-Auglýsing-

Hjartaaðgerð júní 2004

KærleikurMinningar hjartamaka um tímann meðan beðið var eftir að makinn kæmi úr stórri og áhættusamri opinni hjartaskurðaðgerð sem fór fram í júní 2004. Hugsanir maka sem þjóta í gegnum hugan snúast margar hverjar um líf og dauða.

Þetta er skrítin tilfinning. Á sama tíma og ég finn fyrir lamandi ótta þá léttir mér. Bjössi er sofnaður núna. Ef hann deyr í aðgerðinni þá veit hann ekki af því. Hann finnur ekki fyrir því og verður ekki hræddur, hann verður bara sofandi. Ef illa fer þá eru stundir hans í meðvituðu lífi liðnar núna, það er skrítið að hugsa til þess, hann deyr þá án þess að vita það. Hann þjáist ekki núna og ef illa fer þá þjáist hann aldrei meir. Þetta er huggunin sem ég finn andspænis þessum aðstæðum þar sem óvissan er algjör og niðurstaðan… vonandi… lífið… eða… svört hola… móða… sársauki… kuldi… endurhæfing… líf á ný en ekki lífið sem ég vil.

Ef hins vegar allt fer á besta veg þá vaknar hann bara eftir vonandi ekki of langan tíma og byrjar að takast á við breytt og betra líf. Það kemur mér á óvart að líða betur eftir að aðgerðin hófst. Skrítið, en kannski er það satt að lognið sé mest í miðju hvirfilbylsins.

Nóttin var skrítin, ég svaf lítið og laust. Kvöldið var líka skrítið og fullt af rósemd og trausti þrátt fyrir gífurlega óvissu. Ég bað mikið. Það er ekki alvanalegt mál að kveðja og fara heim. Skilja maka sinn eftir og vita ekki hvort maður fái að hitta hann aftur á lífi. Það þarfnast undirbúnings ef vel á að vera. Það þarfnast trausts á aðstæðunum ef vel á að vera. Mér finnst mikilvægt að finna kyrrð í þessu ferli og takast á við það af heilindum en ekki ótta. Mér finnst reyndar skrítið hversu hversdagslegt þetta er á spítalanum. Engin sérstök meðferð, ekkert umstagn, bara rútína sem kannski endar veruleika minn eins og ég þekki hann, en spítalafólkið er bara í vinnunni sinni og sinnir enn einum sjúklingnum. Tekur varla eftir mér.

Ég hef fram að þessum degi hugsað mig inn í þetta traust sem þarf. Ég fann að til að vel ætti að vera þyrfti ég að trúa því að allt færi eins og það ætti að fara. Eins og best væri, hvernig sem færi. Ég þurfti að leggja Bjössa í hendur þeirra sem aðgerðina gera og treysta þeim fyrir starfi sínu.

Klukkan skríður ansi hægt áfram og aðgerðin er í gangi en ég ber fullkomið traust til þeirra lækna og lækningafólks sem er að sinna honum í aðgerðinni. Ég hef náð þeim stað sem ég hef unnið að því að ná undanfarnar vikur. Ég bið ekki um niðurstöðu sem hentar mér best, ég bið um niðurstöðu sem er best. Þetta var erfið ferð á þennan stað. Ég brást illa við í byrjun og fannst ég vera svikari. Fannst að ef ég myndi biðja þá bæn að aðgerðin færi eins og hún ætti að fara en ekki eins og ég best óskaði eftir þá væri ég á einhvern hátt að samþykkja, að það væri í lagi að hann myndi deyja ef svo færi. Það er alls ekki í lagi. Ég þurfti að ná á þennan stað þar sem ég trúi því að sama hvernig fer, þá er það ekki af slysni, engin tilviljun því það er nákvæmlega eins og Guð hefur planað það. Ef ég næði ekki þangað, þá væri einhvernvegin enginn tilgangur í ferlinu, ekkert traust og engin vissa um að allt væri fyrirfram skipulagt. Þá gæti allt gerst.

- Auglýsing-

Ég sofna þegar ég veit að hann er sofnaður. Nú er hann ekki hræddur. Nú líður honum ekki illa. Hann er á aðgerðarborðinu en andi hans fær frí frá þessum sjúkdómi á meðan.

Ég rumska, er lömuð. Get ekki hreyft mig. Veit ekki hvort ég er vakandi eða að dreyma. Finnst ég samt vera vakandi. Ég heyri í Bjössa, finn fyrir honum fyrir aftan mig í rúminu. Hann leggst við hliðina á mér og tekur utan um mig. Hann segir samt ekkert. Sál mín tekur andköf, ég er föst í líkamanum og geri mér grein fyrir að Bjössi er kominn að kveðja. Ég er skelfingu lostin og græt og Bjössi heldur mér fast í faðmi sínum og huggar mig. Tárin leka en ég er lömuð og get ekki snúið mér, sé hann ekki, get ekki talað, get bara fundið þessa gríðarlegu sorg. Tenginguna við manninn sem er að kveðja mig. Fullkomna ást.

Ég vakna. Veit ekki hvað gerðist. Veit ekki hvað er að gerast með Bjössa en skil að síminn hefur ekki hringt. Þau hefðu hringt. Aðgerðin væri búin ef hann hefði komið og kvatt mig. Því lengur sem síminn ekki hringir núna, því betra. Þetta hlýtur að hafa verið draumur.

Ég fyllist skyndilegu ráðaleysi þegar vel er liðið á morguninn. Af hverju sit ég hér ein á meðan hann er í aðgerð. Er einhver aðstaða fyrir maka sem mér var ekki sögð frá? Hefði ég getað setið núna í öruggum höndum fagfólks sem hefði haft stjórn á aðstæðunum ef illa færi? Guð minn almáttugur, hvað geri ég ef síminn hringir og Bjarni læknir segir mér að Bjössi sé dáinn??? Ég fer í huganum fram og aftur og yfir það hvernig ég á að takast á við slíkt hér ein heima. Hvernig í ósköpunum á ég svo í miðjum harmleik lífs míns að bera ábyrgð á því að bera fréttirnar áfram? Hvernig get ég tekið upp símtalið og hringtí Beggu tengdó ef illa fer? Hvað segir maður við móður ef barn hennar er dáið þó fullorðið sé? Hvernig endaði ég í þessu ábyrgðarhlutverki? Ég þarf hjálp.

Ég hringi í Bjarna prest. Sem betur fer eigum við hann að. Ég fæ hjálp. Hann ætlar að vera með símann á sér og vera tilbúinn, koma og taka yfir ábyrgðina ef illa fer. Ég þarf ekki að vera sú sem flytur öðrum fréttirnar. Það er léttir. Ég er með plan. Ég er róleg aftur.

Ég elska Bjössa og vil eyða öllu lífi mínu með honum. Kannski færir þessi aðgerð okkur það. Kannski færir þessi aðgerð okkur það að við getum lifað eðlilegu lífi, alið börn og séð þau vaxa úr grasi. Fengið að horfa á það saman þegar þau gifta sig og eignast sín eigin börn. Kannski fáum við að verða gömul saman. Ég vona það. En ég bið um það að Guð hafi plan og að hans vilji nái fram að ganga. Ég treysti og bíð.

Þetta líður rosalega hægt. Ég geri ekkert. Hugsa mikið en mest tala ég við Guð. Hann er traustur vinur á svona stundu. Hann getur verið allt sem ég þarf ef ég leyfi honum það. Í dag leyfi ég honum það.

Eftir hádegið ranka ég við mér við þá hugsun að það sé einn laus endi í viðbót. Ef illa fer. Skrítið að hafa áhyggjur af þessu á þessari stundu, en þeirri hugsun skítur niður í kollinn á mér að ég eigi eftir að skila inn þinglýstum leigusamningi til að geta fengið húsaleigubætur. Ég veit að ef illa fer þá er ekki sjéns að ég eigi eftir að hafa hugsun til þess að skila þessu inn á næstunni. Best að ganga frá þessu áður. Ég panikka samt smá. Verð að skjótast með þetta, það er ekki langt. Nokkrar götur í burtu. En hvað ef Bjarni læknir hringir á meðan? Ég verð að vera með alla enda fasta, svo ég hleyp út í bíl. Keyri í ofboði, hleyp upp tröppurnar og hendi samningnum í fangið á konunni í móttökunni. Keyri af stað aftur. Síminn hringir. Það hægist á öllu umhverfinu, litir himinsins verða skýrari, hugsunin verður hraðari, en skýr, það er komið að ögurstundu. Þetta er spítalanúmer.

- Auglýsing -

Ég svara símanum og þetta er Bjarni læknir. Ég keyri út úr hringtorginu annarsstaðar en venjulega. Kemst þannig út af aðalgötunni, þar er engin traffík, þetta er rólegt hverfi og það er miður dagur. Ég stoppa úti í kanti og tárin renna niður kinnarnar mínar. Bjarni segir allt hafa gengið vel! Lítið vissi ég þá en þessi staður, þessi stund. Ég man þetta símtal alltaf þegar ég keyri þarna. Ég þekki hvern stein í götunni, þekki litina á trjánum og birtu dagsins. Ég mun aldrei gleyma þessu andartaki þar sem ég upplifði fullkomið þakklæti og árangur traustsins. Lífið okkar sigraði.

Brot úr lífi mínu sem hjartamaki, aðgerðardagur 9. júní 2004.

Mjöll

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-