-Auglýsing-

Heilbrigðisþjónusta hér er í fremstu röð

Árangur í heilbrigðisþjónustu á Íslandi er með því sem best gerist í heiminum, þrátt fyrir að hún sé ekki sú dýrasta. Gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu, góð menntun lækna og góð þekking almennings ræður þar mestu. Þetta kemur fram í nýrri grein í Læknablaðinu, sem fjórir íslenskir sérfræðingar hafa tekið saman.

“Þetta segir okkur til dæmis að ef þú færð hjartaáfall, þá væri best fyrir þig að vera annað hvort á Íslandi eða í Svíþjóð,” segir Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, einn af höfundum greinarinnar.

Hann vísar þarna í alþjóðlega rannsókn á kransæðasjúkdómum, sem Íslendingar hafa tekið þátt í frá árinu 1982. Niðurstöður hennar sýna að Ísland, Svíþjóð og Noregur ná bestum árangri þegar skoðað er hve margir hafa lifað af áfallið.

“Varðandi krabbameinssjúkdóma, þá sýna krabbameinsskrár, sem haldnar eru í öllum löndum, að þegar skoðað er hve margir eru lifandi fimm árum eftir að þeir veikjast, þá kemur aftur í ljós að við erum ásamt Svíum í fremstu röð í Evrópu. Varðandi árangurinn koma Bandaríkjamenn víða einna best út, en skráningin er ekki eins traust þar því að erfitt er að fylgja fólki eftir.”

Í greininni í Læknablaðinu er einnig skoðað hvaða árangur hefur náðst hér á landi í baráttunni við augnsjúkdóma, og þá kemur í ljós að tekist hefur að draga til dæmis úr tíðni blindu vegna gláku frá því að vera með því hæsta sem þekktist í Evrópu um miðja síðustu öld niður í þá lægstu í Evrópu.

Ólafur segir einkum þrennt skýra þennan góða árangur, þótt fleira megi væntanlega tína til að auki.

“Eitt er það hve gott aðgengi er að heilbrigðisþjónustu hér á landi, annað er að við eigum vel þjálfaða lækna og sérfræðinga, og svo er þetta ekki síst því að þakka að almenningur virðist vera mjög vel upplýstur og fylgist vel með.”

- Auglýsing-

Hann vill einnig taka fram, að þótt margir séu oft að tönnlast á því hve dýr heilbrigðisþjónustan er hér á landi, þá hafi komið fram í Hagtíðindum á síðasta ári að í samanburði við aðrar OECD-þjóðir er Ísland í 10. til 11. sæti hvað kostnað hennar varðar.

“Þetta kom í ljós eftir að Hagstofan fór að taka þetta saman á sama hátt og aðrar þjóðir, nefnilega hvað varðar framlag af landsframleiðslu til heilbrigðisþjónustunnar.”

Auk Ólafs eru höfundar greinarinnar í Læknablaðinu þeir Gunnar A. Ólafsson, sem er sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, Jón G. Jónasson, prófessor í krabbameinsfræðum, og Friðbert Jónasson prófessor í augnsjúkdómum.

– gb

Fréttablaðið 16.02.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-