-Auglýsing-

Göngudeild hjartabilunar 20 ára

Starfsmenn Göngudeildar hjartabilunar 2004. Axel F. Sigurðsson hjartalæknir, Anna G. Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur og Ingveldur Ingvarsdóttir sjúkraþjálfari. Í pontu er Guðbjörg Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri deildarinnar.

Göngudeild hjartabilunar var opnuð í febrúar 2004 og fagnar því 20 ára afmæli á þessu ári. Af því tilefni var á dögunum efnt til hátíðarmálþings þar sem farið var yfir starfsemina, þróun og verkefni deildarinnar í gegnum tíðina sem var afar fróðlegt.

Þar var auk þess farið yfir starfsemi kransæðagöngudeildarinnar og að lokum kynnt ný þjónusta við hjartasjúklinga Göngudeild arfgengra hjartasjúkdóma/Göngudeild hjartasláttatruflana.

Ég mætti á málþingið og það rifjaðist upp fyrir mér að sennilega hef ég verið með þeim fyrstu sem fengu að njóta þjónustu Göngudeildar hjartabilunar þegar hún var opnuð. Ég á skemmtilega handbók frá Göngudeildinni með mælingum fyrstu árin mín þar og fyrsta færslan er frá 10/2 2004. Ég leyfi mér að fullyrða að Göngudeildin hélt í mér lífinu fyrstu árin þegar veikindi mín voru virkilega erfið viðureignar og alls óvíst hvernig mér myndi vegna.

-Auglýsing-

Ég sé á bókinni að ég er þarna samfellt í þjónustu til loka ágúst 2008 en 2009 flutti ég til Danmerkur í þrjú ár. Síðan ég flutti heim hef ég stundum þurft á þjónustu deildarinnar að halda og þar hefur mér ætíð verið vel tekið og hef ég þegið þar margvíslega þjónustu. Ég hef síðan verið þarna í fóstri samfellt síðan í ágúst á síðasta ári og er ég einstaklega þakklátur fyrir að eiga þar skjól.

Þeim sem stóðu í stafni í upphafi og við stofnun deildarinnar var þakkað fyrir sitt framlag.

Göngudeildin hefur margsannað mikilvægi sitt fyrir hjartabilaða og ég leyfi mér að fullyrða að deildin hefur sparað Landsspítalanum ansi margar milljónir í gegnum tíðina, komið í veg fyrir margar dýrar innlagnir og aukið lífsgæði þeirra sem þar eru í þjónustu. Starfsfólkið er einstaklega hlýlegt og úrræðagott og það léttir svo sannarlega lífið þegar sjúkdómurinn tekur í og fer að taka óþarflega mikið pláss.

Eins og margir langvinnir sjúkdómar þá er hjartabilun á köflum einmannalegur sjúkdómur. Einkenni geta breyst frá degi til dags og þarf sá hjartabilaði að sníða allt sitt líf eftir því hvernig einkenni eru hverju sinni. Það má segja að hjartabilun sé marglaga sjúkdómur og einkenni mjög breytileg frá einni manneskju til annarrar. Þetta gerir það að verkum að starfsfólk deildarinnar þarf að setja sig inn í ástand hvers og eins og þjónustan þar með mjög einstaklingsmiðuð. Því miður er það svo að það er eðli hjartabilunar að fara heldur versnandi þegar líður á en þar hafa þættir eins og aldur mikið að segja.

Hér fyrir neðan er flokkun á stigum hjartabilunar eins og þau eru skilgreind samkvæmt alþjóðlegum staðli.

  • Flokkur I Engin skerðing á þreki; venjuleg áreynsla leiðir ekki til óeðlilegrar þreytu, mæði eða hjartsláttareinkenna.
  • Flokkur II Væg skerðing á þreki; engin einkenni í hvíld en venjuleg áreynsla veldur þreytu, mæði eða hjartsláttareinkennum.
  • Flokkur III Mikil skerðing á þreki; engin einkenni í hvíld en þau koma fram við litla áreynslu.
  • Flokkur IV Sjúklingur getur ekkert gert án þess að fá einkenni; Þau eru oft til staðar í hvíld og aukast við minnstu áreynslu.

Eins og sést hér að ofan lýsir hjartabilun sér ekki eins hjá öllum og sjúklingur getur farið á milli flokka eftir því hvort hann á góðan dag eða slæman. En á heildina litið geta margir hjartabilaðir lifað nokkuð eðlilegu lífi, innan skynsemismarka á meðan aðrir þurfa að hafa mikið fyrir athöfnum daglegs lífs og lifa við verulega eða mikið skert lífsgæði.

- Auglýsing-

Af þessu má sjá að Göngudeild hjartabilunar er mikilvæg og skiptir notendur þjónustunnar gríðarlega miklu máli í daglegu lífi til að viðhalda lífsgæðum eins og kostur er.

Það skal þó tekið fram að eftir því sem læknisfræðinni fleygir fram fjölgar þeim sem lifa af hjartaáföll og um leið hefur þeim fjölgað sem lifa með hjartabilun til lengri tíma. Ný lyf hafa breytt miklu og ný meðferðarúrræði eins og gangráðar af ýmsu tagi hafa í sumum tilfellum gjörbreytt lífsgæðum sjúklinga með hjartabilun.

Göngudeildin er sannarlega ljósið sem lýsir upp tilveruna hjá hjartabiluðum.

Með kæru þakklæti fyrir samfylgdina síðustu 20 ár.

Björn Ófeigsson.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-