-Auglýsing-

Alls 7.105 kransæðavíkkanir á 20 árum

FYRSTA kransæðavíkkun með hjartaþræðingu var gerð hér á landi fyrir réttum 20 árum. Það voru þeir Kristján Eyjólfsson sérfræðilæknir á hjartadeild Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH) og Einar H. Jónmundsson röntgenlæknir á röntgendeild LSH sem gerðu aðgerðina á Landspítalanum 14. maí 1987. Frá því kransæðavíkkanirnar hófust hér er búið að gera 7.105 slíkar aðgerðir.

Við kransæðavíkkun með hjartaþræðingu er leiddur langur þráður gegnum æðakerfi sjúklingsins frá æð í nára og upp í þröngar eða stíflaðar kransæðar hjartans. Fylgst er með ferðalagi þráðarins um æðakerfið að hjartanu í röntgentækjum. Þegar kemur að þrengslum í kransæð er blásinn út lítill belgur sem víkkar æðina út. Í flestum tilvikum er skilið eftir stoðnet sem styður við útvíkkaða æðaveggina. Þessar aðgerðir reyna mun minna á sjúklinginn en opnar hjartaskurðaðgerðir. Í byrjun voru kransæðavíkkanir gerðar í samvinnu hjartadeildar og röntgendeildar. Eftir að Landspítali og Borgarsjúkrahús sameinuðust hafa hjartaþræðingar og kransæðavíkkanir verið á vegum hjartadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss.

-Auglýsing-

Hjartaaðgerðir voru forsenda
“Þessar kransæðavíkkunaraðgerðir voru fyrst gerðar 1977 í Sviss. Um fimm árum seinna var farið að gera svona aðgerðir á nokkrum stöðum í Evrópu og Ameríku. Á tímabilinu frá 1981 til 1987 sendum við sjúklinga utan í svona aðgerðir, mest til Bretlands og einhverjir fóru til Ameríku. Það urðu mest nokkrir tugir sjúklinga sem fóru í þessar aðgerðir á hverju ári,” sagði Kristján.

Kransæðaskurðaðgerðir hófust hér á landi í júní 1986. Það eru svonefndar opnar hjartaaðgerðir þar sem notuð er hjarta- og lungnavél. Kristján segir að flestar hjartaaðgerðir séu gerðar vegna kransæðasjúkdóma, svonefndar hjáveituaðgerðir, en einnig til að laga hjartalokur og annað. Tæpt ár leið því frá að opnar hjartaaðgerðir hófust hér þar til fyrsta kransæðavíkkunin með hjartaþræðingu var gerð á Landspítalanum. Kristján segir að aðstaða til að gera opnar hjartaaðgerðir hafi verið nauðsynleg forsenda þess að kransæðavíkkanir með hjartaþræðingu hæfust. Útvíkkaðar kransæðar áttu til að falla saman og þurfti því fullmönnuð skurðstofa til hjartaaðgerða að vera til reiðu ef grípa þurfti inn í með skurðaðgerð.

Eftir að stoðnetin komu til sögunnar 1993 er hverfandi hætta á að kransæðarnar falli saman. Bráðaskurðaðgerðir í framhaldi af kransæðavíkkun eru því mjög fátíðar nú til dags. Kristján sagði að stoðnet væru nú sett í æðar í 85–90% kransæðavíkkana.

Aðgerðum fjölgað tólffalt
Fyrsta heila árið, 1988, voru gerðar um 50 kransæðavíkkanir á Landspítalanum en undanfarin ár hafa verið gerðar jafn margar aðgerðir á hverjum mánuði eða rúmlega 600 kransæðavíkkanir á hverju ári. Af því eru um 120 bráðaaðgerðir. Kristján sagði að í árslok 2003 hefðu verið settar á skipulegar vaktir starfsfólks við hjartaþræðingu svo hægt væri að gera kransæðavíkkanir á sjúklingum með bráða kransæðastíflu alla daga ársins. Auk sérhæfðra lækna standa að aðgerðunum sérhæfðir hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar og lífeindafræðingar. Brýnt er að opna stíflaðar kransæðar sem fyrst til að draga úr hættu á skemmdum á hjartavöðvanum. Áður voru gefin sterk segaleysandi lyf til að opna bráðu kransæðastíflurnar og virkuðu þau stundum vel en stundum miður.

- Auglýsing-

Kristján telur það gefast betur að beita kransæðavíkkun og setja stoðnet í stífluðu kransæðina, sé þess kostur. Kransæðavíkkanir reynast oft vera lausn í bili og hægt er að beita lyfjameðferð í framhaldinu við áhættuþáttum svo sem of mikilli blóðfitu eða háþrýstingi. Í einhverjum tilvikum er sjúklingurinn með útbreiddan kransæðasjúkdóm sem krefst hjartaaðgerðar síðar.

Nokkur bið er nú eftir að komast í kransæðamyndatökur. Flestar kransæðavíkkanir eru gerðar í beinu framhaldi af myndatöku og sagði Kristján að ekki væri teljandi biðlisti eftir kransæðavíkkunum sem slíkum. Það er liðin tíð að Íslendingar fari utan í kransæðavíkkun. En kemur fólk frá útlöndum í þessar aðgerðir?

“Nei, við höfum ekki boðið upp á það. Ég man eftir Íslendingi búsettum erlendis sem ætlar að panta sér hjartaþræðingu hér, en þetta er ekki í neinum mæli því við höfum ekki undan með okkar eigin fólk,” sagði Kristján.

Tækjabúnaður að reskjast
Tækjabúnaður hjartaþræðingadeildar Landspítalans er farinn að reskjast, að sögn Kristjáns, og kominn tími til að huga að endurnýjun tækjanna. Deildin ræður yfir tveimur röntgentækjum og er annað á 10. ári og hitt á sjötta ári. Bæði tækin eru með stafræna myndgerð en geymslukerfið er á lausum geisladiskum. Diskarnir sem sýna hvað í hjörtum sjúklinga deildarinnar býr eru geymdir í hillum sem þekja nær heilan vegg!

Nú er farið að víkka kransæðar í eldri sjúklingum en áður var gert, því auknar kröfur eru gerðar um að bæta líðan eldra fólks. Áður þótti ekki koma til greina að framkvæma kransæðavíkkun á sjúklingum eldri en 75 ára en nú þykir ekkert tiltökumál þótt sjúklingur sé 80–90 ára. Nýlega var t.d. gerð kransæðavíkkun á 95 ára gömlum sjúklingi.

Kristján sagði dæmi um sjúklinga undir þrítugu sem hefðu farið í kransæðavíkkun, en þá voru alveg sérstakar ástæður fyrir æðaþrengslunum. Eftir því sem aldurinn hækkar fjölgar sjúklingum og þorrinn er 55 ára og eldri. Þá er algengara að karlar þurfi að fara í kransæðavíkkanir en konur, auk þess sem sjúkdómurinn gerir yfirleitt seinna vart við sig hjá konum en körlum.

Reykingar flýta sjúkdómnum
Kristján var spurður hvað fólk gæti gert til að eiga síður á hættu að þurfa á þjónustu deildar hans að halda. Hann sagði að það gilti um kransæðasjúkdóma líkt og ýmsa fleiri að þeir vildu liggja í ættum. Fólk með ættarsögu kransæðasjúkdóma getur þó dregið úr líkum á að sjúkdómurinn geri vart við sig. Þar skiptir miklu að hreyfa sig reglulega, gæta að mataræði og líkamsþyngd en ekki síst að reykja ekki.

Kristján tók sem dæmi tvo einstaklinga með sömu ættarsögu kransæðasjúkdóms. Reykti annar þeirra mætti hann búast við að sjúkdómurinn gerði vart við sig tíu árum fyrr en sá sem ekki reykti.

- Auglýsing -

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

Morgunblaðið 14.05.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-