkun auðveldar okkur þetta mat. Nákvæmari blóðrannsóknir og myndgreiningarrannsóknir auðvelda þetta mat og leiða til þess að fleiri greinast snemma með sjúkdóminn, áður en hann er farinn að valda skaða. Með viðeigandi meðferð má síðan hefta framrás sjúkdómsins og koma í veg fyrir áföll í framtíðinni. Þetta er fyrirbyggjandi læknisfræði sem skilar sparnaði þegar horft er til framtíðar og stuðlar að bættri heilsu. Aðferðir sem við beitum byggjast á alþjóðlega viðurkenndum leiðbeiningum og stöðlum um slíka skimun og hefur reynst vel. Við munum á þessu ári bjóða bæði einstaklingum og starfshópum að koma í skoðun og fá að auki fræðslu um eðli hjartasjúkdóma, áhættuþætti, mataræði, hreyfingu, lífsstílsbreytingar og fleira sem að gagni má koma í baráttunni við hjartasjúkdóma,” segir Karl Andersen yfirlæknir Hjartarannsókna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. janúar 2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-