-Auglýsing-

Hjartastopp knattspyrnumanna vekja athygli

UNGIR knattspyrnumenn sem fengið hafa hjartaáfall eru eitt heitasta umræðuefni á kaffistofum landsins og þótt víðar væri leitað þessa dagana. Margir velta því fyrir sér hvort of mikið álag eigi þar hlut að máli, lyfjanotkun hefur einnig verið nefnd til sögunnar sem skýring á þessum dauðsföllum en samkvæmt rannsóknum lækna er líklegasta skýringin sú að flestir þessara leikmanna hafi verið með undirliggjandi hjartagalla eða veikleika.

Á síðustu dögum hafa þrír leikmenn fengið hjartaáfall og tveir þeirra létust. Þekktastur þeirra er spænski landsliðsmaðurinn Antonio Puerta sem féll niður í leik með Sevilla í spænsku deildinni sl. laugardag gegn Getafe. Í fyrstu virtist Puerta vera búinn að jafna sig eftir að læknir liðsins hafði hlúð að honum en þegar í búningsklefann var komið stöðvaðist hjarta leikmannsins á ný og hann lést sl. þriðjudag á gjörgæsludeild. Puerta var aðeins 22 ára og í fremstu röð á heimsvísu. Sl. sunnudag bárust fréttir af því að Clive Clarke, 27 ára leikmaður 1. deildarliðs Leicester, hefði misst meðvitund í leikhléi í leik liðsins gegn Nottingham Forest. Um hjartastopp var að ræða. Skjót viðbrögð þeirra sem voru á leikvellinum í Leicester björguðu lífi Clarke en hann fékk tvívegis hjartaáfall í búningsherbergi félagsins en hann er á batavegi þessa dagana.

Þriðja atvikið átti sér stað í fyrradag þar sem að Chaswe Nsofwa, leikmaður frá Zambíu, féll niður á æfingu hjá ísraelska liðinu Hapoel Beershebas, en gríðarlegur hiti var á meðan æfingin fór fram – yfir 40 stiga hiti. Nsofwa lést á sjúkrahúsi eftir að liðsfélagar hans og starfsmenn liðsins höfðu reynt að endurlífga hann og notað m.a. til þess endurlífgunarbúnað á borð við sjálfvirkt rafmagnsstuðtæki.

Fréttastofan AFP tók saman lista yfir þá knattspyrnumenn sem látist hafa í leik eða á æfingu frá árinu 1989. Alls hafa 13 leikmenn látist frá árinu 1989 og hér á eftir eru þekktustu nöfnin dregin út úr þeim hópi.

*2007. 28. ágúst. Antonio José Puerta Pérez lést sl. þriðjudag vegna hjartaáfalls sem hann fékk í leik með Sevilla. Hann fæddist árið 1984 og hafið leikið með Sevilla frá barnsaldri eða í 14 ár. Hann lék sinn fyrsta og eina landsleik í undankeppni EM 6. október sl. gegn Svíum. Puerta lék á miðjunni en hann var örfættur og hafði vakið áhuga stórliða á borð við Arsenal, Man. Utd. og Real Madrid.

*2004. 27. október. Brasilíumaðurinn Serginho leikmaður Sao Caetano lést í leik gegn Sao Paulo í efstu deild. Dauðsfallið vakti mikla athygli í Brasilíu en krufning leiddi í ljós að hjartað í leikmanninum var 600 grömm að þyngd eða helmingi þyngra en í meðal karlmanni.

*2004. 25. janúar. Ungverski landsliðsmaðurinn Miklos Feher missti meðvitund í leik með Vitoria Guimaraes í Portúgal. Hinn 24 ára gamli framherji komst aldrei til meðvitundar en endurlífgun var reynd úti á grasvellinum og var sýnt frá þeim atburði í beinni sjónvarpsútsendingu í Portúgal. Í krufningu kom í ljós að hann var með hjartagalla. Feher lék einnig með Benfica og forráðamenn liðsins hafa hengt upp keppnistreyju nr. 29 með nafni Feher á heimavelli félagsins.

- Auglýsing-

*2003. 26. júní. Marc-Vivien Foe, landsliðsmaður frá Kamerún, féll niður í landsleik gegn Kólumbíu. Vivien Foe var á þeim tíma leikmaður Manchester City í ensku úrvalsdeildinni. Hann reyndist vera með hjartagalla.

Hugsa lítið um hjartað í mér

Arnar Jón Sigurgeirsson, leikmaður Víkings, hefur leikið knattspyrnu frá barnsaldri en árið 2005 kom í ljós að hann er með hjartagalla. Arnar segir að fréttirnar undanfarna daga hreyfi við honum eins og flestum öðrum. “Þetta eru mjög sorglegir atburðir. Hvað mig varðar þá tel ég mig vera búinn að ná bata eftir þá aðgerð sem gerð var á sínum tíma. Ég er ekki undir neinu sérstöku eftirliti á milli leikja eða eitthvað slíkt. Fósturæðin í hjartanu var ekki gróin saman og þetta var lagað með lítilli aðgerð. Ég var nú að vona að þolið og hlaupagetan myndi aukast gríðarlega í kjölfarið. Það virðist vera að þessi galli hafi ekki komið mikið niður á þolinu og hlaupagetunni á sínum tíma. Eins og áður segir þá hugsa ég sjaldan um ástandið á hjartanu í mér. Það amar ekkert að mér,” sagði Arnar Jón.


Hjartastuðtæki í Laugardalinn

Jóhann Kristinsson vallarstjóri Laugardalsvallar og segir að þar á bæ hafi menn ákveðið kaupa hjartastuðtæki á Laugardalsvelli og verður það komið í gagnið næsta vor. “Stundum er þörf á slíku tæki þar sem mörg þúsund manna koma saman. Við erum ekkert órólegir þrátt fyrir að slíkt tæki sé ekki til staðar í dag. Við erum með mjög hæft fólk við störf á stórviðburðum. Fólk sem kann að bregðast við með skjótum hætti. Ef fleiri en 5.000 áhorfendur eru á leik þá verður sjúkrabifreið með slíku tæki á svæðinu. Það eru líka stuttar vegalengdir fyrir fleiri bíla að koma á svæðið ef þess er þörf. Það eru alltaf læknar á svæðinu og hægt að bregðast rétt við á meðan sjúkrabifreiðin er á leiðinni – ef slík mál koma upp en þau hafa sem betur fer ekki komið upp,” sagði Jóhann.

Í hnotskurn

» Hjartastuðtæki verður til staðar á Laugardalsvelli þegar keppnistímabilið hefst næsta vor.
» Samkvæmt samantekt AFP-fréttastofunnar hafa 13 knattspyrnumenn látist á æfingu eða keppni frá árinu 1989 en sænskir fjölmiðlar telja að þeir séu mun fleiri.
» Arnar Jón Sigurgeirsson leikmaður Víkings fór í aðgerð árið 2005 vegna hjartagalla.

Morgunblaðið 31.08.2007

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson seth@mbl.is

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-