-Auglýsing-

Hjálparhjarta veitir nýja von

Fyrsta ígræðsla á gervihjarta (LVAD) í sjúkling á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, hjálparhjarta af gerðinni HeartMate II, var miðvikudaginn 9. maí 2007 við Hringbraut. Rannsóknir sem gerðar voru á hjartadeild og gjörgæsludeild LSH sýndu að ígræðsla á hjálparhjarta væri eina von sjúklingsins um bata og áframhaldandi líf. Hjartaskurðaðgerðin var mjög umfangsmikil en gekk vel og sjúklingnum er nú haldið sofandi á gjörgæsludeild fyrst um sinn eftir aðgerðina.

Hjartabilun er ört vaxandi vandamál í hinum vestræna heimi og því miður á það einnig við hjá okkur Íslendingum. Þrátt fyrir mjög öfluga meðferð við hjartasjúkdómum fjölgar þeim stöðugt sem stríða við alvarlega hjartabilun. Aðeins lítill hluti þeirra sem hjartabilast geta vænst þess að fá ígrætt hjarta og því þarf að leita annarra leiða sem geta nýst fleirum. Gervihjartaígræðsla er ein slík lausn sem getur hentað sumum en hefðbundnar hjartaígræðslur eru reyndar á undanhaldi, framboð á hjörtum til ígræðslu fer minnkandi og reikna má með að gervihjartaígræðslur leysi hefðbundnar hjartaígræðslur af hólmi innan fárra ára.

Miðvikudaginn 9. maí 2007 var grætt inn hjálparhjarta í 64 ára gamlan karlmann. Þetta er fyrsta aðgerð þessarar tegundar hér á landi. Aðgerðin gekk vel og vonir standa til þess að dælan bjargi lífi sjúklingsins. Gervihjartað sem um ræðir er lítil dæla, á stærð við þumalfingur, sem tengd er til stuðnings bilaða hjartanu. Gervihjartað sér um að dæla blóði úr biluðum vinstri slegli yfir í ósæðina og þannig út um líkamann. Gervihjartað dælir með jöfnum þrýstingi en ekki á taktvissan púlserandi hátt, líkt og hjartavöðvinn. Fyrir vikið eru þeir sem ganga með slíkt gervihjarta ekki með púls eins og aðrir. Rannsóknir benda til að þessi tiltölulega jafni þrýstingur hafi ekki neikvæð áhrif á æðar eða líffæri.
Með þessari skurðaðgerð er stigið mikilvægt skref í hjartalækningum á Íslandi. 

Nauðsynlegt er að fylgjast afar vel með nýjungum í hjartalækningum því framfarir eru örar og þekking úreldist mjög fljótt. Talið er að helmingunartími þekkingar hjartaskurðlækna sé til dæmis um þrjú ár, það er að segja á þremur árum úreldist um helmingur þekkingarinnar og því er símenntun afar nauðsynleg, raunar í öllum sérgreinum sem fást við sjúkdóma í hjarta. Lækningatækin sem við notum úreldast einnig mjög fljótt en helmingunartími þeirra er ámóta og þekkingarinnar, stöðug endurnýjun tækja er því nauðsynleg.

Því ber að fagna að þessi nýja tækni er nú orðin að veruleika hérlendis. Búast má við að við gerum allt að fimm til sex aðgerðir á ári til að byrja með og ef við flokkum þær niður þá má reikna með því að ein aðgerðin verði til að brúa bilið fram að hjartaígræðslu. Ein verði gerð á sjúklingi þar sem hjartað mun ná sér við hvíldina sem gervihjartað veitir þannig að hægt verði að taka gervihjartað út eftir nokkra mánuði eða ár. Þrjár til fjórar aðgerðir verða væntanlega gerðar á sjúklingum sem fá varanlega lausn með gervihjartanu, þar er þá um sjúklinga að ræða sem ekki koma til greina fyrir hefðbundna hjartaígræðslu.

Ánægjulegt er að hægt var að þjálfa starfsfólk og tækjavæða hjartaskurðdeildina þannig að ígræðslur á varanlegu gervihjarta, svokölluðu HeartMate II frá Thoratec, varð að veruleika.
Nýstofnuð göngudeild fyrir hjartabilaða á Landspítala – háskólasjúkrahúsi er heppilegur staður til að meta ábendingu fyrir gervihjartaígræðslu en reglubundið eftirlit með gervihjartanu verður einnig að verulegu leyti í höndum sérfræðinga á hjartalungnavél. Gervihjarta mun veita mörgum sjúklingun nýja von og betra líf og fyrirbyggja ótímabæran dauða. Hjartabilun er ört vaxandi heilbrigðisvandamál og gervihjartaígræðsla er gagnlegt meðferðarúrræði þar sem hún á við.

- Auglýsing-

Íslenska þjóðin brást við átakinu: ” Í hjartastað” af miklu örlæti og minningarsjóður Þorbjörns Árnasonar færði spítalanum í framhaldi af því peningagjöf, á annan tug milljóna króna, sem gerði þetta mikilvæga verkefni í hjartalækningum mögulegt. Ég vil þakka minningarsjóðnum og þeim öðrum sem hafa stutt okkur og þeim sem eru áfram tilbúnir að styðja okkur við að annast hjartveika sjúklinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi á besta hátt sem völ er á hverju sinni allt eftir því sem þekkingu, getu og tækninýjungum fleytir fram.

Ég vil einnig þakka öllum þeim starfsmönnum spítalans sem á einn eða annan hátt hjálpuðu til við að gera þetta mögulegt. Kærar þakkir til starfsmanna Thoratec og Vistor, umboðsaðila fyrir HeartMate II á Íslandi (www.thoratec.com) (www.vistor.is). Og sérstakar þakkir til starsfólks hjartadeildar, hjartaskurðdeildar, skurðstofu, svæfinga- og gjörgæsludeildar, rannsóknarstofu og blóðbanka svo og öllum öðrum sem mikið mæddi á við þetta erfiða verkefni, ég er stoltur af ykkur.

Bjarni Torfason yfirlæknir hjarta- og lungnaskurðdeildar LSH

www.landspitali.is 11.05.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-