-Auglýsing-

Hjartasjúklingar bíða á göngum Landspítalans

„Það er alltaf erfitt að liggja á göngunum og auðvitað myndum við óska þess að svo væri ekki,” segir Björn Zoëga, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, um ástand á hjartadeild.

Björn segir að á þessu ári hafi um 20 prósent fleiri sjúklingar farið í hjartaþræðingu en árið á undan. Þrátt fyrir mikil afköst hafi myndast langur biðlisti með haustinu, en þegar mest var biðu um 300 manns, og því hafi verið farið í átak á deildinni. Nú bíða rúmlega 200 manns eftir að komast í þræðingu. Þá bíða 50 manns eftir að komast í hjartaaðgerð sem oft er nauðsynleg eftir hjartaþræðingu. Um tíu þeirra eru á hjartadeild því þeir eru of veikir til að komast heim en komast þó ekki í hjartaaðgerð þar sem gjörgæsludeildin getur ekki tekið við þeim eftir aðgerðina vegna þrengsla. Gestur Þorgeirsson, yfirlæknir á hjartadeild, segir nær ómögulegt að halda uppi átaki í hjartaþræðingum ef sjúklingar komist ekki í þær aðgerðir sem reynast nauðsynlegar á eftir. Þá hefur Bjarni Torfason, yfirlæknir hjarta- og lungnaskurðdeildar, bent á að tafir á hjartaaðgerðum séu mjög alvarlegt mál þar sem líf og heilsa fólks sé í veði.

Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hjartaheilla, segir ástandið skelfilegt. „Það er ólíðandi að fólk sé látið liggja á göngum og hvað þá að það sé látið bíða eftir lífsnauðsynlegri aðgerð,” segir hann.
Ásgeir segist ítrekað hafa reynt að fá fund með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, frá því hann tók við embætti heilbrigðisráðherra í vor, en án árangurs.
„Það er mikill urgur í hjartasjúklingum vegna þessa,” segir Ásgeir. Hann bætir því næst við að einna verst sé þetta þó fyrir starfsfólk deildarinnar sem standi sig með miklum sóma við erfið skilyrði.

„Fólk brotnar oft niður þegar það heyrir að það komist ekki í aðgerð,” segir Inga Björnsdóttir, aðstoðardeildarstjóri hjartadeildar 14 E, um þá erfiðleika sem tafirnar valda fólki. Þessa dagana er óvenju mikið álag á deildinni og vegna aðstöðuleysis hefur þurft að senda sjúklinga á sjúkrahúsin í Keflavík og Akranesi.

„Við reynum að vinna eins vel og við getum að hag sjúklinganna, og setjum aðeins það fólk sem er minnst veikt á gangana,” segir Björn Zoëga að lokum.

karen@frettabladid.is

- Auglýsing-

Fréttablaðið 14.12.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-