-Auglýsing-

Heimkoman

HjartaAð koma heim eftir alvarlegt hjartaáfall er erfitt og margir hlutir eru manni ókunnir og ef maður er óvanur að taka inn lyf getur það verið töluvert flókið að finna út úr því og einsemdin sækir að manni.

Þegar ég kom heim eftir hjartaáfallið mitt fyrir tíu árum síðan bjó ég einn og það var erfitt að eiga ekki öxl til að halla höfðinu að þegar blés á móti. Þetta er sagan um heimkomuna.

Eftir að hafa dvalið á sjúkrahúsinu í 10 daga fór ég heim en það var ekki létt verk og andleg jafnt sem líkamleg líðan ekki góð. Ég hafði fengið hjartaáfall, stóð með fullt fangið af lyfseðlum sem ég vissi ekkert hvernig ég átti að raða saman, mér féllust hendur og yfir mig helltist kvíði og nagandi óvissa, framtíð mín óljós og ég gerði mér enga grein fyrir því sem raunverulega hafði komið fyrir mig.

Eftir að hafa fengið kvíðakast þegar átti að útskrifa mig hafði ég fengið að vera eina nótt í viðbót á sjúkrahúsinu og var ákveðið að ég færi í kjölfarið á sjúkrahótel þar sem starfsfólk gæti aðstoð mig og hjálpað mér að stíga fyrstu skrefin í hinu nýja lífi. Þetta hjálpaði mér að komast í gegnum hugsanirnar og kvíðann sem fylgdu því að yfirgefa öryggi sjúkrahússins, fara heim og hugsa um mig sjálfur en á þessum tíma bjó ég einn. Það var jafnframt ákveðið að á meðan ég væri að bíða eftir að komast í endurhæfingu kæmi ég í viðtöl til sálfræðings til að hjálpa mér yfir erfiðustu skaflana til að byrja með.

Þegar heim kom grunaði mig að ekkert yrði sem fyrr og í rauninni fannst mér stundum eins og lífi mínu væri lokið eins og ég hafði þekkt það. Þrátt fyrir að búið væri að opna æðina sem stíflaðist voru miklar skemmdir á hjartavöðva og alls óvíst hvernig mér myndi reiða af og næstu mánuðir myndu leiða hin raunverulega skaða í ljós. Þetta var tími mikillar óvissu og ég var hræddur og einsemdin herjaði á mig.

Áður en ég gæti hafið endurhæfingu á Reykjalundi þurftu að líða sex vikur og tók nú við biðtími þangað til endurhæfingin hæfist og á þessum sex vikum gæfist mér kostur á því að kynnast þessum nýja mér sem kom mér satt best að segja ókunnuglega fyrir sjónir og þegar ég leit í spegil þekkti ég varla manninn. Maðurinn sem ég hafði þekkt hafði verið stór, sterkur, glaðlegur og með glampa í augunum, fullur af lífi en maðurinn sem ég sá var grár og guggin með sorgmædd augu, það vantaði gneistann.

- Auglýsing-

Þessi tími heima var mér erfiður og fékk auðugt ímyndunarafl mitt að valsa um óáreitt, ég var hræddur um að deyja og óvissan um framtíð mína var algjör og þrúgandi. Mér fannst ég vera í frjálsu falli og ekki hafa neina stjórn á lífi mínu, ég var ósjálfbjarga.

Við veikindi mín hrundi fjárhagur minn á einni nóttu og var ég algjörlega komin upp á náð og miskunn ættingja og vina. Sigrún systir mín fór með mér fyrstu ferðina í apótekið og ég átti ekki fyrir lyfjunum sem hún greiddi fyrir mig. Mamma fór í búð fyrir mig og keypti mat handa mér, ég var bjargarlaus. Fyrstu vikurnar eftir áfallið var ég allsófær um að geta einbeitt mér að þeim veraldlegu vandamálum sem héngu yfir mér, þau skiptu mig engu máli.

Mér þótti erfitt að fara að sofa á kvöldin því þá helltist yfir mig sú hugsun að ég myndi kannski ekki vakna aftur. Mér fannst ég um margt vera deyjandi maður og það var vond tilfinning að finnast lífið búið en ég hugsaði stundum með mér að kannski væri best að deyja því ég gat ómögulega komið auga á hvernig mér ætti að takast að koma lífi mínu á réttan kjöl. Samt var það svo undarlegt að ég vaknaði á hverjum morgni þakklátur fyrir að fá að gjöf annan dag og í því fólst ákveðin von, von sem ég skildi ekki alveg þá en átti eftir að hjálpa mér seinna.

Vikurnar liðu og smám saman fann ég hvernig andlegt ástand mitt fór að taka breytingum og áhugi minn á lífinu vaknaði en ég var sorgmæddur og áttavilltur. Fólkið sem stóð mér næst lagði sig í líma við að gera mér lífið sem bærilegast og var ég þakklátur fyrir það.

Ég fann hvernig líkami minn breyttist, ég léttist mikið og fann hvernig líkamlegt atgervi almennt fór niður á við. Tilfinningin var dálítið eins og ég væri allur að bráðna og skreppa saman, verða að engu.

Ég hugsaði mikið um hvað mig vantaði stuðning þrátt fyrir viðtölin og heimsóknir á endurhæfingardeild sjúkrahússins og þó ég hefði fjölskyldu mína fannst mér eins og mig vantaði einhvern að tala við, ég saknaði þess að vera ekki í sambandi við Mjöll, þar hafði ég verið auli.

Minnisleysi var áberandi og almenn geta til að innbyrða upplýsingar í margmenni var lítil sem engin fyrstu vikurnar. Spurningarnar voru margar en þær komu yfirleitt ekki fyrr en um hægðist í höfðinu á mér á kvöldin en þar var allt á rúi og stúi.

Dag einn fékk ég svo símtal um að ég ætti að mæta á Reykjalund í endurhæfingu og yrði í innlögn. Ég dró andann djúpt og léttirinn var mikill, ég hafði lifað heimkomuna af.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-