-Auglýsing-

Hjartabilaður á ferðalagi

1055986 77933911Það er gaman að ferðast milli landa og það felst í því mikil tilbreyting frá amstri dagsins að leggja land undir fót, heimsækja vini, fá smá sól í andlitið og njóta stundarinnar í öðru landi.

Þessi ferðalög fylla mann nýjum þrótti og verða uppspretta nýrra hugmynda og möguleika, sjóndeildarhringurinn víkkar og maður verður víðsýnni.

-Auglýsing-

Áður en veikindi mín létu á sér kræla ferðaðist ég bæði oft, mikið og víða og fann yfirleitt ekki til mikillar flugþreytu og var fljótur að jafna mig, jafnvel eftir langar ferðir.

Í dag minna flugferðir mig oft illþyrmilega á að ég geng ekki heill til skógar og orkan er stundum ekki mikil og undir slíkum kringumstæðum er gott að vita sínar takmarkanir og reyna að fara sparlega með þá orku sem er til staðar til að létta manni ferðina .

Sú staðreynd að vera hjartabilaður auk ýmissa annarra kvilla sem draga úr manni þróttinn gerir það að verkum að þegar lagst er í ferðalög þarf ég að undirbúa mig vel þ.e. hvíla mig vel áður en lagt er af stað. Þessi undirbúningur er mikilvægur því hann léttir mikið undir þegar komið er að ferðalaginu sjálfu.

En ég er fljótur að gleyma að flugferðir hafa oft verið mér erfiðar og þrekleysi mitt í háloftunum kemur mér alltaf pínulítið á óvart. Í daglega lífinu hér heima er flest í föstum skorðum og flesta hluti framkvæmir maður án mikillar umhugsunar en ef manni hættir til að fara frammúr sér þá er bara setja smá hvíld inn í daginn.

- Auglýsing-

Öðru máli gegnir um ferðalög en þá hefur maður tilhneigingu til að ganga heldur lengra en maður er vanur því takast þarf á við þær aðstæður sem upp koma upp  í ferðalaginu jafnóðum og er ég minntur á takmarkanir mínar við slíkar aðstæður.

Ég hef tamið mér það að drekka vel af vatni þegar ég flýg og neyta helst ekki áfengis. Þegar ég sit í sætinu mínu læt ég fara lítið fyrir mér, hlusta á músík eða nýt annarrar afþreyingar og reyni að eyða eins lítilli orku og mögulegt er. En það er ekki á allt kosið og stundum er óhjákvæmilegt að nota salerni meðan á flugferð stendur og það er, eins undarlega eins og það kann að hljóma erfiðara en marga grunar.

Salernisferðirnar reyna verulega á og það dregur yfirleitt mjög fljótt af mér, ég verð móður og orkulaus og mér líður stundum eins og mig vanti súrefni. Þegar ég er kominn í sætið mitt aftur er ég í töluverðan tíma að jafna mig á mæðinni og þreytan situr svolítið í mér.

Slík vanlíðan við þessar aðstæður framkallar auðveldlega kvíða en það er mikilvægt að láta þá tilfinningu ekki ná yfirhöndinni og ég reyni þess í stað að draga andann djúpt og koma líkamanum eins fljótt og mögulegt er í afslöppun, læt líða úr mér og slaka á.

Meðan á fluginu stendur læt ég lofttúðuna fyrir ofan mig vera galopna til að fá eins mikið loft og ég mögulega get og finnst mér mikil hjálp í því. Auk þess reyni ég að sitja framarlega í vélinni því þar finnst mér loftið betra.
Þessi aðferðir hafa gagnast mér vel í gegnum tíðina, auðveldað mér flugferðirnar og leitt til þess að ég nýt þeirra mikið betur en kvíði ekki fyrir þeim eins og stundum á árum áður.

En eins og það er gaman að ferðast þá er alltaf gott að koma heim í faðm fjölskyldunnar og leggjast til hvílu í sínu eigin rúmi, þá verð ég oft hvíldinni feginn.

Dagurinn og jafnvel dagarnir eftir heimkomu úr ferðalagi einkennist af því að maginn er að jafna sig og það er töluverður bjúgur sem hefur safnast fyrir sem byrjar að renna af mér. Þessa daga er ég ansi þreyttur og á frekar erfitt með að einbeita mér nema stutta stund í einu, það er mér því mikilvægt að gefa mér góðan tíma til að hvílast að ferðalagi loknu.

Að jafnaði tekur það mig tvo til þrjá daga að ná mér af eftirköstum þess að hafa staðið í þessu ferðabrölti mínu en það er þess virði. Og ef ég þekki mig rétt líða ekki margar vikur þangað til ég fer að velta því fyrir mér hvenær ég geti nú farið að skipuleggja næsta ferðalag og hvert skuli haldið.

- Auglýsing -

Reykjavík 8. Maí 2013

Björn Ófeigsson
bjorn@hjartalif.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-