-Auglýsing-

Hjartaheilsu reiknivél – mínar niðurstöður

ÁhættureiknivélHarvard School of Public Health hefur þróað „reiknivél“/netpróf sem metur hver hætta hvers og eins er á að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóm á næstu 20 árum. Niðurstöðurnar byggjast á núverandi lífstílsvenjum. Hjartalíf fjallaði um málið hér. Hér verður nánar greint frá því hvernig þetta virkar og undirrituð fer yfir eigin niðurstöður til útskýringar. Tengil á reiknivélina má finna neðst á síðunni.

Þetta er í raun vefkönnun sem er ókeypis, ekki of löng og ekki of flókin – maður þarf bara aðeins að hugsa og reyna að meta hvað maður borðar mikið af hverju og hvað maður hreyfir sig mikið. Því geta allir sem kæra sig um athugað hversu mikil áhrif lífstíll þeirra er að hafa á hættu á hjarta- og æðasjúkdómum í framtíðinni. Lítil hætt er sýnd sem „low“ og er græn á litinn, svo er miðlungs hætta sýnd sem „moderate“ og er gul, mikil hætta á næstu 20 árum er sýnd sem „high“ og er sýnd sem rauð. Prófið sýnir niðurstöður allra flokka sem og heildarniðurstöðu. Flokkarnir eru: BMI stuðull, hreyfing, reykingar, ávextir og grænmeti, gróft korn, hnetur, sykraðir drykkir, áfengisneysla, rautt kjöt og unnið kjöt.

-Auglýsing-

Þetta er ný tækni að því leyti að hér eru ekki teknir inn í dæmið klínískir áhættuþættir eins og hækkað kólestról og hár blóðþrýstingur heldur aðeins lífstílsvenjur fólks. Að því leyti getur fólk tekið prófið og notað það til að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða þegar í stað. Niðurstöðunum fylgja einmitt góð ráð um hvernig fara megi að því. Hafa bara í huga að þetta eru ekki heilagar niðurstöður og aðeins niðurstöður byggðar á nokkrum þáttum út frá þeim upplýsingum sem þú gefur og það er ekki verið að taka alla áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma inn í dæmið. Þeir lífstílsþættir sem notast er við eru þó áhrifaríkt matstæki engu að síður og hafa áhrif á aðra áhættuþætti eins og offitu, sykursýki, kólestról o.fl. Reiknivélin/netprófið er þróað út frá gögnum frá hátt í 95.000 þátttakendum (61.025 konum og 33.478 körlum) sem fylgt var eftir í 24 ár og athugað hversu margir fengu hjarta- og æðasjúkdóma.

Þetta er í raun stórsniðugt og eitthvað sem allir ættu að gefa sér nokkrar mínútur í. Svo þarf að sjálfsögðu að gefa sér aðeins fleiri mínútur af framtíðinni til að hagræða lífstílnum í heilbrigðari átt, sé þess þörf. En vitundarvakning er fyrsta skrefið.

Undirrituð vatt sér í að taka prófið til að fá smjörþefinn af hættu sinni á hjartasjúkdómum næstu 20 árin. Ég er ung og þokkalega spræk, lifi bíllausum lífstíl í útlöndum svo ég strunsa allar mínar ferðir á tveimur jafnfljótum, er oft of sein í strætó og neyðist því til að skokka út í skýli og heimsækji líkamsræktarstöðvar einstaka sinnum. Svo ég hreyfi mig lúmskt, án þess að stunda stífar æfingar. Ég er í kjörþyngd, reyki ekki og neyti áfengis í hófi.

Þetta hefur allt saman haft jákvæð áhrif á niðurstöðu mína og reiknivélin metur mig í lítilli hættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma í framtíðinni – sem er sannarlega gleðiefni. Ég er metin í lágri hættu á þáttum eins og BMI, hreyfingu og reykingum.

- Auglýsing-

Aftur á móti má ég sannarlega taka mig saman í andlitinu hvað varðar mataræði. Ég borða allt of lítið af ávöxtum og grænmeti, of lítið af trefjaríkum mat (whole grains) og of mikið af unnum matvörum eins og unnu kjöti. Ég slepp með sykruðu drykkina, er metin þar í miðlungs hættu, og ég mætti einnig bæta mig í hnetuáti.

Myndin stækkar ef þú smellir á hana.

Áhættureiknivél

Eftir þessa samtekt á niðurstöðum mínum, þá get ég flett áfram og séð ráðleggingar sniðnar að mínum niðurstöðum á næstu blaðsíðu. Þar er mér meðal annars ráðlagt að stunda 3,5 klst af hreyfingu á viku, en það er 30 mínútur á dag. Þeir ráðleggja 5 skammta af ávöxtum og grænmeti á dag, en ráð sem þeir gefa mér til að bæta mig í þessum efnum er til dæmis að skera ávexti niður fyrirfram svo það sé einfaldara að grípa til þeirra. Gera til dæmis ávaxtasalat. Einnig er mælt með því að prófa grænmeti sem maður hefur aldrei prófað áður og leika sér að því að prófa mismunandi liti og blanda saman. Þeir minna mig einnig á að karteflur flokkast ekki sem grænmeti og ávaxtadjús ekki sem ávaxtaskammtur, og segja sniðugt að fylla hálfan matardiskinn af grænmeti í hádegismatnum og kvöldmatnum.

Hvað trefjar varðar þá mæla þeir með 15 grömmum á dag eða meira. Þar er ráðlagt að færa sig frá hvítu brauði, grjónum og pasta yfir í heilhveiti. Brún hrísgrjón í stað hvítra o.s.frv. Þegar kemur að rauðu kjöti er mælt með tveimur skömmtum á viku og að einbeita sér að því að fá prótein úr til dæmis kjúkling og fisk. Unnið kjöt á almennt ekki að borða, enda er sykur, salt og annað oft laumufarþegar í slíkum matvörum. Af hnetum og fræjum á að borða 1 skammt á dag, til dæmis af möndlum, pistasíum og kasjúhnetum, og þá helst ósaltaðar eða lítið saltaðar.

Sykraða drykki segja þeir að eigi alfarið að sleppa, reyna frekar að gera vatnið tíðindameira með sítrónu eða lime þurfi maður þess. Áfengið segja þeir svo að njóta eigi í hófi.

Þessi ráð eru líklega eitthvað sem allir fá við niðurstöðunum sínum, en ráðleggingarnar eru þó að einhverju leyti sniðnar að hverjum og einum. Þetta er flest eitthvað sem við vitum, eins og að borða eigi 5 skammta af ávöxtum á dag, borða mikið grænmeti, helst engann sykur, sleppa unnum matvörum o.s.frv. Einnig að það sé óhollt að reykja og mikilvægt að hreyfa sig. Þetta er samt sem áður góð áminning og mjög gott að vita hvar maður stendur í þessum efnum. Einnig er þetta ágætis vatnsgusa í andlitið þegar þetta er tengt saman svona svart á hvítu við hættuna á að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma.

Ég hvet lesendur til að kynna sér þetta próf og athuga hvernig þeir standa Svo er um að gera að taka ráðleggingarnar til sín og færa sig smám saman í átt að heilbrigðari lífstíl, sé þess þörf. Það er betra að byrja fyrr en seinna að fikra sig í rétta átt, og gott að hafa það hugfast að það er aldrei of seint að bæta úr sínum málum.

- Auglýsing -

Reiknivélina/vefkönnunina má finna hér: https://healthyheartscore.sph.harvard.edu/

Hanna María Guðbjartsdóttir, sálfræðingur.
hannamaria@hjartalif.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-